Dennis Riege t.v. ásamt Bjarka Þór Kjartanssyni, sérfræðingi á rannsóknasviði Skógræktarinnar, við rannsóknir í Skarfanesi á Landi. Ljósmynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson
Frumniðurstöður rannsóknar bandaríska vistfræðingsins Dennis A Riege benda ekki til þess að trjátegundir sem notaðar eru í nytjaskógrækt á Íslandi séu ágengar. Þær dreifa sér hægt út fyrir skógræktarsvæði og einkum á rofið land en ná sér ekki á strik þar sem gróður er þéttur. Dennis segir íslenska birkið mun duglegra að dreifa sér en stafafura geti mögulega hjálpað birkinu að nema ný lönd með skjólinu sem hún veitir og jarðvegsbætandi eiginleikum.
Dennis Riege kynnti starfsfólki Skógræktarinnar þessar frumniðurstöður sínar í fyrirlestri á Mógilsá í gær, 31. október. Hann dvelur nú hér á landi á Fullbright-styrk og fylgir eftir rannsóknarverkefni sem bandaríska landfræðifélagið National Geographic studdi hann til svo hann gæti rannsakað sjálfsáningu innfluttra trjátegunda á Íslandi. Eftir er að fullvinna niðurstöðurnar og vinna þær til birtingar.
Rannsóknarspurningin í verkefni Dennis á Íslandi var hvort innfluttar trjátegundir hérlendis væru ágengar og af þeim stafaði þar með ógn fyrir íslenska náttúru eða hvort þessar tegundir væru ef til vill bjargvættur gegn þeirri eyðimerkurmyndun sem geisað hefur á Íslandi um aldir. Niðurstöður hérlendis segir hann í spjalli við vef Skógræktarinnar vera í samhljómi við niðurstöður úr rannsóknum vestan hafs, að ekki sé fræðilegur grundvöllur fyrir því að skilgreina trjátegundir eins og stafafuru, sitkagreni og rússalerki sem ágengar í íslenskri náttúru.
„Ég kom hingað upphaflega í fylgd konu minnar sem var í bandaríska hernum og starfaði í herstöðinni á Keflavíkurflugvelli á árunum 2000-2003,“ segir Dennis. „Þá hafði ég nýlokið doktorsgráðu minni sem snerist um rannsóknir á sitkagreni, meðal annars sjálfsáningu þess, í Olympic-þjóðgarðinum í Washingtonríki. Ég setti mig í samband við Mógilsá, rannsóknasvið Skógræktarinnar, og komst að því að þar var þegar áhugi á því að rannsaka mögulega sjálfsáningu sitkagrenis á Íslandi. Af því leiddi meðal annars umsóknin um styrk til National Geographic mörgum árum síðar.“
Tré dreifa sér lítt í þétta gróðurþekju
Olympic-þjóðgarðurinn nær meðal annars yfir svæði þar sem áður var búskapur á bændabýlum. Í rannsóknum sínum á sjálfsáningu sitkagrenis þar komst Dennis að því að grenið ætti mjög erfitt með að sá sér út í mjög vel gróin svæði, til dæmis gömul tún sem standa enn auð þrátt fyrir að búskapur hafi verið aflagður fyrir mörgum áratugum. „Ég hef farið víða um Ísland í leit að svæðum til að rannsaka sjálfsáningu innfluttra tegunda en einkum um Suður- og Vesturland, Vestfirði og austur á Hérað,“ segir Dennis. Hér hafi komið svipaðir hlutir í ljós og í Olympic-þjóðgarðinum vestra.
„Eina innflutta barrtrjártegundin sem hér virðist duglegri en aðrar að sá sér út fyrir ræktaða skógarteiga er stafafura,“ segir Dennis. Dæmi megi finna um sjálfsáð rússalerki og sitkagreni á stöku stað, en slíkt sé miklu sjaldséðara. Tvennt sýnist honum á frumniðurstöðum sínum að hindri helst sjálfsáningu innfluttra trjátegunda á Íslandi út frá skógræktarsvæðum. „Í fyrsta lagi eiga þær erfitt uppdráttar þar sem gróðurþekja er mjög þétt. Fræin ná ekki að spíra og þótt þau spíri verða þau undir í samkeppninni við annan gróður. Í öðru lagi er það samkeppnin við íslenska birkið sem er miklu duglegra að sá sér út og nær því yfirleitt forskoti á til dæmis stafafuruna við að nema ný lönd,“ segir hann. Auk þess virðist sem barrviðartegundirnar eigi mjög erfitt með að sá sér út í birkiskógi eða birkikjarri. Út frá því sé ekki sjáanleg hætta á því að t.d. stafafura geti lagt undir sig birkiskóglendi og rutt birkinu úr vegi.
Mun meiri sjálfsáning birkis
en furan getur þó hjálpað birkinu
Upp úr stendur eftir vettvangsrannsóknirnar, segir Dennis A Riege, hversu erfitt var að finna staði til að rannsaka því innfluttu tegundirnar séu alls ekki að dreifa sér mikið. „Íslenska birkið, sem er vel aðlagað íslenskum aðstæðum, er hins vegar að dreifa sér mjög mikið,“ segir hann. Á hinn bóginn segir hann að þar sem innfluttu tegundirnar vaxa í grennd við beitarfriðuð, gróðurlítil eða gróðurlaus svæði, til dæmis mela og auðnir eða vegkanta og annað raskað land, eigi þær meiri möguleika á að dreifa sér. Sérstaklega eigi það við um stafafuruna sem er frumherjaplanta eins og birkið. Stafafuran eigi samt hægara um vik að vaxa og dafna í næringarsnauðum jarðvegi en birkið.
Sums staðar eru vísbendingar um að stafafuran hjálpi jafnvel birkinu að festa rætur og vaxa í örsnauðum jarðvegi með því að bæta jarðveginn, segir Dennis enn fremur. „Ég hygg að birkið verði áfram sú tegund sem muni dreifa sér mest á Íslandi. Hins vegar vitum við að landfræðilega er Ísland í barrskógabeltinu. Barrviðartegundir hafa einfaldlega ekki náð að berast hingað aftur eftir síðustu ísöld fyrr en nú. Ég tel að stafafuran geti hreinlega hjálpað íslenska birkinu að dreifast út á ofbeittum og snauðum auðnum Íslands með skjólinu sem hún veitir og jarðvegsbætandi eiginleikum,“ bætir hann við að lokum.
Spennandi verður að sjá endanlegar niðurstöður úr rannsóknum Dennis A Riege þegar þær birtast í ritrýndum vísindatímaritum.