(Mynd: Hekluskógar)
(Mynd: Hekluskógar)

Ágætis fræár virðist vera í uppsiglingu á sunnanverðu landinu eftir ágætis sumar. Þrátt fyrir kulda í vor virðist birkifræ hafa náð að þroskast og er nú orðið tímabært að tína birkifræin.

Nú þegar er hægt að safna birkifræinu jafnvel þó könglarnir séu ekki orðnir brúnleitir. Ef geyma á fræið yfir veturinn er best að þurrka það áður en það er sett í geymslu og geymist það best við 4°C yfir veturinn. Ef sá á fræinu beint út er best að geyma fræið sem styst og dreifa því strax að hausti. Nánari upplýsingar um fræsöfnun og meðferð birkifræs má sjá á fróðleikssíðum Hekluskóga.

Birkisáningar hafa víða gefist ágætlega og má um allt land sjá skóga sem vaxið hafa upp af fræi. Í ljósi þess að töluvert er af birkifræi leita Hekluskógar til almennings um söfnun á fræi fyrir verkefnið. Verður því birkifræi sem safnast sáð í haust á hentugum svæðum innan Hekluskóga. Stór kostur er að dreifa má fræinu um torfært land þar sem gróðursetning er erfið og sá fræum beint t.d. brattlendi eða hálfgróin hraun.

Í einu grammi af þurru birkifræi geta verið allt að 500-1000 spírandi fræ, svo fljótlegt er að safna töluverðu magni fræja. Almenningur er hvattur til að njóta fagurra haustlita og safna birkifræjum í leiðinni. Gildir þar einu hvort um er að ræða garðtré eða skógartré. Fólk er þó hvatt til að velja falleg og kröftug tré til að safna af.

Senda má birkifræið til Hekluskóga í Gunnarsholti, 851 Hella, eða hafa samband við verkefnisstjóra í síma 899 1971 / hreinn@hekluskogar.is um hvernig best sé að koma því til skila. Starfsfólk Hekluskóga þakkar kærlega þeim sem styðja vilja við verkefnið á þennan hátt.


Frétt og mynd: Hekluskógar