Hluti forsíðu Birkiblaðsins sem kom út sem aukablað með Bændablaðinu 9. september
Hluti forsíðu Birkiblaðsins sem kom út sem aukablað með Bændablaðinu 9. september

Skógræktin tekur þátt í átaki til söfnunar og sáningar á birkifræi nú í haust með sama sniði og í fyrra. Átakið er skipulagt með Landgræðslunni í samvinnu við nokkur samtök og fyrirtæki. Öfugt við síðasta ár er mest fræ að finna norðan- og austanlands en minna á Suður- og Vesturlandi. Alls staðar er fólk þó hvatt til að fara út og leita því lengi má finna fræ þótt ekki sé metár á öllum svæðum.

Fjallað er um verkefnið í Birkiblaðinu, aukablaði sem kom út með Bændablaðinu 9. september. Í haust verður hægt að nálgast öskjur til frætínslu í verslunum Bónus um land allt og á fleiri stöðum sem tilteknir eru á vef verkefnisins, birkiskogur.is. Þá verður sömuleiðis hægt að skila fræi í fræsöfnunartunnur sem eru í Bónus, á tilteknum Olís-stöðvum, Skagfirðingabúð á Sauðárkróki og víðar. Starfsfólk Landgræðslunnar og Skógræktarinnar tekur sömuleiðis við fræi á starfstöðvum um allt land.

Ekki er nauðsynlegt að skila fræinu inn. Ef fólk veit um staði þar sem dreifa má birkifræi er upplagt að fara eftir leiðbeiningum sem finna má á birkiskogur.is og sá fræinu á eigin spýtur. Mikilvægt er að fræið komist á bletti þar sem einhverja rótfestu er að finna og nægan raka til að fræið nái að spíra og hefja vöxt. Hér til hægri má líka smella á myndbönd sem Skógræktin gaf út í fyrra með leiðbeiningum um annars vegar söfnun á birkifræi og hins vegar á sáningu.

Átakið er liður í því að útbreiða á ný birkiskóglendi sem þakti a.m.k. fjórðung landsins við landnám. Að útbreiða birkiskóglendi hefur verið annað meginverkefni Skógræktarinnar frá stofnun ásamt ræktun skóga til nytja. Með aukinni áherslu á aðgerðir gegn loftslagsvánni er líka vert að benda á að á rýru, skóglausu landi er gjarnan kolefnislosun því þar er gamall jarðvegur enn að rotna. Ef landið klæðist birkiskógi stöðvast þessi losun og binding hefst í staðinn. Útbreiðsla birkiskóglendis er því líka loftslagsverkefni.

 

Við fræsöfnunina er gott að hafa í huga að tína helst fræ af fallegum, beinvöxnum trjám, helst þeim sem eru hlaðin bústnum fræreklum. Þau eru líklegust til að geta af sér gott birki sem er duglegt að sá sér út af eigin rammleik. 

Birki er frumherjategund sem sáir sér mikið út á eigin spýtur ef hún fær til þess frið. Birkið heldur því starfinu áfram ef vel tekst til að koma því af stað á nýjum svæðum. Landgræðslan og Skógræktin vilja auka vitund og áhuga fólks á eflingu náttúrunnar og útbreiðslu birkis, víðis og annars gróðurs á landinu. Verkefni af þessu tagi hvetur fólk til að taka til hendinni í umhverfismálum.

Söfnum og sáum birkifræi! 

Texti: Pétur Halldórsson