Útbreiðsla og áhrif hennar á birkið könnuð í nýju rannsóknarverkefni

Mikið ber á brúnu birki á höfuðborgar­svæðinu og víðar þessa dagana. Fólk hefur af þessu áhyggjur og vill vita hverju sæti. Skaðvaldurinn eru lirfur birkikembu (Heringocrania unimaculella). Birkikembu­fiðrildið verpir í lauf birkis þar sem eggin klekjast út og lirfan tekur að éta blaðholdið innan frá. Blöðin verða því brún og hálf gegnsæ. Séu þau borin að ljósi má sjá lirfuna í blaðinu sé hún enn til staðar eða úrganginn úr henni.

Birkikemba fannst fyrst árið 2003 á Suð­vestur­landi og hefur síðan verið að dreifast um landið. Ummerki um hana hafa fundist á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri og í Skafta­fellssýslu.

Að sögn Eddu Sigurdísar Oddsdóttur, forstöðumanns á Rannsóknastöð Skógræktar Mógilsá, er lirfan sjálf líklega búin að púpa sig eða alveg að því komin þannig að úðun dugar tæplega úr þessu. Reyndar segir hún alltaf mjög erfitt að úða gegn birkikembunni. Lirfan lokar sig inni milli laga í blöðunum og vandi er að ná til hennar með eitrinu. 

Þar sem birkikemban er tiltölulega nýr skaðvaldur hérlendis eru áhrif hennar ekki að fullu ljós, en binda má vonir við að birkið nái að klæða þetta af sér með nýjum sprotum að einhverju leyti í sumar. Það ætti að gerast, segir Edda, svo framarlega sem ekki verði miklar skemmdir af völdum annarra fiðrildalirfa. Ef vaxtartíðin verður áfram góð gætu áhrif birkikembunnar því horfið, a.m.k. að talsverðu leyti, strax í sumar.


Reynslan hefur sýnt að einstaka kvæmi og klónar sömu trjátegunda bregðast misjafn­lega við. Brynja Hrafnkelsdóttir, sérfræð­ingur á Mógilsá, fékk í ár styrk frá Fram­leiðnisjóði landbúnaðarins til að rannsaka áhrif birkikembu á mismunandi birkikvæmi og kanna útbreiðslu birkikembunnar um landið. Það er því vel þegið að fá sendar inn upplýsingar um fundarstaði birkikembu, sérstaklega ef þeir eru utan þess svæðis sem hún hefur nú þegar fundist á. Hægt er að senda upplýsingar til Brynju á netfangið brynja@skogur.is og best er ef mynd af skemmdum laufblöðum fylgir með.

Á efri myndinni má sjá birkikembu sitja á greinarenda en á þeirri neðri sjást skemmd­ir af völdum lirfunnar.

Texti: Pétur Halldórsson og Edda S. Oddsdóttir
Myndir: Brynja Hrafnkelsdóttir