Eigendur fyrirtækisins eru þau Bergrún Arna Þorsteinsdóttir, Guðný Vésteinsdóttir og Þórólfur Sigjónsson á Hallormsstað. Stofnun fyrirtækisins má rekja til þess að veturinn 2009 sóttu þær Bergrún og Guðný námskeið á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Þar einbeittu þær sér að vinnslu náttúruafurða, uppskáru viðurkenningu og ákváðu í framhaldinu að láta reyna á framleiðsluna undir nafninu Holt og heiðar ehf.

„Fyrstu vörurnar sem við framleiddum voru rabarbarasulta og birkisíróp. Nú höfum við bætt við birkisafa, auk þess sem við seljum köngla og frosna og þurrkaða lerki- og furusveppi,” segir Bergrún.

Framleiðsla Holta og heiða er söguleg fyrir þær sakir að birkisafi og –síróp hefur ekki verið framleitt til sölu áður hér á landi. Bergrún segir hugmyndina vera að blanda saman gömlu og nýju í framleiðslunni. „Rabarabarann kannast auðvitað allir vel við en birkisafinn og afurðir úr honum eru alveg nýjar fyrir okkur Íslendingum.”

frett_24082010_1Viðtökurnar hafa verið góðar þótt sumar vörurnar séu framandi. „Við byrjuðum að selja vörurnar okkar á markaði í lok júní á þessu ári. Viðtökurnar hafa verið virkilega  góðar og  fólk er mjög jákvætt,” segir Bergrún. „Núna er birkisafinn aðeins seldur beint frá okkur. Geymsluþol safans er mjög lítið, eða aðeins 4-5 dagar í ísskáp. Þess vegna seljum við hann frosinn og markmiðið er að þróa hann frekar, skoða hvort hugsanlega er hægt að selja hann ófrosinn og koma honum betur á framfæri og inn í verslanir.”

Í birkisafanum eru mikil steinefni, andoxunarefni og sykrur. Hann er sagður hafa ýmis heilnæm áhrif, s.s. hafa yngingaráhrif, efla kynhvöt, bæla frjókornaofnæmi og hafa góð áhrif á húð, hár og neglur.

frett_24082010_2Framundan hjá Holtum og heiðum er frekari vöruþróun, segir Bergrún. „Núna fyrir Ormsteiti kom ný vara frá okkur, rabarasulta með vanillu. Í vetur æltum við að fjölga sultutegundum en það er óvíst nákvæmlega hvaða stefnu við tökum í því. Við erum með margar hugmyndir. Fyrir jólin komum við svo með aðra nýung sem gengur undir nafninu Desertinn hennar ömmu. Þetta var jólamatur á mörgum heimilum á Héraði fyrir nokkru og margir kannast enn við hann. Í honum eru rabarahófar með sveskjum.”


Á vefsíðu Holta og heiða ehf má finna upplýsingar um vörurnar og sölustaði.


Texti: Esther Ösp Gunnarsdóttir, kynningarstjóri SR
Myndir: Holt og heiðar ehf