Sent til allra lögbýla á landinu

Málgagn Landsamtaka skógareigenda, Við skógareigendur, er komið út og hefur verið sent til skógarbænda og í póstkassa allra lögbýla um land allt. Þessi dreifing blaðsins er nýbreytni og vonast er til að það mælist vel fyrir og áhugi vakni hjá fleirum að græða landið upp með fallegum skógi og auknum atvinnutækifærum í skógrækt. Margt áhugavert efni er að finna í blaðinu og er skjólbeltarækt til dæmis gert hátt undir höfði.

Meðal efnis í blaðinu er grein Sigríðar Júlíu Brynleifsdóttur, framkvæmdastjóra Vesturlandsskóga, sem reifar strauma og stefnur í málefnum skógareigenda í Skandinavíu og veltir fyrir sér horfum hér heima. Meðal annars brýnir hún skógareigendur að sýna frumkvæði, m.a. í afurðamálum. Einnig fjallar Pétur Halldórsson um sameiningu skógræktarstofnana ríkisins í eina nýja stofnun, Skógræktina, og rekur sameiningarferlið undanfarin misseri.

Skjólbeltarækt fær talsvert rúm í blaðinu að þessu sinni enda mikilvægt málefni fyrir alla bændur og aðra sem nýta landið. Guðný Helga Björnsdóttir og Jóhann Birgir Magnússon, bændur á Bessastöðum á Heggstaðanesi, eru meðal atorkumestu skjólbeltaræktenda landsins. Þau segja reynslu sína, ræða um mismunandi tegundir og reifa kosti skjólbeltanna fyrir ásýnd lands, velferð skepna og vöxt annars gróðurs. Á svipuðum nótum skrifa þau Sveinn Ingvarsson og Katrín Andrésdóttir, bændur í Reykjahlíð á Skeiðum þar sem aðstæður eru nokkuð ólíkar Heggstaðanesinu. Í Reykjahlíð eru aspir mikið notaðar í skjólbeltin og þau taka eftir því að gæsir og álftir sækja síður í tún eða akra sem umkringdir eru skjólbeltum. Næst beltunum sé líka merkjanlega meiri uppskera en fjær þeim og skepnur njóti góðs af skjólinu. Samson B. Harðarson og Steinunn Garðarsdóttir, Landbúnaðarháskóla Íslands, skrifa líka um skjólbeltarækt og verkefnið Skjólbelti framtíðar sem gengur út á að finna hentugan efnivið til skjólbeltaræktar.

Fjallað er í blaðinu um viðarvinnslustöðina á Ytri-Víðivöllum II  í Fljótsdal, Guðríður Baldvinsdóttir í Lóni, Kelduhverfi, skrifar um beitarskógrækt og Helga Önundardóttir á Tröð í Önundarfirði um líf sitt með trjánum. Else Möller skrifar um hraðræktun jólatrjáa á ökrum og Sævar Hreiðarsson, skógarvörður í Heiðmörk og meistaranemi í skógfræði, segir frá fyrstu rannsókninni hérlendis á viðarþéttleika sitkagrenis og stafafuru. Nýjar leiðir til framleiðslu fiskafóðurs úr úrgangsstraumum timburverksmiðja eru til umfjöllunar í grein eftir Birgi Örn Smárason og loks skrifar Lilja Magnúsdóttir, skógarbóndi í Tálknafirði, um niðurstöður spurningakönnunar sem hún gerði í tengslum við meistaraverkefni sitt í skógfræði. Þar kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós um það hverjir eru skógarbændur á Íslandi.

Ný ritnefnd frá Félagi skógarbænda á Vestfjörðum tók við blaðinu Við skógareigendur í ársbyrjun. Í ritnefndinni sitja þær Lilja Magnúsdóttir, Helga Dóra Kristjánsdóttir og Oddný Bergsdóttir auk framkvæmdastjóra LSE, Hrannar Guðmundsdóttur, og Björgvins Arnar Eggertssonar frá Landbúnaðarháskólanum.

Texti: Pétur Halldórsson