70 slíkar má reisa með þeirri orku sem fer í að reisa eina steypta blokk

Viðarteningur gæti verið íslenskt heiti á fyrstu fimm hæða íbúðablokkinni í Hamborg í Þýskalandi sem reist er að mestu leyti úr trjáviði. Byggingin er kölluð Woodcube upp á ensku og er í laginu eins og teningur með svalir á þrjár hliðar, stendur innan um hefðbundnar hvítar nútímablokkir og vekur þar mikla athygli. Timburblokk þessi var sýnd á alþjóðlegu byggingasýningunni IBA 2013 í Hamborg.

Húsið vakti verðskuldaða athygli og sýningargestir skoðuðu hana í krók og kring, spurðu margs, bönkuðu í veggi og fræddust um bygginguna og smíði hennar.

Í Woodcube-byggingunni eru gegnheilir viðarveggir úr níu lögum og eru viðirnir tappaðir saman með blindnöglum úr beyki. Enga málmhluti, plast, einangrun, lím eða nokkuð annað er að finna í veggjunum, eingöngu timbur. Verkefnið hefur verið þróað með aðferðum Austurríkismannsins Erwins Thoma sem sem er frumkvöðull á sviði visthæfra lifnaðarhátta og bygginga. Aðferð hans heitir Thoma Holz 100 en hét áður Thoma Holz 99. Munurinn er sá að í Holz 100 aðferðinni er búið að fjarlægja allar málmskrúfur. Notaðir eru tuttugu blindnaglar á hverjum fermetra til að halda saman lagskiptu timbrinu í veggjunum. Blindnaglarnir eru þurrkaðir þar til rakastigið er komið niður í 15% þannig að þeir þenjist út þegar þeir eru reknir í timbrið og festi vel.

Byggingaleyfið torsótt

Byggingameistari Woodcube-hússins í Hamborg, Matthias Korff, segir að talsvert púður hafi farið í að sannfæra byggingaryfirvöld um að óhætt væri að reisa hús sem væri í stórum dráttum eingöngu úr timbri. Ástæðuna fyrir því að ekki sé notað lím, plast eða nokkuð annað í veggi hússins segir hann vera þá að veggirnir eigi að vera opnir, loft eigi að geta leikið um timbrið svo það geti tekið í sig raka og hleypt honum frá sér. Á meðan loft geti leikið um byggingarefnið sé timbrinu óhætt.

Timbrið í veggjum hússins er bæði einangrandi og veitir vörn gegn bruna, öfugt við það sem fólk gæti haldið í fyrstu. En það var ekki auðvelt að telja yfirvöldin á að veita byggingarleyfi fyrir svo háu húsi sem eingöngu væri gert úr timbri. „Við erum í Þýskalandi,“ segir Matthias Korff „og hér eru reglur um alla hluti“. Í reglunum hafi menn ekki fundið neitt um hvernig fara ætti með þrjátíu sentímetra þykka timburveggi. Og af því að tilheyrandi regluverk fannst ekki segist Korff hafa orðið að sýna fram á það sjálfur að öllu væri óhætt.

Í þýskum eldvarnarreglugerðum segir til dæmis að veggur skuli standast eld í hálfa aðra klukkustund við eldsvoða. Korff segir að timburveggir eins og eru í Woodcube-húsinu hafi reynst þola 1.000 stiga hita í rúmar fimm klukkustundir. En eldvarnaryfirvöld kröfðust þess líka að lyftuhúsið í byggingunni yrði gert úr steinsteypu og það var gert en í kjölfarið var sú ákvörðun endurskoðuð og nú hefur verið veitt leyfi fyrir því að þessi hluti sambærilegra húsa megi vera gerður úr timbri líka.

Umhverfisáhrif

Eitt meginmarkmiðið með þessu verkefni var að hanna fjölbýlishús sem hefði sem minnst áhrif á umhverfið. Woodcube-húsið er til dæmis að mestu smíðað úr greni og lerki af trjám sem felld voru án þess að afkvista þau svo að rakinn færi fljótt úr þeim gegnum greinar og barr. Timbrið var svo látið þorna á löngum tíma í stað þess að þurrka það með orkufrekum tækjum.

Gerð var úttekt á kolefnislosun húsbyggingarinnar allt frá hráefninu sem í það fór og þar til húsið var tilbúið. Í ljós kom að við framkvæmdina spöruðust rúm 8.500 tonn af koltvísýringi miðað við það sem losnað hefði við sambærilega byggingu með hefðbundnum aðferðum. Þetta þýðir að með jafnmikilli orku og fer í að reisa eina hefðbundna fimm hæða íbúðablokk má reisa 70 Woodcube-blokkir, samkvæmt útreikningum byggingameistarans Korffs. Hann hefur nú sett á fót fyrirtæki sem heitir Deep Green til að útbreiða fagnaðarerindið um þessa framsæknu byggingaraðferð. Sýnt þykir að visthæf bygging sem þessi muni laða að húsbyggjendur og íbúðakaupendur. Ekki er mikil hefð fyrir timburhúsum í Norður-Þýskalandi en það gæti farið að breytast.

Woodcube-húsið er svokallað lágorkuhús og loftslagið innan húss er sagt vera sérlega gott. Og ef til vill mun það auka enn á þægindi og ánægju sumra væntanlegra íbúa að trén sem notuð voru við smíði hússins voru felld á fullu tungli.

„Þetta hljómar kannski eins og skot yfir markið,“ segir Korff, en samt sé það svo að aðdráttarafl tunglsins hafi áhrif á vatnið í viðnum. Fyrir sumt fólk sé þetta plús í öllu dæminu. Tilfinningin að vera í húsinu segir hann að sé eins og að vera innan í tré.



Ljósmyndir: Birtar með leyfi Deep Green IBA.
Myndir: Bernadette Grimmenstein, Deep Green Development, IBA Martin Kunze.
Heimildir: Deep Green IBA Hamborg og tímaritin Tidningen Trä og Skog