Það er ekki á hverjum degi að út koma bækur er fjalla um þjóðskóga Skógræktar ríkisins og sögu þeirra, en nú er komin út endurbætt útgáfa af bók Þórðar Tómassonar um Þórsmörk en sú bók kom fyrst út árið 1996. Nýja bókin ber heitið Þórsmörk - vinin í skjóli skóga og var henni ritstýrt af Ívari Gissurarsyni og Hálfdáni Ómari Hálfdánarsyni. Hefur verið bætt við köflum um dýralíf, gróðurfar og gönguleiðir, sem og að aðrir kaflar hafa einnig verið uppfærðir. Í bókinni er að finna afar áhugaverða lýsingu á tilurð og aðdraganda friðunar Þórsmerkur.

Þórsmörk og Goðaland eru friðlönd Skógræktar ríkisins og hafa skógar breiðst út, síðan landið var beitarfriðað á þriðja áratug síðustu aldar. Ljóst er að friðun Þórsmerkur og Goðalands kom í veg fyrir skógar og jarðvegseyðingu sem stefndi óðfluga í og var lýst í samtímaheimildum. Í dag er svæðið í huga margra ein helsta náttúruperla Íslands og afar fjölsóttur ferðamannastaður.


Það er mikill fengur af útkomu bókarinnar sem á án efa eftir að gleðja margan Merkurunnandan.



Texti: Hreinn Óskarsson
Mynd: Forlagið