Skógrækt ríkisins hefur ákveðið að fara í tilrauna- og þróunarverkefni í samstarfi við Skógráð ehf um sölu veiðileyfa á rjúpu í þjóðskógum landsins.

Í þessu vekefni hefur Skógrækt ríkisins það að leiðarljósi sem fram kemur í stefnu stofnunarinnar: „Að leitast við - með þekkingaröflun, faglegri leiðsögn og stöðugri endurskoðun starfseminnar – að nema auðnir, byggja upp skjól og næringarforða (í formi þekkingar), búa í haginn fyrir aðra, að hörfa síðan og nema nýjar auðnir eins og framsækinn og dugmikill frumherji í plönturíkinu. Skógrækt ríkisins leitast við að sinna hlutverki sínu þannig að skógrækt á Íslandi megi blómstra um ókomna framtíð.”

Skógráð hefur í samvinnu við hugbúnaðarfyrirtækið Austurnet látið hanna bókunarkerfi sem verður keyrt sem tilraunaverkefni á rjúpnaveiðitímabilinu haustið 2008. Á vefnum rjupa.is munu veiðimenn geta skoðað veiðisvæðin, en í upphafi verður boðið upp á einn þjóðskóg í hverjum fjórðungi. Veiðimenn geta á vefnum auk þess valið veiðidaga, lesið sér til um skilmála og verð veiðidags. Þá er mögulegt að prenta út kort með afmörkun valins svæðis þar sem hnitpunktar koma fram og einnig verður hægt að hlaða inn mörkum svæðanna í GPS tæki.

Veiðimenn þurfa að staðfesta að þeir hafi gilt veiðikort áður en þeir bóka kaupin. Að öllum skilyrðum uppfylltum er mögulegt að kaupa veiðileyfi, greiða fyrir með kreditkorti (eða millifæra í heimabanka) og prenta út kvittun. Kvittunin er höfð meðferðis á veiðunum til að hægt sé að staðfesta gagnvart veiðiréttahafa eða lögreglu rétt veiðimanns til veiðanna.

Það er von Skógræktar ríkisins að þetta fyrirkomulag muni hafa jákvæð áhrif á veiðimenningu Íslendinga og stuðli að öruggari og ánægjulegri veiðiferðum. Einnig er vonast eftir að með þessu sé réttur landeigenda virtur og þeim veiðimönnum sem hafa bókað og greitt fyrir leyfið sé sýnd sú tillitsemi að þeir geti veitt á svæðinu óáreittir. Mikil áhersla verður lögð á að veiðimenn skili inn veiðitölum í lok veiðidags í gegnum vefinn.

Ef verkefnið gengur vel sér Skógrækt ríkisins fyrir sér að vefurinn gæti undið upp á sig og hugsanlega nýst á fleiri máta. Sífellt fleiri landeigendur sæju sér líklega hag í að vera þáttakendur í verkefninu og þar með myndi svæði þar sem fyrirkomulagið er aðgengilegt og öruggt smám saman stækka. Gistihúsaeigendur og fólk sem rekur bændagistingu í nágrenni veiðisvæðanna hefur sýnt verkefninu áhuga og kemur til með að bjóða fram þjónustu sína.

Vefurinn rjupa.is verður opnaður næstkomandi föstudag.