Fengur fyrir alla trjáræktendur

Bókin Heilbrigði trjágróðurs eftir Guðmund Halldórsson og Halldór Sverrisson er nú komin út í breyttri mynd. Fyrri útgáfan kom út árið 1997 og seldist fljótlega upp. Nýja útgáfan er í stærra broti en sú fyrri og myndefni nýtur sín betur. Í nýju bókinni er kafli um vistkerfi skógarins, sem Edda Sigurdís Oddsdóttir skrifaði. Að öðru leyti fjallar bókin um skaða sem stafar af umhverfisþáttum og slæmum vaxtarkjörum, almennt um lífverur sem skaða tré og svo um skaðvalda á einstökum ættkvíslum og tegundum trjáa. Stuttur kafli er einnig um varnir og varnarefni gegn skaðvöldum.

Í mörg ár hefur fyrri bókin verið ófáanleg. Margir nýir skaðvaldar hafa bæst í flóru og fánu Íslands síðan sú bók var rituð. Talsvert hefur verið spurt eftir nýrri útgáfu sem nú hefur litið dagsins ljós. Það er von höfundanna að þessi bók gagnist jafnt áhugafólki um trjárækt og fólki sem vinnur við garðyrkju og skógrækt. Enn fremur ætti bókin að nýtast vel við kennslu í plöntuvernd. Áhugamenn um náttúru landsins munu einnig finna þarna marga fróðleiksmola.