Síðasti þátttur fjögurra landa þróunarverkefnisins Sjálfbærni í skógartengdu útinámi í Ártúnsskóla fór fram í grenndarskógi skólans í gær þegar nemendur í 5. bekk kynntu fyrir foreldrum sínum það sem þeir höfðu lært í verkefninu í vetur.

Krakkarnir stilltu sér upp og kynnti hver þeirra einn þátt. Verkefnunum var lýst, undirbúningi og vinnulagi í útináminu. Síðan mynduðu þeir hópa með foreldrum sínum og fóru með þeim í gegnum fjórar námsstöðvar þar sem þeir lærðu að kljúfa við og finna efni í smjörhníf á einni stöðinni, lærðu að snyrta tré og grisja á annarri, afberkja bol á þeirri næstu og síðan að tálga til spaghettigaffal til að taka með heim og nota. Þegar allir höfðu farið í gegnum allar stöðvarnar var boðið upp á eldbakað greinabrauð. Börn og foreldrar komu ýmisst gangandi eða hjólandi í grenndarskóginn enda er hann í jaðri byggðarinnar í Ártúninu í Elliðaárdalnum.

Þetta var sérlega ánægjulegur endir á skemmtilegu samstarfsverkefni, Lesið í skóginn, skólans og Noregs, Lettlands og Litháen en þessi verkefni munu fara í sameiginlegan verkefnabanka Sjálfbærni í skógartengdu útinámi sem aðgengilegt mun verða öðrum þjóðum í Evrópu og víðar í heiminum með alþjóðlegu samstarfi á sviði fræðslu um sjálfbærni og skógartengds útináms.

30052012-2

30052012-3

30052012-4

30052012-7

30052012-6

30052012-9

30052012-8

Texti og myndir: Ólafur Oddsson