Eitt af verkefnum í Haukadalsskógi á komandi sumri verður að ljúka við síðasta áfanga skógarstígs fyrir hreyfihamlaða.  Nýji hlutinn mun lengja stíginn úr einum upp í 1,4 km og liðast um opið land þar sem útsýni er að Geysi en einnig um furuskóga.  Eftir sumarið mun stígurinn ná að hinu gullfallega Svartagili.

Á leiðinni fer stígurinn yfir þrjá læki sem þurfti að brúa og var ákveðið að nýta við úr skóginum við brúarsmíðina eftir því sem hægt var.  Brúardekkin eru reyndar úr innfluttu timbri en burðarvirkið er úr sitkagrenibjálkum úr skóginum. Brýrnar eru 7-9 m langar og er hver þeirra gerð úr þremur bjálkum sem þurftu að vera nógu sverir til að bera mikla þyngd.  Ekki reyndist erfitt að finna nægilega stór tré í Haukadalsskógi, en það hæsta sem fellt var í þessum tilgangi var 18 m hátt. Brýrnar eru enn í smíðum en verða brátt kláraðar. Í sumar munu síðan verktakar leggja sjálfan stíginn.


frett_27032007