Rússalerki hentar sérlega vel til skógræktar á rýru landi, einkum á Norður- og Austurlandi. Bregðast verður við skorti á lerkifræi næstu árin með breyttu tegundavali þar sem það er mögulegt til að spara það lerki sem í boði verður. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Afar lítið lerkifræ er nú fáanlegt frá þeim finnsku frægörðum sem útvegað hafa slíkt fræ til skógræktar á Íslandi. Það fræ sem fæst á þessu vori dugar aðeins til að framleiða um 80.000 plöntur til afhendingar árið 2021. Jafnvel þótt eitthvað verði til af fræi af lerkiblerkiblendingnum 'Hrym' sem Skógræktin framleiðir sjálf er ljóst að mun minna lerki verður á boðstólum en verið hefur undanfarin ár. Skógræktarstjóri segir þó ýmis ráð vera til við vandanum.
Ástæðan er einkum lélegt fræár á lerki í Finnlandi, segir Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri. Gera megi ráð fyrir að aftur komi góð fræár í Finnlandi og þá verði keypt lerkifræ þaðan eins og áður. Þá sé einnig unnið að því að stofna til nýrra rússalerkifrægarða í Svíþjóð en vandinn sé sá að þeir fara ekki að gefa af sér fræ fyrr en eftir 10 ár eða meira. Þetta eru þær rússalerkiuppsprettur sem Íslendingum standa til boða.
En hvað með Rússland, heimaland rússalerkisins? Þröstur telur að það væri stórt skref afturábak að leita til Rússlands því reynslan af fræi þaðan undanfarin 30 ár sé afar slæm. Það verði því ekki gert. Afleiðingin er verulegur samdráttur á gróðursetningu lerkis næstu árin.
Íslenskt skógræktarfólk deyr þó ekki ráðalaust. Unnið er að því að auka fræframleiðslu Hryms með blöndun úrvalstrjáa rússalerkis og evrópulerkis í Fræhöll Skógræktarinnar í Vaglaskógi. Þar hefur kynbótatrjám verið fjölgað sem ætti að geta aukið fræuppskeru verulega. Þá segir Þröstur að einnig sé verið að kanna möguleikana á því að framleiða skógarplöntur af Hrym með græðlingarækt. Hvort tveggja sé þó langtímaverkefni og óvíst hvenær það skilar sér í verulega auknu magni fræs og skógarplantna. Á meðan þurfi að gera aðrar ráðstafanir.
Einkum tvennt þykir koma til greina að sögn Þrastar. Annars vegar má auka gróðursetningu á stafafuru í það sem kallað hefur verið lerkiland og hins vegar auka notkun sitkagrenis í rýrari landgerðum þar sem lerki eða fura hafa verið helstu tegundirnar til þessa. Aukin notkun stafafuru þýðir að gera þarf ráðstafanir til að afla fræs, bæði innanlands og með innflutningi á kynbættu fræi frá Svíþjóð. Það verður hvort tveggja gert, segir Þröstur. Aukin notkun sitkagreins á rýrari landgerðum hafi í för með sér aukaaðgerðir, svo sem endurtekna áburðargjöf, og því sé það dýrara en að gróðursetja lerki, sem þarf sjaldnast nokkurn áburð. Á móti komi að sitkagreni er almennt beinvaxið og verður að lokum stærra en lerki og fura, þótt það sé lengur að komast í fullan vöxt.
Skógræktarráðgjafar og sérfræðingar Skógræktarinnar vinna nú með þessar hugmyndir og munu niðurstöðurnar birtast í formi ráðgjafar til skógarbænda. Skógarbændum og öðru skógræktarfólki ætti því ekki að koma á óvart fá ráðgjöf um að nota sitkagreni í land sem hingað til hefur einkum verið talið hæfa lerki, segir Þröstur að lokum.