Viðarstafli að vetri. Mynd: Pétur Halldórsson.
Viðarstafli að vetri. Mynd: Pétur Halldórsson.

Á Búnaðarþingi sem stendur yfir í Bændahöllinni í Reykjavík var í dag samþykkt ályktun þar sem meðal annars er rætt um að Ísland verði sjálfu sér nægt um timbur, skógrækt verði öflug atvinnugrein í landinu og stuðli að eflingu alls landbúnaðar.

Í ályktuninni er hvatt til þess að fjár­magn til skógræktar verði fjór­faldað og lagt til að Bænda­samtökin og Landssamtök skógareigenda hefji viðræður við landbúnaðarráðherra um að stórauka skógrækt á lögbýlum á Íslandi.

Góður rómur var gerður að ályktuninni á fundinum og virtist einhugur um efni hennar. Ályktunin er á þessa leið:

Markmið:

Að Ísland verði sjálfbært um timbur, og skógrækt verði stöndug atvinnugrein sem stuðli að efl­ingu alls landbúnaðar. Skógrækt er árangursrík leið til bindingar kolefnis úr andrúmsloftinu.

Leiðir:

Nýta má fjármagn strax í dag t.d. við undirbúning lands, umhirðu skóga og skipulagningu. Með fjórfaldri aukningu fjármagns til skógræktar er hægt að koma til móts við alþjóðlega loftslags­samninga, efla atvinnu og styrkja búsetu á landsbyggðinni og verða sjálfbær um viðar­fram­leiðslu.

Framgangur:

Bændasamtök Íslands (BÍ), ásamt Landssamtökum skógareigenda (LSE), hefji viðræður við landbúnaðarráðherra um að stórauka skógrækt á lögbýlum á Íslandi.

Undir ályktunina skrifa Ingvar Björnsson, Böðvar Sigvaldi Böðvarsson, Guðrún Gauksdóttir, Hávar Sigtryggsson og Jóhann Gísli Jóhannsson                                  

Texti: Pétur Halldórsson