Nýverið undirrituðu Jón Loftsson, skógræktarstjóri, og Sigurður E. Ragnarsson, framkvæmdastjóri byggingasviðs BYKO, samning um fjárstuðning BYKO við viðarnýtinganefnd.

Samkvæmt samningnum nemur fjárstuðningur BYKO 1.500.000 krónum á ári og eru peningarnir ætlaðir til að halda utan um fræðslu, vöruþróun og markaðssetningu á skógarafurðum.

Viðarnýtingarnefnd er sjö manna nefnd sem í sitja fulltrúar skógræktargeirans á Íslandi og tilnefnir BYKO tvo nefndarmenn, m.a. formann. Hlutverk nefndarinnar er meðal annars að leita leiða til að þróa, framleiða og markaðssetja vörur úr skógarafurðum.

Samkvæmt samningnum aðstoðar markaðsdeild BYKO viðarnýtingarnefndina við markaðssetningu á skógarafurðum sem nefndin vinnur að hverju sinni. BYKO sér einnig um sölu á þeim vörum sem þeir telja henta til markaðssetningar.

BYKO leggur Skógrækt ríkisins til bolsög sem viðarnýtingarnefnd ráðstarfar til þeirra sem vinna að verkefnum eða framleiðslu á vörum sem nefndin telur hentug til markaðssetningar og sölu.

Í þessu verkefni leggjast allir skógræktaraðilar á landinu á eitt við að auka vöruþróun og markaðssetningu á vörum sem unnar eru úr íslenskum skógarafurðum. Stuðningur BYKO við viðarnýtingarnefndina og þau verkefni sem unnin eru að hennar frumkvæði er mjög mikilvægur og skiptir miklu máli í þessari vinnu.