Degli gróðursett á Mógilsá á degi jarðar 2015. Mynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson.
Degli gróðursett á Mógilsá á degi jarðar 2015. Mynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson.

Parísarsamkomulagið undirritað í New York

Á alþjóðlegum degi jarðar sem er í dag skrifar Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, undir Parísar­samkomu­lag­ið um loftslagsmál fyrir Íslands hönd. Hún tekur líka þátt í ráðherrafundi um sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem er haldinn samhliða undirskriftar­athöfn­inni. Skógrækt er meðal 16 verkefna í sóknaráætlun stjórnvalda um aðgerðir í loftslagsmálum. Möguleikar Íslands til kolefnisbindingar með skógrækt eru miklir. Vel viðrar í dag til gróðursetningar og upplagt að fólk drífi sig út og gróðursetji a.m.k. eitt tré í tilefni dags jarðar.

Á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins er rætt um samkomulagið um hertar aðgerðir í loftslagsmálum sem náðist á 21. aðildarríkjaþingi Loftlagssamnings SÞ í París í desember. Eftir sé að ganga formlega frá undirskrift Parísarsamningsins. Síðan þurfi ríki að fullgilda hann svo hann gangi í gildi. Undirritað verður í New York dag, á degi jarðar, 

Sameinuðu þjóðirnar hafa fengið tilkynningu um að ráðherrar eða fulltrúar frá um 155 ríkjum hyggist taka þátt í athöfninni í New York í dag þar sem samningurinn verður lagður fram til undirskriftar sem er metfjöldi við slíka undirskrift. Fjölmennasta undirskriftarathöfn til þessa var þegar fulltrúar 119 ríkja rituðu undir Hafréttarsamning SÞ árið 1982. Ráðherrum gefst tækifæri til að vera með ávörp í tengslum við athöfnina.

Aukið fé til skógræktar meðal 16 verkefna í sóknaráætlun

Á síðasta ári ákvað ríkisstjórnin að setja af stað sérstaka sóknaráætlun, að sögn til að sýna vilja í verki við að efla loftslagsstarf í tengslum við Parísarfundinn. Í sóknaráætlun eru 16 verkefni sem bætast við annað starf sem er í gangi í loftslagsmálum. Verkefnin fengu framlag upp á 250 milljónir kr. samtals á fjárlögum fyrir 2016 og segir á vef ráðuneytisins að þau séu öll komin í gang. Ýmist eru þetta verkefni sem ætlað er að minnka losun og auka kolefnisbindingu eða verkefni sem eiga að efla alþjóðlegt samstarf um þessi efni, efla innviði og fræða fólk um loftslagsmál.

Í pistlinum á vef ráðuneytisins segir orðrétt: „Aukið fé verður sett til skógræktar og landgræðslu í nafni loftslagsmála og verkefni um endurheimt votlendis sett á fót, þar sem vonast er til að aðgerðir hefjist nú í sumar.“ Fé var aukið nokkuð til Skógræktar ríkisins, Hekluskóga og Landshlutaverkefna í skógrækt á fjárlögum þessa árs en einnig til Skógræktarfélags Íslands. Í nýjum búvörusamningi er auk þess gert ráð fyrir að Landssamtök skógareigenda fái fjármuni á samningstímanum til að vinna að markaðsmálum með skógarafurðir. Til þess að auka megi að marki bindingu með skógrækt þarf þó að gera miklu betur.

Mikilir möguleikar til skógræktar á Íslandi

Möguleikar Íslands til kolefnisbindingar með skógrækt eru umtalsverðir. Í fyrsta lagi má græða upp auðnir landsins og klæða þær skógi eins og unnið er að í grennd við Heklu á vegum Hekluskóga. Við slíka aðgerð stöðvast losun koltvísýrings úr landi sem tapað hefur fyrri gróðurþekju sinni því víða er enn mikið af lífrænum efnum í jarðvegi auðnanna sem heldur áfram að rotna og losa koltvísýring alveg þar til þessi lífrænu efni eru öll horfin eða landið grær upp á ný. Ávinningurinn er tvöfaldur því auk þess að stöðva þessa losun byrjar binding í skóginum. Enn meiri er ávinningurinn ef ræktaðar eru stórvaxnari nytjategundir eins og alaskaösp, lerki, sitkagreni eða stafafura enda binda þær tvöfalt meira kolefni en birki og jafnvel mun meira.

Íslendingar eiga mikið land sem hentað gæti til skógræktar. Bændur um allt land hafa tök á því að taka mun meira land til skógræktar en nú hefur verið gert án þess að það þurfi að skarast við aðra landnotkun bænda. Skógurinn styður líka mjög vel við aðrar búgreinar. Hann býr til skjól fyrir tún og akra en líka skepnur og menn. Með því eykst frjósemi og umsetning næringarefna, afurðir aukast af bæði ræktarlandi og búpeningi og afkoma bænda batnar. Á bújörðinni verður til framtíðarauðlind um leið og bundið er kolefni í þágu jarðarinnar allrar.

Íslenska ríkið á fjölda jarða um allt land sem gætu falið í sér mikil tækifæri til skógræktar og þar með til kolefnisbindingar. Vert væri að gera allsherjarúttekt á þessum möguleikum og í framhaldi af því áætlun um hvernig að verki skuli staðið.

Gróðursetning í dag?

Vel viðrar í dag á landinu og gaman væri að frétta af því ef fólk er að pota niður trjáplöntum á degi jarðar. Ábendingar um slíkt og ljósmyndir má senda á netfangið petur@skogur.is.

Texti: Pétur Halldórsson