Víkingur sem Johan Grønlund Arndal skógtækninemi hefur skorið út.
Víkingur sem Johan Grønlund Arndal skógtækninemi hefur skorið út.

Sker út höggmyndir með keðjusög í frístundum sínum

Þessa dagana eru þrír danskir skógtækni­nemar í starfsnámi á starfstöð skógar­varðar­ins á Vesturlandi í Hvammi í Skorra­dal. Nemarnir vinna með skógarhöggs­mönn­um Skógræktarinnar og fá þannig starfsreynslu og öðlast innsýn í störfin sem eru unnin í skóginum. Þeir  taka þátt í öllu sem gert er, hvort sem það er að kljúfa eldivið, kurla við, grisja, planta, gera göngu­stíga, höggva jólatré eða annað. Mikið og gott samstarf er milli dönsku skógtækni­skólanna og Skógræktarinnar um starfs­nám nemenda.

Einn nemanna, Johan Grønlund Arndal, er mikill hagleiksmaður og sker út högg­mynd­ir með keðjusög í frístundum sínum. Von­umst við hjá Skógræktinni eftir að geta nýtt okkur hæfileika hans og fengið nokkrar högg­myndir til að setja upp í Stálpastaða­skógi.

Hlynur Gauti Sigurðsson hefur gert ljómandi gott myndband um Johan sem sjá má með því að smella hér.

Johan vinnur í íslenskan við, aðallega sitkagreni og stafafuru. Hann byrjaði að móta myndir úr tré fyrir um þremur árum. Hann hafði verið á leið heim og séð mann vera að gera stóran orm úr tré. Johan gaf sig á tal við manninn og spurði hvernig hann færi að þessu. Maðurinn var með aukasagir og leyfði Johan að prófa. Nokkru seinna var Johan atvinnulaus. Þá hringdi hann í þennan hagleiksmann og komst að hjá honum sem nemi. Síðan hefur hann unnið þar í hlutastarfi með skólanum. 

Johan hefur náð mikilli færni í þessari listgrein eins og sjá má á myndunum sem fylgja fréttinni og í myndbandinu góða. Hann vonast til að geta selt eitthvað af verkum sínum áður en hann fer heim til Danmerkur um miðjan desember.








Myndir og texti:  Valdimar Reynisson, skógarvörður á Vesturlandi