Á morgun, þriðjudaginn 16. september, mun Ægir Þór Þórsson verja doktorsritgerð sína í hátíðarsal aðalbyggingar Háskóla Íslands sem nefnist Tegundablöndun birkis og fjalldrapa (Genecology, introgressive hybridisation and phylogeography of Betula species in Iceland). Vörnin hefst kl. 14:00 og lýkur kl. 17:00. Vörnin er opinber og allir eru velkomnir.
Doktorsritgerð Ægis Þórs byggist á þremur rannsóknagreinum (greinar I, III og IV) auk einnar yfirlitsgreinar (grein II). Þrjár hafa þegar birst í alþjóðlegum ritrýndum ISI-tímaritum og ein grein (IV) er handrit sem sent hefur verið til birtingar í tímaritinu Heredity (Nature Publishing Group).
Ágrip ritgerðar
Á Íslandi finnast tvær tegundir af bjarkarættkvíslinni (Betula): tvílitna fjalldrapi og ferlitna birki. Birki er eina trjátegundin sem myndar náttúrleg skóglendi á Íslandi. Í dag þekja slík skóglendi um 1-2 % landsins. Birkiskóglendin eru ekki samfelld en finnast þó um allt land. Þessi ritgerð lýsir rannsókn á útlits- og erfðabreytileika íslenska birkisins, auk erfðafræðilegra rannsókna um uppruna birkis á Íslandi. Í rannsókninni var plöntum skipt upp í þrjá litnunarhópa, þ.e. hópa tvítlitna fjalldrapa, ferlitna birkis og þrílitna tegundablendinga. Útlits- og erfðabreytileiki var svo greindur sérstaklega fyrir hvern hóp. Í ljós kom að um 10 % plantna í birkiskóglendum voru þrílitna tegundablendingar milli birkis og fjalldrapa. Útlitsbreytileiki hópanna þriggja skaraðist mikið sem benti sterklega til þess að þrílitna blendingarnir væru sem n.k. erfðafræðileg brú fyrir genaflæði í báðar áttir á milli birkis og fjalldrapa. Greining á erfðamörkum úr grænukorna erfðamengjum (chloroplast DNA) benti enn frekar til genaflæðis. Algengasta erfðamarkið fannst í öllum litnunarhópum og í öllum skóglendum. Þessa dreifingu má skýra með tegundablöndun og genaflæði. Önnur erfðamörk sýndu merki um dreifingu eftir landshlutum og greinilegan mun mátti sjá á milli Austurlands og Vesturlands, og þetta bendir til þess að birki hafi borist til landsins, frá Evrópu, oftar en einu sinni.
Andmælendur eru dr. Ilia Leitch, vísindamaður við Jodrell Laboratory rannsóknastofnun Kew-grasagarðsins í London og dr. Björn Sigurbjörnsson, plöntuerfðafræðingur. Leiðbeinandi í verkefninu var Kesara Anamthawat-Jónsson, prófessor við líffræðiskor Háskóla Íslands. Guðrún Marteinsdóttir, prófessor og varaforseti Raunvísindadeildar, mun stjórna athöfninni.
Greinar sem ritgerðin byggir á
I. Thórsson ÆTh, Salmela E, Anamthawat-Jonsson K (2001) Morphological, cytogenetic, and molecular evidence for introgressive hybridization in birch. Journal of Heredity 92: 404-408.
II. Anamthawat-Jónsson K, Thórsson ÆTh (2003) Natural hybridisation in birch: triploid hybrids between Betula nana and B. pubescens. Plant Cell, Tissue and Organ Culture 75: 99-107.
III. Thórsson, ÆTh, Palsson S, Sigurgeirsson A, Anamthawat-Jonsson K (2007) Morphological variation among Betula nana (diploid), B. pubescens (tetraploid) and their triploid hybrids in Iceland. Annals of Botany 99: 1183-1193.
IV. Thórsson ÆTh, Pálsson S, Lascoux M, Sigurgeirsson A, Anamthawat-Jónsson K (manuscript submitted to Heredity) Phylogeography and origin of Icelandic birch inferred form cp-DNA haplotype variation.
Nánar um andmælendur:
Dr Ilia J Leitch, grasafræðingur og deildarstjóri við Jodrell Laboratory rannsóknarstofnun Kew-grasagarðsins í London. Dr Leitch hefur unnið grunnrannsóknir á sviði plöntuerfðafræði og sameindalíffræði síðustu 15 ár við Kew, í samstarfi við forstöðumann stofnarinnar, Professor MD Bennett, sem er nýlega kominn á eftirlaun. Stærsta verkefni sem Dr Leitch og Prof Bennett hafa unnið saman er uppbygging gagnagrunns um mælingar á stærð og eðli erfðamengja plantna. Dr Leitch hefur verið leiðandi í rannsóknum á plöntuerfðamengjum eins og má sjá í tilvitnanir í greinar hennar (1,836 úr 54 ISI greinum, skv stöðu 26. mars 08). Mest vitnaða grein hennar er Nuclear DNA amounts in Angiosperms, Annals of Botany 76 (1995): 113-176, með 312 tilvitnarnir.
Dr Björn Sigurbjörnsson, plöntuerfðafræðingur. Dr Björn Sigurbjörnsson lauk doktorsprófi á sviði erfðafræði plantna og jurtakynbótum árið 1960 frá Cornell-háskóla í Bandaríkjunum. Hann gegndi forstjórastarfi við Rannsóknastofnun Landbúnaðarins í um tíu ár, áður en hann tók við sem forstjóri rannsóknadeildar FAO-IAEA í Vínarborg þar sem hann var til 1995. Eftir heimkomu gegndi hann starfi ráðuneytisstjóra Landbúnaðarráðuneytis til 2000. Þrátt fyrir það að Björn Sigurbjörnsson hefur unnið mest við kynbætur kornjurta og hefur gefið ráðgjöf í málefnum FAO á alþjóðavettvangi, hefur hann alltaf haft áhuga og aflað sér góða þekkingu á sviði erfðafræði íslenskra plöntutegunda.