(mynd: Hreinn Óskarsson)
Skógrækt ríkisins kynnir hér drög að umhverfisstefnu. Óskað er eftir hugmyndum og tillögum starfsmanna um framkvæmd þeirrar stefnu sem kynnt er í meðfylgjandi gögnum. Einnig er óskað eftir tillögum að viðbótum eða breytingum, enda verður stefnan í mótun samfara innleiðingu. Gert er ráð fyrir að undirritaður fylgi þessu máli eftir fyrst um sinn. Samband verður haft á næstu dögum við forstöðumenn starfsstöðva og alla áhugasama einstaklinga hjá Skógrækt ríkisins sem láta sig málið varða.
Drög að umhverfisstefnu
Skógrækt ríkisins er stofnun sem tekur virkan þátt í umhverfismálum með starfsemi sinni. Markmið umhverfisstefnu Skógræktar ríkisins eru hér kynnt með tvennum hætti:
- Sjálfbær skógrækt í sátt við umhverfið
- Umhverfismarkmið á skrifstofum og starfsstöðvum
Sjálfbær skógrækt í sátt við umhverfið
Efla skal skógrækt á Íslandi í þeim tilgangi að skapa skógarauðlind, auka lífframleiðslu og fjölbreytni, binda kolefni, auka viðnám gegn gróðureyðingu, efla og vernda vatnsgæði og efla útivist í skógum landsins. Taka skal tillit til landslagsþátta og verndarsjónarmiða. Alla verkþætti og ferla sem tengjast framkvæmdum skal skoða sérstaklega með umhverfismarkmið í huga.
- Vélar og tæki sem notuð eru í skógum Skógræktar ríkisins skulu vera af viðurkenndri gerð og ávallt vel við haldið til að koma í veg fyrir leka á olíum og vökvum.
- Olíur á mótorsagir skulu vera umhverfisvænar þar sem þess er kostur.
- Huga skal að orkunotkun vélknúinna tækja sem tengjast framkvæmd við skógrækt.
- Meðferð áburðar og ræktunarefna skal vera meðvituð og til fyrirmyndar. Geymsla og notkun eiturefna sé í samræmi við gildandi reglur.
- Frágangur á framkvæmdastöðum (skógum og skógræktarstöðum) skal vera til fyrirmyndar og Skógrækt ríkisins til sóma.
- Hreinsa skal upp alla ruslahauga, ónýtar girðingar o.þ.h. í þjóðskógunum og koma í endurvinnslu eða förgun á viðeigandi hátt.
- Úrgangsolía skal flutt á sérstaka móttökustaði.
Dagleg starfsemi á skrifstofum og starfsstöðvum
Starfsstöðvar skógræktar ríkisins eru sjö dreifar um landið. Umhverfisstefnu starfsstöðvanna skal miða við að flokkun sorps sé í samræmi við bestu markmið sveitarfélags á hverjum stað. Leitast verði við að minnka úrgang eins og kostur er.
- Ávallt skal flokka pappír og koma honum á móttökustaði til endurvinnslu.
- Ónýtum raftækjum, tölvubúnaði, glerílátum, plasti og tómum prenthylkjum skal koma á móttökustaði til endurvinnslu.
- Keyptar skulu umhverfismerktar vörur svo sem pappír og prenthylki þar sem því verður við komið með hliðsjón af gæðum og kostnaði.
- Ónýtum rafhlöðum verði safnað saman og þær sendar i spilliefnamóttöku.
- Dósum og endurvinnanlegum drykkjarumbúðum sem falla til á starfstöðinni skal komið til endurvinnslu.
- Forðast skal að nota vörur sem innihalda lífræn leysiefni ef kostur er á öðru.
- Koma skal upp aðstöðu fyrir jarðvegsgerð (moltukössum) á lífrænum úrgangi eða skila lífrænum úrgangi í safnkassa bæjarfélags.
Gamla gróðrarstöðin
Akureyri, 27.01.2011
Með kveðju og von um góðan árangur,
Hallgrímur Indriðason
hallgrimur[hjá]skogur.is
Mynd: Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi