Á hátíðarsamkomu aðalfundar Skógræktarfélags Íslands á Hellu voru fjórir félagar í Skógræktarfélagi Rangæinga heiðraðir fyrir störf sín í þágu skógræktar. Á mynd eru (f.v.): Jónatan Garðarsson, formaður SÍ, Sigríður Heiðmundsdóttir (tók við viðurkenningu fyrir hönd móður sinnar, Klöru Haraldsdóttur), Sigurvina Samúelsdóttir, Sigurbjörg Elimarsdóttir, Sveinn Sigurjónsson og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, sem afhenti viðurkenningaskjöl af þessu tilefni. Ljósmynd: Ragnhildur Freysteinsdóttir
Á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands um nýliðna helgi var skorað á Alþingi og ríkisstjórn að veita verkefninu Skógargötum fjármagn til næstu tíu ára. Einnig var ályktað um skógminjasafn, Miðstöð skógræktar, og Græna stíginn milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Ný stefnumótun fyrir Skógræktarfélag Íslands var samþykkt á fundinum.
Þetta var 83. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands og var hann að þessu sinni haldinn á Hellu í umsjón Skógræktarfélags Rangæinga. Um 160 fulltrúar hvaðanæva af landinu sóttu fundinn. Hann hófst á föstudag með ávörpum Jónatans Garðarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, og Jóns Ragnars Örlygssonar, formanns Skógræktarfélags Rangæinga. Sigríður Heiðmundsdóttir kynnti því næst Skógræktarfélag Rangæinga og einnig fluttu ávörp Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri og Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra.
Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa var kynnt skýrsla Landgræðslusjóðs og Hrönn Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri kynnti Hekluskógaverkefnið stuttlega áður en haldið var í skoðunarferð um uppsveitir Rangárvalla sem meðal annars var heitið um slóðir Hekluskóga.
Í ferðinni var byrjað á að skoða Hellnahelli að Hellnum í Landssveit, lengsta manngerða helli á Íslandi. Þaðan var ekið áleiðis að Þjófafossi þar sem skoðuð voru ræktunarsvæði Hekluskóga. Þaðan var ekið fram hjá Næfurholti og endað í Bolholtsskógi, einu ræktunarsvæða Skógræktarfélags Rangæinga, þar sem boðið var upp á gönguferð og fræðslu um skóginn og súpu ásamt meðlæti.
Að loknum nefndastörfum á laugardag voru flutt fræðsluerindi. Björn Steinar Blumenstein vöruhönnuður fjallaði um verkefnið Skógarnytjar, er lýtur að nýtingu íslensks viðar til framleiðslu ýmiss konar varnings. Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, kynnti sveitarfélagið í máli og myndum. Árni Bragason landgræðslustjóri hélt erindi sem hann kallaði Landgræðslan, baráttan við sandinn, þar sem farið var yfir uppgræðslustarf á svæðinu. Margrét Grétarsdóttir, Skógræktarfélagi Rangæinga, fjallaði um sögu heimabæjar síns, Klofa í Landsveit, með tilvísun til uppgræðslu og Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við LbhÍ, fjallaði um skógrækt í samhengi við loftslagsmál, sérstaklega kolefnisbindingu með skógrækt.
Í vettvangsferð laugardagsins var byrjað á að skoða tilraunareit með öspum við Gunnarsholt, sem er einn mest rannsakaði skógarreitur landsins. Þaðan var haldið að Heylæk í Fljótshlíð þar sem Sigurður Haraldsson hefur ásamt fjölskyldu sinni ræktað upp mikinn og fjölbreyttan skóg. Eftir hressingu þar var ekið niður á Markarfljótsaura þar sem mikill skógur er að vaxa upp fyrir tilstilli Skógræktarfélags Rangæinga.
Á hátíðarsamkomu á laugardagskvöld voru fjórir félagar í Skógræktarfélagi Rangæinga heiðraðir fyrir störf sín í þágu skógræktar, þau Klara Haraldsdóttir, Sigurvina Samúelsdóttir og hjónin Sigurbjörg Elimarsdóttir og Sveinn Sigurjónsson.
Undir lok aðalfundarins á Hellu var samþykkt ný stefnumótun fyrir Skógræktarfélag Íslands. Í stefnunni er rætt um uppbyggingu skógarauðlindarinnar með eflingu vistþjónustu skóga og sjálfbærri nýtingu. Til að ná þessum markmiðum skuli efla starf skógræktarfélaga en einnig hvetja sveitarfélög og aðra opinbera aðila til að auka skógrækt í samstarfi við skógræktarfélög og skóla. Þá skuli jafnframt tuðlað að aukinni trjárækt í þéttbýli og næsta nágrenni þess vegna mikilvægis útivistarskóga og „grænna trefla“.
Guðbrandur Brynjúlfsson, Skógræktarfélagi Borgarfjarðar, gekk úr stjórn Skógræktarfélags Íslands eftir 15 ára setu og í stað hans settist Jens B. Baldursson, Skógræktarfélagi Akraness, í aðalstjórn. Í varastjórn voru kosin Kristinn H. Þorsteinsson, Skógræktarfélagi Kópavogs, Valgerður Auðunsdóttir, Skógræktarfélagi Árnesinga og Margrét Grétarsdóttir, Skógræktarfélagi Rangæinga.
Þrjár ályktanir voru samþykktar á fundinum. Skorað var á Alþingi og ríkisstjórn að samþykkja tíu ára fjárveitingu í verkefnið Skógargötur 2018 sem ætlað er að efla nauðsynlega vega- og slóðagerð um skóga landsins. Einnig var ályktað um stofnun skógminjasafns og Miðstöðvar skógræktar sem yrði sameiginlegur vettvangur fyrir skógrækt á Íslandi til að varðveita minjar og halda til haga ýmsum gögnum, ljósmyndum, kvikmyndum og fleira efni um skóga og skógræktarsögu landsins. Í þriðju ályktuninni er stjórn Skógræktarfélags Íslands hvött til að þrýsta á sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að hefja sem fyrst framkvæmdir við svokallaðan Grænan stíg ofan byggðarlaganna á höfuðborgarsvæðinu í áföngum sem fyrst.
Nánar má fræðast um liðið starfsár Skógræktarfélags Íslands, reikninga þess og skyldra félaga í fundargögnum sem aðgengileg eru á vef félagsins, skog.is. Meðfylgjandi myndir tók Ragnhildur Freysteinsdóttir á aðalfundinum og í skoðunarferðum sem á dagskránni voru.