Skógurinn á Akureyri bindur kolefni frá þúsund bílum

Þriðji fræðslufundur vetrarins í Gömlu-Gróðrarstöðinni við Krókeyri á Akureyri var haldinn föstudaginn 30. janúar. Um 20 manns komu á fundinn og hlýddu á Hallgrím Indriðason, skipulagsfulltrúa Skógræktar ríkisins, tala um sögu trjá- og skógræktar á Akureyri, stöðu mála nú og framtíðarhorfur. Fram kom hjá Hallgrími að á vegum bæjarins hefði verið sett niður ein og hálf milljón trjáplantna í bæjarlandinu og kolefnisbinding þessa skógar samsvaraði útblæstri um eitt þúsund fólksbifreiða.

Hallgrímur brá upp línuriti sem sýndi gróðursetninguna frá árinu 1947 til 2006. Á því sést að mikið var gróðursett í bæjarland Akureyrar á 7. áratugnum, lítið um miðbik þess áttunda en gróðursetning náði svo hámarki upp úr 1990. Árið 1992 var metár þegar gróðursettar voru um 85.000 plöntur. Fram kom hins vegar hjá Hallgrími að gróðursetning hefði að mestu dottið niður við bankahrunið sem væri miður því nauðsynlegt væri að halda starfinu áfram. Nóg væri eftir af landrými sem skipulagt hefði verið til skógræktar.

Í spjalli sínu benti Hallgrímur á að bæjarland Akureyrar væri stórt en það gæti verið betur notað. Með skógrækt mætti auka verðmæti þess, bæði til skjóls, útivistar og til síðari tíma byggingaframkvæmda. Alls ekki væri fráleitt að planta í framtíðarbyggingarsvæði og leggja síðan byggðina í skóginn í fyllingu tímans. Til að ná aftur upp eðlilegum framkvæmdaþrótti í gróðursetningu telur Hallgrímur að gróðursetja þurfi 30-40 þúsund plöntur á ári næstu tuttugu árin. Lauslega áætlað megi gróðursetja í um 400 hektara án þess að þrengja að byggingasvæðum framtíðarinnar.

Hallgrímur sér fyrir sér að lokið verði við að gróðursetja í svokallaðan grænan trefil utan um þéttbýlið á Akureyri en tækifærin séu þó víðar. Til dæmis séu möguleikar neðst á Glerárdal þar sem áður voru annars vegar sorphaugar bæjarins austan Glerár og hins vegar malarnámur vestan árinnar. Þar sé tækifæri til að gera ræktunarátak í tengslum við nýja virkjun sem er í bígerð. Þar fyrir utan megi með hlýnandi loftslagi gera ráð fyrir að villt birki og víðir sæki fram á Súlumýrum og Glerárdal á komandi árum.

Um tuttugu manns sóttu fundinn, meðal annars starfsmenn sem vinna að umhverfismálum hjá Akureyrarbæ. Þeir gátu frætt Hallgrím og aðra fundargesti um það að sumarið 2013 hefði verið byrjað á ný að gróðursetja í svokallaðan grænan trefil utan um byggðina á Akureyri og því starfi yrði haldið áfram í sumar.


Íbyggnir fundargestir í Gömlu-Gróðrarstöðinni

Myndir og texti: Pétur Halldórsson