Starfshópi sem skipaður er stjórnendum Skógræktar ríkisins, Hekluskóga og Landshlutaverkefnanna er ætlað að móta starf nýrrar stofnunar og skipurit hennar. Hópurinn kom saman tll síns fyrsta fundar á Egilsstöðum í dag ásamt Arnari Jónssyni frá Capacent og Birni Barkarsyni frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
Yfir 160 manns skráðir til þátttöku
Ráðstefnan Tímavélin hans Jóns hefst í Valaskjálf á Egilsstöðum kl. 9.05 í fyrramálið. Ríflega 160 manns eru skráðir til ráðstefnunnar og því verður þetta ein stærsta skógræktarráðstefna sem haldin hefur verið hérlendis. Á ráðstefnunni verður litið yfir síðustu sjötíu ár í skógrækt á Íslandi og spáð í hver þróunin gæti orðið næstu sjötíu árin. Fjallað verður meðal annars um fyrstu hugmyndir hérlendis um timburskóga og rætt um skaðvalda í fortíð og framtíð, margslungin áhrif gróðurs á veðurfar, skógarrannsóknir og mögulega þróun skóga fram til 2085. Einnig verður fjallað um gerð landsáætlunar í skógrækt sem brýnt er að fari fram, framtíðarmarkað fyrir skógarafurðir og skógrækt á breytingatímum. Spurt verður jafnframt hvort Ísland verði eftirsótt til kolefnisbindingar með skógrækt og hvernig samspil ferðaþjónustu og skógræktar geti verið.
Starfsmannafundur í aðdraganda sameiningar skógræktarstofnana
Í dag hittist starfsfólk Skógræktar ríkisins og Landshlutaverkefna í skógrækt á sameiginlegum starfsmannafundi í Valaskjálf enda hópurinn nær allur staddur á Egilsstöðum vegna ráðstefnunnar á morgun. Fundurinn markar upphaf þess starfs sem fram undan er við að undirbúa sameiningu ríkisstofnana í skógrækt.
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri ræddi á fundinum um þau verkefni sem fram undan væru í skógrækt á næstu árum. Mikilvægt væri að sameining skógræktarstofnana tækist vel og þar yrði vandað til verka. Þröstur lagði áherslu á að þetta væri raunveruleg sameining í nýja stofnun, ekki innlimun eins í annað. Þess vegna væru breytingar fram undan.
Auk þess stóra verkefnis sem sameiningin yrði á komandi misserum sagði Þröstur mikilvægt að vinna að því að skógrækt yrði aukin á ný í landinu, bæði í bændaskógum og í þjóðskógunum. Einnig að áfram yrði unnið að trjákynbótum og rannsóknir efldar. Hann talaði um aukna sjálfgræðslu birkis í landinu og að ýta þyrfti undir hana, meðal annars með eflingu verkefna eins og Hekluskóga. Í þeim efnum væri vert að leita frekara samstarfs við Landgræðsluna og fleiri um aukna útbreiðslu birkis. Þá boðaði hann einnig aukið samráð um landnotkun á Íslandi við stofnanir, samtök og fleiri sem málið varðaði. Sem dæmi nefndi hann að taka þyrfti tillit til mikilvægra fuglasvæða, sjaldgæfra plöntutegunda og fleiri þátta við skipulagningu skógræktar en ekki síður að leggja áherslu á að rækta fallega skóga. Einnig nefndi Þröstur ýmis brýn viðfangsefni sem snertu skóga og ferðaþjónustu. Jafnvel þótt Skógrækt ríkisins hefði staðið sig vel í þeim efnum að mörgu leyti mætti enn gera betur.
Á fundinum talaði líka Björn Barkarson, sérfræðingur á skrifstofu landgæða í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Hann tók í sama streng og skógræktarstjóri að vanda skyldi til verka við sameiningarmálin. Enn væri stefnt að því að sameiningin tæki gildi 1. júlí að samþykktum þeim lagaákvæðum sem til þyrfti af hálfu Alþingis. Mikilvægt væri að halda vel á spöðunum og vinna markvisst svo sameiningin tæki sem skemmstan tíma, ekki síst til að eyða óvissu og óöryggi meðal starfsfólks.
Loks talaði Arnar Jónsson, ráðgjafi hjá Capacent, um sameiningarstarfið næstu vikur og mánuði. Haft yrði mikið samráð við sem flesta sem málið varðaði og starfsfólkið virkjað eftir megni. Allir starfsmenn þeirra stofnana sem sameinaðar verða yrðu teknir í viðtöl og einnig leitað eftir áliti og viðhorfum utan frá, meðal annars frá samtökum eins og skógræktarfélögum og öðrum sem málið kynni að varða. Settir verða saman starfshópar, meðal annars hópur skipaður stjórnendum núverandi stofnana sem móta skal stefnu nýrrar stofnunar og skipurit hennar. Öllu starfsfólki stofnananna verður boðið starf hjá sameinaðri stofnun en ný stjórnunarstörf sem kunna að verða til í ferlinu verða auglýst. Nánar verður fjallað um sameiningarstarfið hér á skogur.is á næstu vikum og mánuðum eftir því sem málunum vindur fram.
Húsfyllir á fundi um mögulega stofnun afurðamiðstöðvar viðarafurða
Síðdegis í dag var líka haldinn fundur á Hótel Héraði þar sem kynntar voru niðurstöður athugunar Félags skógarbænda á Austurlandi, Landssamtaka skógareigenda, Skógræktar ríkisins og Héraðs- og Austurlandsskóga á fýsileika þess að stofna til afurðamiðstöðvar viðarafurða á Austurlandi. Austurbrú var fengin til að stýra þessari vinnu og hefur nú skilað skýrslu um verkefnið.
Á fundinum sem var afar vel sóttur talaði meðal annarra Lárus Heiðarsson, skógræktarráðunautur hjá Skógrækt ríkisins, og fór yfir það viðarmagn sem yrði fáanlegt í skógum Austurlands á komandi árum. Hann sagði að nú væri ljóst að meira myndi falla til af efni úr skógunum en gert hefði verið ráð fyrir í upphaflegum áætlunum Héraðsskóga á sínum tíma. Á allranæstu árum margfaldast framboð á grisjunarviði í skógunum eystra, að sögn Lárusar. Hins vegar þurfi enn að bíða í áratug eða svo eftir að flettingarhæft efni í borð og planka fari að aukast verulega.
Loks má minna á dagskrá ráðstefnunnar á morgun. Hún heitir Tímavélin hans Jóns og er haldin til heiðurs Jóni Loftssyni sem lét af störfum skógræktarstjóra um áramótin eftir 26 ár í embætti og alls ríflega 40 ára starf hjá Skógrækt ríkisins.