Kæru félagar,

Mógilsá og SKÓGVISTAR-verkefnið eru nú formlega þátttakandur í NECC, sem er "norrænt öndvegissetur á sviði rannsókna á kolefnishringrás og á áhrifum veðurfars á hana". Þann 9 febrúar n.k. mun birtast hjálögð auglýsing í Mogganum. Hér er um að ræða einstakt tækifæri fyrir áhugasama(n) til að verða sér úti um doktorsgráðu í umhverfisfræði, tengdri skógrækt. Viðkomandi mun vinna náið með Bjarna Diðrik, og Mógilsá mun greiða laun viðkomandi næstu fjögur árin, jafnt þegar viðkomandi verður staðsett(ur) hér á landi og þegar hann/hún verður við nám í Lundi í Svíþjóð.

Námið felst einkum í þjálfun í mælitækni sem gerir kleyft að mæla kolefnisbindingu skóglenda með beinum hætti (iðufylgniaðferð = eddy covariance technique). Viðkomandi einstaklingur mun fá þjálfun hjá einum af virtustu vísindamönnum í heimi á þessu sviði. ÞESSU STARFI HEFUR EKKI VERIÐ ÚTHLUTAÐ FYRIRFRAM! Hæfasti einstaklingurinn sem sendir inn umsókn mun hreppa hnossið.

Ég hvet ykkur til að senda þessa auglýsingu áfram til allra sem þið teljið að áhuga gætu haft á þessu tækifæri. Nánari upplýsingar veitir Bjarni Diðrik

Doktorsnám í umhverfisfræði

Rannsóknastöð Skógræktar, Mógilsá, leitar að hæfum einstaklingi til rannsóknavinnu og doktorsnáms á umhverfisáhrifum skógræktar í nánu samstarfi við Háskólann í Lundi, Svíþjóð.

Starfið felst einkum í rannsóknum á kolefnis-, vatns- og orkuflæði milli skóglenda og andrúmslofts og á getu íslenskra skóglenda til að binda kolefni. Starfið er boðið í tengslum við nýstofnað norrænt öndvegissetur á sviði rannsókna á kolefnishringrás og á áhrifum veðurfars á hana(NECC). Viðkomandi mun vinna í samstarfi við þrjá aðra norræna doktorsnema innan setursins, og auk þess eiga náið samstarf við aðra vísindamenn á stofnuninni og á systurstofnunum.

Hæfniskröfur

  • Háskólagráða innan raunvísinda eða tækni, lágmark B.Sc eða samsvarandi.
  • Starfið og námið mun krefjast vinnu með flókin rannsóknatæki og (líf)eðlisfræðilega útreikninga.
  • Frumkvæði, hæfni til samvinnu og skipulagshæfileikar.
  • Hæfni til að tjá sig munnlega og skriflega á ensku og helst á einhverju Norðurlandamálanna. 

Umsóknir skulu vera á ensku og þeim skulu fylgja nákvæmar ferilsskýrslur sem greina frá fyrri störfum, reynslu og námi umsækjenda (og netfangi).

Ráðningarstaður: Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá á Kjalarnesi, en viðkomandi verður einnig að dveljast tímabundið á rannsóknastað á Austurlandi að sumarlagi. Viðkomandi mun auk þess verða send(ur) til lengri og styttri námsdvala til Lundar í Svíþjóð.

Um er að ræða a.m.k. fjögurra ára stöðu, ef viðkomandi sýnir eðlilegar framfarir í námi. Laun samkvæmt kjarasamningi Skógræktar ríkisins og Félags íslenskra náttúrufræðinga

Skriflegar umsóknir þurfa að sendast fyrir 3. mars til:

Dr. Bjarna Diðriks Sigurðssonar, skógvistfræðings
Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá
116 Reykjavík
s: 515-4500, f: 515-4501, e-mail: Bjarni@skogur.is