Tvísýnt um framtíð Orkugerðarinnar í Flóa

Hætta gæti verið á að vinnslu kjötmjöls úr dýraúrgangi verði hætt hér á landi ef marka má frétt í Fréttablaðinu í dag, 13. mars. Fram kemur í fréttinni að stjórn Orkugerðarinnar í Flóahreppi, sem þar rekur kjötmjölsverksmiðju, telji forsendur fyrir rekstri félagsins brostnar og hún sjái ekki aðra leið en að sækja um greiðslustöðvun á meðan leiða er leitað til að endurskipuleggja fjárhag félagsins.

Hráefnisskorti er meðal annars kennt um þá stöðu sem komin er upp því að sögn blaðsins eru sláturhúsin nú farin að senda sláturúrgang til urðunar frekar en til vinnslu kjötmjöls hjá Orkugerðinni. Hertar kröfur þrengja líka að starfseminni auk þess sem fyrirhuguð reglugerð um bann við urðun sláturúrgangs hefur aldrei tekið gildi.

Kjötmjölið frá Orkugerðinni í Flóa hefur að mestu verið nýtt til landgræðslu, meðal annars með frábærum árangri hjá Hekluskógum þar sem verið er að rækta upp fornt birkiskóglendi á áhrifasvæði Heklu. Kjötmjölið hefur í raun reynst betri áburður en tilbúinn áburður við þær aðstæður sem eru á vikursvæðum kringum Heklu. Það yrði því tjón fyrir Hekluskóga að missa þetta frábæra efni. Fréttablaðið ræðir við Hrein Óskarsson, skógarvörð á Suðurlandi og framkvæmdastjóra Hekluskóga:

Sökum niðurskurðar á fjárveitingum til Hekluskógaverkefnisins undanfarin ár hefur litlu verið varið til kaupa á innfluttum tilbúnum áburði. Megináherslan hefur verið lögð á að nýta kjötmjöl frá Orkugerðinni, en árangur þeirrar áburðargjafar er eftirtektarverður og afar góður. Virðist nýting kjötmjölsins vera hagkvæmari lausn, bæði hvað varðar árangur í uppgræðslu sem og fjárhagslega, en undanfarin ár hefur verið dreift 1.400 tonnum af kjötmjöli. „Það væri afar bagalegt ef verksmiðjan hætti störfum enda er þetta afar hagkvæmur áburður á rýrt land, sér í lagi vikra þar sem tilbúinn áburður hefur minni virkni en kjötmjölið. Ennfremur er nýting kjötmjöls til uppgræðslu afar hagkvæm lausn fyrir þjóðarbúið, nýtir innlendan efnivið sem annars færi á haugana, vinnslan fer fram með innlendu rafmagni og vinnslan er stutt frá stærstu eyðimörkum á Suðurlandi,“ segir Hreinn Óskarsson, verkefnisstjóri og skógarvörður á Suðurlandi.

Kjötmjölið verður meðal umræðuefna á ráðstefnu um lífrænan úrgang sem haldin verður í húsakynnum Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti 20. mars. Með ráðstefnunni er meðal annars meiningin að finna og benda á leiðir til að nýta lífrænan úrgang við ýmiss konar ræktun, meðal annars skógrækt og aðra landgræðslu. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna í annarri frétt hér skogur.is.

Texti: Pétur Halldórsson

.