ELAV- Enhancing Local Activity and Values from forest land through community-led strategic planning. (Þýð: Að efla með skipulegum hætti hlutverk og gildi skóga í nærsamfélaginu). ELAV- verkefnið er fjölþjóðlegt og styrkt af Evrópusambandinu sem NPP (Northern Periferies Programme) verkefni. Þátttökulöndin eru: Ísland, Finnland, Svíþjóð, Skotland og Noregur. Verkefnið hófst 2005 og stendur í þrjú ár. Það byggist m.a á því að vinna skipulega að auknum skilningi á gildi skógivaxinna svæða fyrir nýsköpun og framfarir, til heilla fyrir sveitarfélög og íbúa þeirra. Gert er ráð fyrir að þátttakendur í verkefninu miðli skoðunum, þekkingu og tækni.
Horft er sérstaklega til óhefðbundinnar notkunar á skógivöxnu landi svo sem til útivistar, ferðaþjónustu, kennslu og fjölnota ýmiss konar. Sjá nánar um verkefnið á vefslóðinni: http://www.elavproject.com/
Á vegum ELAV var ráðstefna haldin í Straumnesi á Meginlandi Orkneyja 6.-9. september 2006. Fulltrúar Skógræktar ríkisins á voru: Sherry Curl, sem stýrir íslenska hluta verkefnisins, Þröstur Eysteinsson og Hallgrímur Indriðason.
Á fundinum sem haldinn var á Orkneyjum 6. til 9. sepember 2006, voru flutt erindi um ólíka nýtingu og gildi skóga í þátttökulöndunum. Fjallað var um hvernig auka mætti þátttöku almennings og sveitarfélaga í skógræktarverkefnum. Í erindi sínu sagði Þröstur Eysteinsson frá skógræktar- og landbótaverkefnum Húsgulls, sem unnin eru í nágrenni Húsavíkur. Vakti það athygli hve vel hefur tekist til með samstarf sveitarfélagins, almennings og opinberra aðila um framkvæmdir og ræktun á Húsavík. Jákvæð viðhorf almennings og fjöldi skráðra félaga í skógræktarfélögum á Íslandi vakti einnig athygli.
Fram kom að í Skotlandi hefðu á undanförnum árum myndast á annað hundrað grasrótarhópa á borð við skógræktarfélög eða Húsgull sem innu að því að fá land til skógræktar eða fá afnotarétt á skógum sem fyrir eru. Á fundinum upplifðu Íslendingarnir sig því sem miðlarar reynslu, frekar en þyggjendur eins og oft er á fjölþjóðlegum ráðstefnum.
Fjallað var í hópum um hvernig best væri að stofna til samstarfs við sveitarfélög og fyrirtæki um skógarnýtingu. Flutt voru m.a. erindi um lagningu hjólabrauta í skógum, framtíð skóganna sem orkugjafa (biofluel) og þýðingu skóganna í vaxandi ferðamennsku. Meðal þeirra skoðana sem heyrðust á fundinum og vöktu athygli hjá undirrituðum voru m.a. þessi: Ræktun skóga snýst ekki lengur bara um að framleiða trjástofna sem eru 30 cm. í þvermál. Fólkið sem býr nágrenni skóganna er ekki eingöngu upptekið af stærð og lengd trjáa heldur miklu fremur áhrifum skóganna á nærsamfélagið. Skógrækt fjallar um tré, en aðeins meðan trén þjóna samfélagslegu gildi.
Á ráðstefnunni voru farnar skoðunarferðir og skoðaðir skógarreitir og einstök tré. Eyjarnar eru vel grónar og sauðfjárrækt og kúabúskapur er víða stundaður um sveitir. Veðurfarslegar forsendur fyrir skógrækt í Orkneyjum virðast erfiðari en á Íslandi. Áhrif salts og sjávarroks takmarka umfangsmikla skógrækt á eyjunum. Ferðamennska virðist vera aðalatvinnuvegur Orkneyinga.
Hallgrímur Indriðason