Gosið í Holuhrauni norðan Bárðarbunguöskjunnar 4. september 2014
Gosið í Holuhrauni norðan Bárðarbunguöskjunnar 4. september 2014

Ræktum skóg til að draga úr áhrifum eldgosa

Starfsmaður Skógræktar ríkisins var spurður á samfélagsmiðlinum Facebook hversu mörg tré þyrfti að gróðursetja til að binda koltvísýringinn sem losnar við eldgosið í Holuhrauni norðan Vatnajökuls. Þessari spurningu er ekki auðvelt að svara enda gosið í fullum gangi enn og langt í frá að hægt sé að meta magn þess koltvísýrings sem losnar við gosið.

Spurningin er samt sem áður góð og forvitnilegt verður þegar gosinu lýkur að meta hversu mörg tré þyrfti að rækta til að kolefnisjafna hamfarirnar. Hins vegar er rétt að hafa það í huga að hér eru náttúruöflin að verki og um þau ráðum við engu. Um útblástur gróðurhúsalofts með samgöngum og iðnaði gegnir öðru máli. Þar er vilji mannkyns allt sem þarf til að gera breytingar. Maðurinn er líka stórtækari en eldfjöllin við losun koltvísýrings.

Loft sem hitar, loft sem kælir

Ekki er ólíklegt að í þessari umræðu sé ruglað saman þeim lofttegundum sem losna út í andrúmsloftið við eldgos. Þær eru ekki allar svokallað gróðurhúsaloft sem hitar upp jörðina. Við vitum að koltvísýringur (CO2) gróðurhúsalofttegund sem stuðlar að hlýnun andrúmsloftsins. En við eldgos losnar líka mikið af lofttegund sem haft getur þveröfug áhrif. Þetta er brennisteinstvíoxíð (SO2). Ef það berst í miklu magni upp í heiðhvolfið bægir það geislum sólarinnar frá lofthjúpnum og dregur þannig úr þeirri hitaorku sem berst frá sólinni til jarðarinnar.

Ef magn brennisteinstvíoxíðs eykst mikið í lofthjúpnum kólnar því á jörðinni. Þetta hefur gerst í kjölfar stórgosa á jörðinni og þar á meðal eru gos sem orðið hafa á Íslandi á sögulegum tíma. Helst ber þar að nefna Skaftárelda sem brunnu árið 1783-1784. Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur skrifaði um þetta á bloggsíðu sinni 17. september og þar kom fram að við Skaftárelda hefðu losnað um 150 milljónir tonna af brennisteinstvíoxíði ásamt miklu magni af flúórgasi. Þetta kallaði móðuharðindin yfir þjóðina og sumir rekja jafnvel stóratburði á meginlandi Evrópu til þessa goss, bæði hungurdauða fólks á Bretlandseyjum og jafnvel frönsku byltinguna sem varð einmitt í kjölfar ólgu meðal landsmanna þar. Sú ólga stafaði auk annars af uppskerubresti og tilheyrandi neyð þjóðarinnar. Uppskerubrestinn má hugsanlega rekja til kaldara veðurs vegna brennisteinstvíoxíðs frá Lakagígum. Þetta má reyndar draga í efa því jafnvel þótt kólnað hafi um hálfa gráðu í Evrópu vegna gossins stóð sú kuldatíð aðeins í hálft ár. Málið er vísast flóknara en svo að Lakagígar einir séu kveikjan að byltingunni.

Brennisteinstvíoxíð frá eldgosum þarf sem fyrr segir að komast upp í heiðhvolfið til að geta haft þau áhrif að kólni í veðri á jörðinni. Þetta gerist einkum í kröftugum sprengigosum, skrifar Haraldur Sigurðsson í áðurnefndu bloggi. Þá þarf gjóska að berast upp í 15 km hæð yfir jörðu. Ekkert slíkt er að gerast nú á umbrotasvæðinu norðan Vatnajökuls, hvað sem síðar verður. En Haraldur tekur líka fram að ef gosið dregst mjög á langinn geti það leitt af sér mikið umhverfisvandamál, bæði fyrir Ísland og nágrannalöndin.

Maðurinn stórtækari en eldfjöllin

Ef við lítum hins vegar aftur á kolefnislosunina þá er ljóst að hlutur eldstöðva jarðarinnar í árlegri losun koltvísýrings út í andrúmsloftið er sáralítill miðað við það sem við mennirnir völdum í þeim efnum. Árið 2010 er talið að mannkynið hafi losað um 35 gígatonn af koltvísýringi út í andrúmsloftið með athöfnum sínum og lifnaðarháttum en árleg losun CO2 vegna eldgosa er talin vera milli 0,15 og 0,26 gígatonn á ári. Það nær ekki hundraðshluta af því sem við mennirnir losum. Gosið í Holuhrauni er ekki stórgos enn sem komið er, hvað sem síðar verður. Jafnvel þótt svo yrði myndi það ekki hafa teljandi áhrif á kolefnisbókhald jarðarinnar. Nærtækara er fyrir hvern Íslending að hafa meiri áhyggjur af útblæstri heimilisbílsins en en útblæstri vegna eldgosa. Til að vega upp á móti útblæstri einkabíls með skógrækt þyrfti að gróðursetja 1.000-1.500 tré á ári miðað við að ekið sé meðalbíl um 15.000 kílómetra.

Hitt er svo annað mál að Íslendingum er í lófa lagið að binda eins mikið kolefni og þeim er unnt með skógrækt og annarri landgræðslu, burtséð frá því hver uppspretta koltvísýringsins er. Íslendingar eiga gríðarmikið land sem hentar til skógræktar án þess að það þrengi að annars konar landnotkun. Í grennd við eldstöðina í Holuhrauni mætti líka huga að því að hefjast handa við verkefni á borð við Hekluskógaverkefnið á Suðurlandi. Með hlýnandi loftslagi hækka skógarmörkin á Íslandi og útlit er fyrir að eftir fáeina áratugi verði þau komin upp fyrir meðalhæð íslensku hásléttunnar og þá geti birki þrifist um mestallt hálendi landsins.

Land sem vaxið er birkiskógi þolir mun betur áraun vegna öskugosa. Birkið lifir áfram þótt botngróðurinn í skóginum kafni undir öskulagi. Skjólið af skóginum dregur úr foki gosefnanna og minnkar þar með hættuna á uppblæstri og gróðureyðingu. Þetta sýndi sig í gosinu í Eyjafjallajökli 2010. Birkiskógurinn í Þórsmörk græddi frekar á gosinu en hitt því samkeppnin við botngróðurinn minnkaði tímabundið og efni í gjóskunni nýttust birkinu til vaxtar. Á skóglausu landi getur hins vegar orðið mikil gróðureyðing í kjölfar öskufalls.

Sé hins vegar meiningin að binda kolefni með skógrækt er vert að nota aðrar trjátegundir en íslenskt birki. Stórvaxnari tegundir binda kolefni tíu sinnum hraðar og gefa auk þess af sér margfalt verðmætari afurðir, skapa fjölmörg störf, treysta byggð í landinu, veita skjól og margt, margt fleira.

Heimildir:

Texti: Pétur Halldórsson
Mynd af Hekluskógum austan Búrfells: Pétur Halldórsson

Mynd af eldgosinu í Holuhrauni frá 4. september: Wikimedia Commons/Peter Hartree