Í Morgublaðinu þann 20. janúar er eftifarandi frétt:


Tæp 70% Reykvíkinga nýttu sér útivistarsvæðin í Heiðmörk og Elliðaárdal á síðustu tólf mánuðum, en nokkuð færri nýta sér útivistarsvæðið við Rauðavatn.

Þá er samband milli menntunar og tekna og tíðni útivistar, en eftir því sem menntun er meiri og tekjur hærri er líklegra að fólk nýti sér útivistarsvæðin oftar.

Mynd: Fólk sækist eftir útivist í Heiðmörk á öllum árstímum (mynd tekin af Aðalsteini Sigurgeirssyni í nóvember 2004).

Þetta kemur fram í könnun sem IMG Gallup gerði fyrir Reykjavíkurborg á þjónustu Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar. Könnunin var framkvæmd í gegnum síma 3.-17. nóvember sl. en úrtakið var alls 1.400 manns.

Í könnuninni var einnig kannaður tilgangur ferða í Heiðmörk, sem kom rétt á eftir Elliðaárdalnum í vinsældum sem útivistarsvæði. Langflestir kváðust nota svæðið til göngu eða hlaupa, eða 66,3%, þá sögðust 22% stunda útivist með fjölskyldu og vinum, 18% fóru í bíltúra, 11,5% stunduðu náttúruskoðun og 13% gerðu ýmislegt annað, t.d. tíndu sveppi, stunduðu útreiðar, hjóluðu eða viðruðu hunda sína.

Þórólfur Jónsson, garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar, segir Umhverfissvið hafa haft áhuga á að fá tölur um hversu margir sæktu útivistarsvæði borgarinnar. "Við vitum að margir fara í Heiðmörk en við höfðum áhuga á því að fá það í tölum og fá það staðfest að það eru mjög margir sem fara þangað og jafnvel oft á ári," segir Þórólfur. "Vitanlega eru það miklu fleiri sem koma í Heiðmörk en kemur fram í könnuninni, því að Heiðmörk er örugglega sótt af öllu höfuðborgarsvæðinu."

Tækifæri við Rauðavatn
Þórólfur segir könnunina styðja við stefnumótun í útivistarmálum. "Við þurfum að sinna þessu fólki," segir Þórólfur. "Það þarf að vera aðstaða, það þarf að leggja stíga og merkja sem fylgir því að þjónusta allt þetta fólk sem er að koma í Heiðmörk og önnur útivistarsvæði. Við sjáum líka tækifæri við Rauðavatn, sem skar sig úr, þar sem það er mest fólk úr nálægum hverfum sem sækir þangað. Það svæði gæti tekið við mun fleiri gestum."

Þórólfur kveðst ekki undrast vinsældir Elliðaárdalsins, enda sé hann miðsvæðis og liggi að mörgum hverfum og leið fólks liggi gjarnan gegnum hann. "Maður hefði kannski átt von á því að það væri ekki úr öllum hverfum, en það virðist samt sem það sé fólk úr flestum hverfum að koma í Elliðaárdalinn. Hann er líka mjög þekkt svæði og þarna eru útivistarmöguleikar, veiði, sundlaug hestamennska og söfn. Það er því ýmislegt þar sem höfðar til margra hópa."

Í könnuninni var ennfremur spurt um ferðamáta skólabarna, en þar kom fram að um 75% reykvískra skólabarna fóru fótgangandi í skólann á síðasta ári. Áberandi flest börn voru keyrð í skólann í Árbæ og Grafarholti, Háaleiti og Laugardal, eða í kringum 30%, en fæst börn voru keyrð í skólann í Breiðholti, um 10%. Þá voru börn í Miðborgar- og Hlíðahverfi og Breiðholti duglegust að ganga í skólann, en 85% barna í Miðborg og Hlíðum gengu í skólann, en 82% barna í Breiðholti gengu í skólann. Fæst börn gengu í skólann í Árbæ og Grafarholti, eða um 63%.