Þær aðferðir sem notaðar eru við skógmælingar á Íslandi voru meðal þess sem sjá mátti á afmælisráðstefnu norsku skógarúttektarinnar sem fagnar aldarafmæli sínu á þessu ári. Norðmenn urðu fyrstir þjóða til þess að hefja reglubundnar mælingar á öllum skógum sínum árið 1919.
Hugtakið skógarúttekt er notað yfir það sem á útlensku er kallað „forest inventory“ og er vart teljandi ríki með ríkjum nema það hafi sína skógarúttekt starfandi. Norðmenn byrjuðu fyrstir allra í heiminum reglulegar mælingar á öllum sínum skógum árið 1919 og því fagna þeir núna aldarafmæli norsku skógarúttektarinnar, Landskog-takseringen.
Í upphafi 20. aldar blasti við Norðmönnum að skógar þeirra væru á fallanda fæti og endurnýjuðust ekki nægilega í takt við nytjar. Skógfræðiprófessorinn Agnar Barth varaði við þessu í grein í skógræktarritinu Tidskrift for skogbruk árið 1916 og árið eftir veitti norska stórþingið fé til að koma mætti á fót landsúttekt á skógum Noregs. Þetta kom fram í máli Aksels Granhus, forstöðumanns norsku skógarúttektarinnar, á ráðstefnunni. Hann sagði jafnframt að Finnar, Svíar og Bandaríkjamenn hefðu fljótlega fylgt í kjölfar Norðmanna og sett á fót landsskógarúttekt hjá sér en nú væru slíkar úttektir gerðar víðast hvar í heiminum.
Í skógarúttekt er metið með reglubundnum hætti almennt ástand skóga, hvernig þeir þrífast, útbreiðsla þeirra, hversu mikið af timbri stendur í skógunum og þar með einnig hversu mikið þeir binda af koltvísýringi. Þetta síðastnefnda hefur orðið æ mikilvægari þáttur í skógarúttektum landa heimsins undanfarin ár enda þurfa ríki að skila inn vísindalega traustum tölum um bindingu skóga til Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Með reglubundnum úttektum sem þessum fást líka ýmsar aðrar gagnlegar upplýsingar. Tekin eru jarðvegssýni, litið eftir sjúkdómum og öðrum skaðvöldum og svo framvegis.
Afmælisráðstefnan í tilefni af aldarafmæli norsku skógarúttektarinnar var haldin á hinu sögufræga Sundvolden-hóteli sem er við Steinsfjörð ekki alllangt vestan Óslóarborgar. Ráðstefnuna sátu um tvö hundruð manns frá yfir 30 löndum og þótti hún heppnast mjög vel. Þrír dagar voru teknir undir fyrirlestra og önnur erindi en síðasta daginn var farið út í skóg.
Skógarferðin var tileinkuð mæliaðferðum og því buðu Norðmenn öllum Norðurlandaþjóðum að sýna mælingar frá löndum sínum og þá tækni sem notuð er í hverju landi fyrir sig. Íslenski hópurinn var því í forsvari fyrir eina þeirra fimm Norðurlandaþjóða sem sýndu mælingar úti á mörkinni. Í hópnum voru Arnór Snorrason, sem veitir Íslenskri skógarúttekt forstöðu, Bjarki Þór Kjartansson og Björn Traustason. Kynningin heppnaðist mjög vel og voru gestir mjög ánægðir að fá að snerta á ólíkri aðferðafræði Norðurlandanna við skógarúttektir. Íslensk skógarúttekt fékk frábærar viðtökur og sköpuðust miklar umræður á mælistöð Íslands.
Nánari upplýsingar má finna með því að smella á hlekkina hér fyrir neðan, annars vegar um afmælisráðstefnuna og hins vegar um norsku skógarúttektina sem er eining innan NIBIO, norsku lífvísinda- og lífhagkerfisstofnunarinnar.