Skjámynd frá vettvangi fundarins í París þar sem Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hélt ávarp. Tekið af news.un.org
Í batanum eftir kórónuveirufaraldurinn gefst okkur tækifæri til að breyta um stefnu og leiða mannkynið á braut sem er ekki í mótsögn við náttúruna. Þetta segir aðalritari Sameinuðu þjóðanna og hvetur til aukinnar áherslu alls mannkyns á vernd líffjölbreytni og stóraukinna aðgerða í loftslagsmálum. Hann segir að náttúran sjálf búi yfir lausnum á aðkallandi vandamálum heimsins.
António Guterres, aðalritari SÞ, ávarpaði þjóðarleiðtoga heims á One Planet Summit ráðstefnunni í París á mánudag og tíundaði ýmsar afleiðingar af ofnýtingu mannsins á auðlindum jarðar og meðferð okkar á jörðinni. Hann benti á að ef saga jarðarinnar væri mæld sem eitt ár þá hefði mannkynið notað þriðjunginn af auðlindum hennar síðustu 1,2 sekúndunum. Miðað við hvernig við nýtum auðlindir jarðar þyrftum við næstum tvær jarðir til að dæmið gengi upp. „Við höfum mengað loft, land og vatn og við erum að fylla sjóinn af plasti. Nú er náttúran að snúa til varnar. Hitamet falla, líffjölbreytni er að hrynja, eyðimerkur að breiðast út og bæði gróðureldar og flóð eru bæði algengari og verri en áður,“ segir hann og varar við því að við séum mjög viðkvæm fyrir þessu öllu saman.
Ofan á þetta bættist kórónuveirufaraldurinn á síðasta ári og Guterres bendir á að við getum ekki tekið upp fyrri hætti þegar honum léttir. Batinn eftir faraldurinn sé tækifæri okkar til að breyta um stefnu. Við þurfum að feta nýja braut þar sem heilsa allra er tryggð, efnahagur vænkast og við fáum hraustari tilveru þar sem líffjölbreytni er tryggð.
„Allir verða að gera meira“
Aðalritarinn bendir á að nýsköpun og náttúrutengdar lausnir lofi sérlega góðu um þessar mundir og störf geti líka orðið til með því að styðja við og vernda líffjölbreytni. Hann vitnar í alþjóða viðskiptaráðið World Economic forum sem telji að möguleg tækifæri í náttúrutengdum lausnum gætu skapað 191 milljón starfa fram til 2030.
Á hinn bóginn bendir hann á að 711 milljarða Bandaríkjadollara vanti upp á það sem þarf af fjármagni til að mannkynið geti náð líffjölbreytnimarkmiðum sínum fyrir 2030. Aukin og trygg fjármögnun sé forsendan fyrir því að horfið verði frá mengandi geirum efnahagslífsins. Nú er tími kominn til að samþætta fjárframlög hins opinbera og einkageirans við Parísarmarkmiðin og markmið Sameinuðu þjóðanna um líffjölbreytni. Flétta þurfi markmiðið um kolefnishlutleysi inn í allar ákvarðanir í efnahagslífinu og stjórnsýslunni. Hann bendir líka á að huga þurfi vel að fátækum þjóðum og þeim sem loftslagsbreytingarnar eru þegar farnar að bitna mjög á.
„Allir verða að gera meira,“ segir Guterres.
Náttúran sjálf hefur lausnirnar
„Í náttúrunni er að finna lausnir sem nýta má til að þróa sjálfbæran landbúnað, efnahag og fjármálaþjónustu svo við getum varðveitt siði okkar og menningu,“ sagði Emmanuael Macron Frakklandsforseti, sem ásamt Karli Bretaprins stendur að þessari árlegu ráðstefnu, One Planet Summit.
Náttúrutengdar lausnir á samfélagslegum viðfangsefnum felast í því að nýttar eru aðferðir sem náttúran sjálf notar til að viðhalda sér, vaxa og dafna. Ef við þróum og innleiðum lausnir sem byggjast á sjálfbærni náttúrunnar er talið að tryggja megi sjálfbærni en um leið umhverfislegan, félagslegan og efnahagslegan ávinning. Öflugar lífverur eins og tré eða öflug vistkerfi á borð við skóga búa til dæmis yfir ýmsum lausnum sem snerta hreint vatn, hreint loft, heilbrigðan jarðveg, varnir gegn þurrkum og þar fram eftir götunum, en líka stöðugt framboð á endurnýjanlegum auðlindum ef hringrásir vistkerfisins eru í lagi.
Ráðstefnunni One Planit Summit í París lauk í gær, 12. janúar, og þar varpaði Macron fram fjórum forgangsaðgerðum sem ráðast þyrfti í.
Vernda þarf vistkerfi á bæði landi og í sjó svo náttúran geti náð sér á strik á ný.
Tala þarf fyrir vistrækt í landbúnaði til að vernda umhverfið, tryggja matvælaöryggi og draga úr ójöfnuði.
Virkja þarf fjármagn frá hinu opinbera og einkageiranum sem getur bæði stutt við loftslagsaðgerðir og líffjölbreytni.
Draga þarf skógareyðingu, sérstaklega í hitabeltinu, til að vernda lífverur og heilsu okkar mannanna.
Þá var líka tilkynnt á fundinum um aukið fjármagn til eins stærsta umhverfisverkefnis heims, græna múrsins mikla sunnan Sahara-eyðimerkurinnar í Afríku. Þar hafa verið tryggðir 14,2 milljarðar Bandaríkjadollara næstu tíu árin sem er mikil innspýting í þetta mikilvæga verkefni. Nánar má lesa um það í annarri frétt hér á skogur.is.