Plöntur gróðursettar að vori innan girðingar utan um tilraunareit á Mosfellsheiði
Plöntur gróðursettar að vori innan girðingar utan um tilraunareit á Mosfellsheiði

Skógræktarskilyrði á Mosfellsheiði

Grein eftir Björn Traustason, Jóhönnu Bergrúnar Ólafsdóttur og Þorberg Hjalta Jónsson

Birtist í: Ársriti Skógræktarinnar 2020

Tilraun til að kanna aðstæður til skógræktar á Mosfellsheiði fór af stað með gróðursetningum haustið 2019 og vorið 2020. Meginmarkmið tilraunarinnar er annars vegar að kanna áhrif umhverfisaðstæðna á vöxt plantna og hins vegar að athuga hvort beit hafi áhrif á vöxt og lifun trjáplantna. Tilraunin er unnin fyrir Kolvið og fjallað er um hana í Ársriti Skógræktarinnar 2020.

Mynd 1. Yfirlitskort af tilraunastöðum á Mosfellsheiði (smellið til að stækka)Á heiðinni voru valdir 12 tilraunareitir sem eru í 200-350 metra hæð yfir sjó. Í hverjum tilraunareit er annars vegar girðing sem er 5x5 m að stærð og hins vegar jafnstórt gróðursetningarsvæði utan girðingar. Gróðurfar stjórnast að mestu af hæð yfir sjó, en reynt var að velja svæðin með breytileika í gróðurfari í huga. Svæðin eru öll í námunda við slóða sem liggur um heiðina, til þess að auðvelda aðgengi að þeim en heiðin getur verið erfið yfirferðar utan slóða.

Framkvæmd tilraunarinnar skiptist í tvo hluta, annars vegar haustgróðursetning 2019 (eftir fyrstu göngur) þar sem einungis var gróðursett utan girðingar og hins vegar vorgróðursetning 2020 þar sem gróðursett var bæði innan og utan girðinga. Enginn áburður var gefinn við haustgróðursetningu, en helmingur gróðursettra plantna fékk áburð við gróðursetningu að vori.

Niðurstöður

Haustgróðursetning

Mynd 2. Uppsetning girðingar á Mosfellsheiði.Haustgróðursetning 2019 kom vel undan fyrsta vetri. Vorið 2020 var lifun birkis 98% og 100% hjá furunni. Töluvert var um bruna á nálum hjá stafafuru og kal hjá birkiplöntum eftir veturinn. Þegar þessi tilraun var tekin út haustið 2020 var lifun 64% og rekja má flest afföllin til beitarskemmda. Mikill munur var á milli svæða þegar kom að beitarskemmdum. Mestar voru skemmdir á svæði 2 (58%) en á fimm svæðum (svæði 1, 4, 5, 7 og 11) hafði sauðfé látið plönturnar vera.

Vorgróðursetning

Mynd 3. Plöntur gróðursettar að vori innan girðingarHaustúttekt á vorgróðursetningu 2020 utan girðinga leiddi í ljós mikil afföll af völdum sauðfjár. Mestu afföllin voru á svæði 2 (75%) en minnstu afföllin á svæði 5 (12%). Ekkert svæðanna slapp alveg við áhrif sauðfjár. Hæðarmælingar á lifandi plöntum sýndu fram á minni meðalhæð frá gróðursetningu, sem skýra má með toppbiti.

Innan girðinga var lifun 84% eftir fyrsta sumarið. Birkið bætti við sig 6 cm að meðaltali þetta fyrsta sumar, en meðalhæð furunnar breyttist ekki frá gróðursetningu.

Mynd 3. Hlutfall liggjandi plantna, þ.e. plöntur sem sauðfé hefur kippt upp

Ályktanir

Þessar frumniðurstöður sýna afdráttarlaust neikvæð áhrif sauðfjárbeitar á nýskógrækt og má rekja flest ef ekki öll afföll plantnanna til beitarinnar. Minni beitarskemmdir voru í haustgróðursetningu samanborið við vorgróðursetningar.

Lifun og vöxtur innan girðinga gefur til kynna að umhverfisaðstæður séu ákjósanlegar til skógræktar á svæðinu. Þó ber að hafa í huga að þegar þetta er skrifað eiga þessar plöntur eftir að takast á við yfirstandandi vetur. Næstu mælingar munu þannig leiða betur í ljós hvernig þeim vegnar.

Ársrit Skógræktarinnar 2020