Flest ungmenni á Íslandi hafa einhverja reynslu af gróðursetningu trjáplantna gegnum skóla eða félag…
Flest ungmenni á Íslandi hafa einhverja reynslu af gróðursetningu trjáplantna gegnum skóla eða félagsstarf. Samt hefur hlutfall ungs fólks farið lækkandi í skógræktarhreyfingunni. Ungviður er mótvægi við þessa þróun. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Grein eftir Daníel Godsk Rögnvaldsson, meistaranema í sjálfbæri minjastjórnun við Árósaháskóla

Nánast hvert mannsbarn á Íslandi hefur tekið þátt í að planta tré og vel flest ungmenni unnið að skógræktarverkefnum á einn eða annan hátt gegnum skóla eða félagsstarf. Skógarmenning er að færast í aukana á landinu en meðalaldur í skógræktarhreyfingunni er hins vegar að hækka. Viðbrögð við þessu er stofnun Ungviðar, ungmennaarms skógræktarfélaganna. Þar situr í stjórn Elisabeth Bernard mannfræðingur sem gert hefur úttekt á stöðu skógræktarfélaganna í landinu.

Skógræktarfélög á Íslandi eru 61 talsins og meðlimirnir um 7000. Öll byggja þau á ríkri sögu skógræktar­tilrauna snemma á 20. öldinni þegar ungmennafélagsandinn réð lögum og lofum í skógrækt. Skógræktarfélögin eru einstakt fyrirbæri og vert að spyrja sig hvað valdi slíkum áhuga í landi þar sem skógrækt á sér ekki lengri sögu. Það er þess vegna ósköp skiljanlegt að þau veki athygli fyrir utan landsteinana. Það var þessi áhugi sem olli því að franski mannfræðingurinn Elisabeth Bernard fetar nú í fótspor fjölmargra erlendra sérfræðinga sem lagt hafa skógrækt á Íslandi lið. Hún starfar þessi misseri hjá Skógræktarfélagi Íslands að sérverkefninu „Skógarfólkið“. Elisabeth er í námi á meistarastigi í málefnum norðurskautsins með áherslu á umhverfismál. Seinasta sumar var hún í starfsnámi hjá Skógræktarfélagi Íslands og vann að úttekt á starfsemi félaganna um allt land, þar sem hún meðal annars fór hringinn og tók 52 formenn tali. Úr varð skýrsla þar sem staða skógræktarfélaganna var tekin út, skýrari mynd fengin af þeirri fjölbreyttu starfsemi sem fer fram og þær áskoranir sem félögin þurfa að glíma við útlistaðar. Áhugasamir geta kynnt sér efni hennar hér.

Kynslóðir mætast í skógrækt

Sem dæmi um skógarmenningu nefnir hún hvernig Akureyringar nýta Kjarnaskóg með margvíslegum hætti. Hér er fyrirlestur í skóginum. Ljósmynd: Pétur Halldórsson Í áðurnefndri skýrslu má lesa að aldursamsetning meðlima skógræktarfélaga er þeim eldri töluvert í vil, en meira en helmingur félagsmanna er 61 árs og eldri, og ljóst að ein áskorana félaganna á næstu árum er nýliðun. Að baki þessarar aldurs­skiptingar liggja eflaust fjölmargar ástæður. Minni skógræktarfélög sáu á eftir ungu fólki sem flutt hafði til höfuðborgarsvæðisins og endur­speglar það stærri breytingar í samfélaginu, eldra fólk var talið líklegra til að huga að því sem það skilur eftir sig til nýrra kynslóða o.s.frv. Þrátt fyrir dræma þátttöku yngri kynslóða í skógræktarfélögum segir Elisabeth að þau hafi vel flest unnið að skógræktarverkefnum á einn eða annan hátt í gegnum skóla og annað félagsstarf, til dæmis í gegnum Yrkjusjóð. Nánast hvert mannsbarn á Íslandi hafi tekið þátt í að planta tré. Ef til vill er þörfinni mætt þar, þó að ungt fólk sé í vaxandi mæli áhugasamt um skógrækt í tengslum við loftslagsmál. Skógarfólkið snýr því líka að því virkja þá sem yngri eru og hafa áhuga á skógrækt. Farið var meðal annars í að stofna ungmennaarm Skógræktarfélags Íslands, Ungvið, sem er að hefja starfsemi sína um þessar mundir. Elisabeth situr þar sjálf í embætti ritara. Hún segir það ekki eingöngu gert vegna vinnu sinnar heldur hafi hún líka haft áhuga á að kynnast öðru ungu fólki sem hefur áhuga á skógrækt og hún hvetur eindregið alla sem áhuga hafa á að gerast meðlimir í Ungvið.

„Ákvörðunin að fara út að planta tré er frekar klikkuð“

Elisabeth er fyrir löngu orðin Íslandsvinur. Meistaraverkefnið hennar í mannfræði laut að samvist fólks og eldfjalla á Íslandi. Þegar hún var á Íslandi í tengslum við þá rannsókn einblíndi hún á jarðfræðilega þætti og önnur ummerki um eldgos, bæði tengd náttúru og menningu. Hún rakst seinna á umfjöllun um skógrækt á Íslandi og segist strax hafa orðið heilluð. „Ákvörðunin um að fara út og planta tré er frekar klikkuð þegar þú hugsar um það,“ segir hún. Við frekari athuganir áttaði hún sig á því að hún hafði farið hjá mörgum þessara íslensku skóga, en ekki tekið eftir þeim. Svo sé raunin um fleiri, og segist Elisabeth heyra talað um að engir skógar séu á Íslandi þó að raunin sé nú þegar allt önnur. Á Íslandi séu fjölmargir skógar, sem sumir séu „risavaxnir“. Svipta þurfi hulunni af þeim skógum sem séu nú þegar á Íslandi. Fyrirframgefnar hugmyndir og ímyndin um sérstakt íslenskt landslag sé að hér vaxi enginn skógur og því komi sumir, meðal annars hún sjálf til að byrja með, ekki auga á neinn skóg.

Skógarfólkið

Skógræktarfélag Djúpavogs er dæmi um lítið og fámennt íslenskt skógræktarfélag sem hefur þó sýnt með öflugum hætti hvers það er megnugt. Myndin er tekin á samkomu skógræktarfólks í Hálsaskógi, reit félagsins, sem er skammt frá þorpinu. Ljósmynd: Pétur Halldórsson Eftir skýrslugerðina var Elisabeth ráðin að tilraunaverkefninu Skógarfólkið sem hún sinnir um þessar mundir. Verkefnið á að gefa Skógræktarfélagi Íslands betri hugmynd hvernig sé best að styðja skógræktarfélög sem minni eru til að virkja félagsmenn, efla starfsemi sína og ekki síst efla samstarfið á milli félaga. Elisabeth segir að dæmi séu um að skógræktarfélög í sömu landshlutum hafi jafnvel ekki vitað af starfsemi annarra skógræktarfélaga í nágrenninu og þannig orðið af mikilvægu samstarfi. Stundum er nóg að láta vita að Skógræktarfélag Íslands sé til staðar og geti aðstoðað til að starfsemin eflist án frekari aðkomu. Sem liður í þessu verkefni voru skógræktarfélög á Snæfellsnesi heimsótt föstudaginn 17. september og farið í skoðunarferðir um skógarreiti á svæðinu með fulltrúum þeirra. Slíkir viðburðir stuðla að samstarfi milli minni félaga í sömu landshlutum og ekki síður að því að opna samskiptagáttir að Skógræktarfélagi Íslands. Elisabeth hefur einnig staðið að viðburðum með listafólki þar sem tilgangurinn er að skapa umræðu um tækifærin sem eru til staðar fyrir menningarlíf í skóginum.

 

Íslendingar ung skógarþjóð

Elisabeth Bernard í kvöldhúmi skógar. Ljósmynd: Christalena Hughmanick Aðspurð hvort Elisabeth telji að á Íslandi þrífist sérstök skógarmenning segist hún verða þess áskynja að slík menning sé alltaf að færast í aukana. Skóglendi á Íslandi fái sífellt meira vægi í útivist og annarri menningarstarfsemi. Afurðir skógarins séu smátt og smátt að uppgötvast og á haustin fyllast skógarreitir af fólki sem nýtir sér uppskeruna. Íslendingar eru ung skógarþjóð og hún segir það spila inn í hve áhugaverð skógræktarfélögin séu, að Íslendingar séu sífellt að læra og uppgötva skógana. Þeir séu mjög móttækilegir fyrir erlendri þekkingu á skógum og margir sem sæki menntun í skógfræðum fyrir utan landsteinana. Það sé á sama tíma undravert að skógræktarfélögin hafi getað viðhaldið starfi sínu í gegnum tíðina. Hún segir að það sýni að skógrækt sé meira en bara að planta trjám, skógræktar­félögin snúist um jákvæðan félagsskap og samveru í náttúrunni. Skógræktaráhuginn virðist að einhverju leyti líka ganga í erfðir, og eru mörg dæmi um fjölskyldur sem taka virkan þátt í starfinu. Sums staðar sé hægt að tala um töluverða skógarmenningu, þó hún fari ekki endilega fram í gegnum skógræktarfélög. Hún nefnir sem dæmi hvernig Akureyringar nýta sinn grenndarskóg, Kjarnaskóg, og að á Djúpavogi sé vel séð um Hálsaskóg sem hafi fengið ríkan sess í ýmsu félagsstarfi.

Niðurlag

Skógræktarfélög Íslands standa að þróttmiklu félagsstarfi í þágu umhverfis Íslendinga um allt land. Almenningur getur þakkað skógræktarfélögum að það geti sótt skjól í skógarreitum vítt og breitt um landið. Það er ávöxtur mikillar og þrotlausrar vinnu, sem halda þarf við. Það er þess vegna mikið happ fyrir skógrækt á Íslandi að erlent skógáhugafólk hefur lagt henni lið í gegnum tíðina. Elisabeth segir að það sé ekki síst sú menning, líf og starf í kringum skógana sem heillar marga og skógræktarfélögin undirstriki hversu veigamikinn sess slíkur félagsskapur getur skipað og með því að taka þátt er hægt að hafa sjáanleg áhrif á nærumhverfi sitt.

Texti: Daníel Godsk Rögnvaldsson