Fleiri fyrirtæki huga að kolefnisjöfnun
Í frétt Önnu Þorbjargar Jónasdóttur fréttamanns frá 7. nóvember segir frá samningnum sem sjávarútvegsfyrirtækið Eskja á Eskifirði hefur gert við Skógræktina um að þróa kolefnisverkefni með plöntun trjáa á landi fyrirtækisins til að kolefnisjafna starfsemi sína. Fram kemur einnig að Festi hafi áður lagt af stað í slíkt verkefni, fyrst íslenskra fyrirtækja. Greint hefur verið frá hvoru tveggja hér á skogur.is.
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri segir í spjalli við Önnu Þorbjörgu að fleiri fyrirtæki séu farin að huga að kolefnisjöfnun. „Það eru fleiri sjávarútvegsfyrirtæki og önnur fyrirtæki að hugsa á sama hátt og munu byrja á sínum eigin verkefnum. Skógræktin veitir þá ráðgjöf sem fyrirtæki þarf á að halda til að rækta skóg á þann hátt að markmiðinu um kolefnisbindingu og fleiri hluti sé náð.“
Þarf að byrja strax
Þröstur segir mikilvægt að farið sé í það ferli að votta kolefnisbindinguna en það byrjar með skráningu í Loftslagsskrá Íslands. Þegar trén eru byrjuð að vaxa fer óháður aðili og metur hvort hægt sé að búa til svokallaðar kolefniseiningar. Út frá þeim upplýsingum er hægt að áætla fram í tímann hver bindingin verður.
„Síðan eftir um 10-15 ár er hægt að staðfesta vöxtinn á trjánum og þá verða til þar fullgildar einingar sem er hægt að nota. Þetta er auðvitað það sem fyrirtæki og reyndar þjóðin öll stendur frammi fyrir vegna þess að það er búið að setja í lög að þjóðin ætli að vera kolefnishlutlaus 2040. Ef að skógur á að vera farinn að binda eitthvað að ráði þá þarf að byrja strax,“ segir Þröstur.
- Frétt Ríkisútvarpsins
- Festi hf. fyrst til að ráðast í vottað bindingarverkefni samkvæmt reglum Skógarkolefnis
- Eskja bindur kolefni á ábyrgan hátt með Skógarkolefni