Mosavaxinn skógarbotn í íslenskum skógi. Ljósmynd: Þröstur Eysteinsson
Um það leyti sem haustgróðursetningu var að ljúka hjá skógræktendum vítt og breitt um landið skrifaði Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri grein sem birtist í Bændablaðinu 3. nóvember. Þar reifar hann vaxandi skógrækt á landinu, vaxandi þörf fyrir plöntur, verktaka og nýjar gróðrarstöðvar en einnig fræ og græðlingaefni af góðum uppruna. Útlit sé fyrir að gróðursettar skógarplöntur nái sex milljónum á þessu ári.
Þröstur skrifar:
Þessa dagana er verið að klára haustgróðursetningu í skógrækt. Skógarbændur víða um land hafa fengið sínar plöntur eða eru um það bil að fara að sækja þær á dreifingarstöðvar.
Skógræktin hefur fengið sínar plöntur í stóru verkefnin með Landgræðslunni, svokölluð Bonnverkefni, og önnur verkefni í samstarfi við ýmsa aðila. Einkaaðilar fengu sinn skerf og skógræktarfélög sinn. Okkur sýnist að gróðursetning ársins fari yfir 6 milljónir plantna. Þetta er mikilvægt svo Ísland geti náð loftslagsmarkmiðum sínum
Innlendir verktakar í gróður- setningu fá nóg að gera, en þeir eru fáir og því var samið við erlent verktakafyrirtæki til að ná endum saman. Það er eins og í svo mörgu öðru hjá fámennri þjóð. Hins vegar höfum við lært margt gott af samskiptunum við það ágæta gróðursetningarfólk sem hingað hefur komið, m.a. að á löngum degi í júní getur einn maður, vel á sig kominn, gróðursett 10.000 tré.
Gróðrarstöðvarnar sem framleiða skógarplöntur hafa staðið sig geysivel og vinna nú að því að geta aukið afköstin enn meira. Þá íhuga fleiri aðilar að reisa nýjar gróðrarstöðvar. Ekki veitir af, því allt bendir til þess að þörfin fyrir skógarplöntur aukist verulega á næstu árum.
Annað sem getur takmarkað skógrækt og þarf því að leysa er framboð á fjölgunarefni (fræi og græðlingum). Þar dugar ekki hvað sem er, því við gerum kröfur um góða aðlögun og góðan vöxt trjánna. Það vill svo heppilega til að nú er gott fræár á birki og greni á Norður- og Austurlandi. Því er áhersla lögð á að ná inn birgðum til nokkurra ára af þekktum og góðum uppruna fyrir þær tegundir. Þá verður eins mikið tínt af stafafurukönglum og hægt er og tilraun gerð með söfnun lerkiköngla í þeirri von að spírun sé skárri en vaninn er. Skortur á græðlingaefni alaskaaspar hefur lengi verið hamlandi, en unnið er að því að fjölga móðurplöntum af kynbættum og ryðþolnum klónum. Þá er einnig unnið að því að auka framleiðslu á lerkiblendingnum ‘Hrymi’ sem getur vaxið álíka hratt á rýru landi og alaskaösp getur á frjósömu landi.
Allt tekur þetta mannskap, tíma og peninga. Fjárfesta þarf í þessum innviðum skógræktar; í framleiðslu fjölgunarefnis, í framleiðslugetu plantna og í því að koma plöntunum í jörð. Ekki síst þarf að fjárfesta í þekkingu á öllum sviðum. Skógræktin vinnur að eflingu skógræktar í þágu stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum og tekur þeirri ábyrgð sem henni er falin mjög alvarlega. Hún vinnur hörðum höndum að því að leysa úr áskorunum sem því fylgja að auka gróðursetningu í landinu. Það hefur í för með sér vinnu með öðrum ríkisaðilum, sveitarfélögum, fyrirtækjum og einstaklingum að margs konar úrlausnarefnum. Oftast er sú vinna ánægjuleg því samstarfsaðilar eru á sama blaði, vita það að Ísland er skuldbundið til að ná tilteknum árangri í loftslagsmálum fyrir 2030 og ætlar sér að verða kolefnishlutlaust 2040. Til þess þarf að vinna ötullega að mörgu, þ.á m. að því að stórauka skógrækt.
Tími umræðu og efasemda um loftslagsvána er liðinn. Tími aðgerða er kominn. Ekki er eftir neinu að bíða. Með þekkingu og vísindalegar niðurstöður að vopni getum við gert góðar áætlanir sem taka fullt tillit til ýmiss konar verndarsjónarmiða og ræktað gjöfulan skóg sem er ómissandi hluti af leiðinni að kolefnishlutlausu Íslandi 2040. Skógrækt á litlum hluta landsins getur þarna skipt sköpum.