Úr einni af dreifingarstöðvum Skógræktarinnar. Ljósmynd: Sæmundur Kr. Þorvaldsson
Úr einni af dreifingarstöðvum Skógræktarinnar. Ljósmynd: Sæmundur Kr. Þorvaldsson

Brynjar Gauti Snorrason ver í dag meistararitgerð sína í rekstrarverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Hann fjallar í verkefninu um bestun á aðferðum við flutning skógarplantna frá gróðrarstöðvum til bænda.

Útdráttur

Fyrirlesturinn fer fram í stofu M104 í Háskólanum í Reykjavík og hefst klukkan fimmtán. Hann verður einnig sendur út í Zoom-fjarfundakerfi á vefnum.

Verkefni Brynjars Gauta heitir á ensku Optimizing Transportation of Forest Seedlings for the Icelandic Forest Service. Útdráttur á íslensku er á þessa leið.

Skógræktin hefur yfirumsjón með flutningum skógarplantna frá gróðrastöðvum til dreifistöðva þar sem skógarbændur geta sótt úthlutaðar plöntur. Skipulagning flutninganna getur verið flókin í framkvæmd. Á undanförnum árum hefur gróðrastöðvum fækkað og fjármagn til nýskógræktar á Íslandi dregist saman á meðan áhugi á þátttöku hefur aukist. Því er mikilvægt að nýta þau hjálpartæki sem bjóðast til að öðlast sem mesta yfirsýn og geta nýtt mannafla, tíma og fjármagn sem best. Í þessu verkefni eru aðferðir aðgerðagreiningar notaðar til þess að búa til bestunarlíkön fyrir flutning á skógarplöntum á Íslandi. Líkön sem þessi geta nýst við ákvarðanatöku fyrir Skógræktina. Skógræktin veitti aðgang að gögnum og upplýsingum fyrir verkefnið.

Blönduð heiltölulíkön voru þróuð, eitt fyrir núverandi kerfi þar sem dreifistöðvar eru notaðar við flutning plantna og annað fyrir beina afhendingu frá gróðrastöðvum til skógarbænda. Markmið verkefnisins var að lágmarka vegalengd flutninga fyrir Skógræktina og skógarbændur. Mismunandi keyrslur voru framkvæmdar þar sem mismunandi dreifistöðvum var lokað og ný opnuð. Fleiri tilfelli voru skoðuð þar sem gróðrastöðvum var fjölgað og framboð skógarplantna aukið um leið.

Niðurstöðurnar sýna að núverandi kerfi með notkun dreifistöðva til að dreifa skógarplöntum felur í sér akstur styttri vegalengda en afhending beint af gróðrastöð. Opnun fleiri dreifistöðva gætu verið réttlætanlegar á stöðum þar sem mikið er af skógarbændum sem þurfa að ferðast langar leiðir. Lokun dreifistöðva leiddi alltaf til aukningar í vegalengdum fyrir skógarbændur. Opnun nýrra gróðrastöðva þéttu dreifingarnetið og minnkuðu heildarflutning.

Leiðbeinendur Brynjars voru þeir dr Páll Jensson, prófessor í rekstrarverkfræði við HR, og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, MSc í skógfræði og sviðstjóri skógarþjónustu Skógræktinni.

Prófdómari er Júlíus Atlason, Ph.D. í iðnaðar- og aðgerðarverkfræði og yfirmaður hugbúnaðarþróunar hjá Five Degrees.

Hlekkur á vörnina

Öllum er velkomið að fylgjast með vörninni með því að notast við eftirfarandi hlekk.

Sett á skogur.is:Pétur Halldórsson