(Mynd: Þröstur Eysteinsson)
(Mynd: Þröstur Eysteinsson)
Af tilefni viðtala við Pétur M. Jónasson, vatnalíffræðing, í útvarpi (Speglinum) og sjónvarpi (Kiljunni) 9. mars s.l., vil Skógrækt ríkisins koma eftirfarandi á framfæri:

Enginn fótur er fyrir því sem Pétur hélt fram um að barrtré á Þingvöllum valdi niturmengun í Þingvallavatni. Síðan Pétur hélt þessu síðast opinberlega fram fyrir tíu árum síðan hafa farið fram rannsóknir á samspili skóga og vatns hérlendis undir verkefnisheitinu Skógvatn. Þar var m.a. borin saman niturlosun í vatn frá mólendi, birkiskóglendi og barrskógi. Losunin var mjög lítil úr öllum tegundum gróðurlendis, eða um hundrað sinnum minni en af landbúnaðarlandi. Mest var niturlosunin þó úr mólendi, næstmest úr birkiskógi og minnst úr barrskógi. Stafar það af því að því hávaxnari sem gróður er því minna er vatnsrennsli á yfirborðinu að vetrarlagi, en það er þannig sem mest berst af uppleystum efnum af landi og út í vatn. Niturlosun niður um mold og ofaní grunnvatn er því sem næst engin. Hér að neðan er krækja á erindi dr. Bjarna Diðriks Sigurðssonar um þessar niðurstöður.

Við Þingvallavatn er mólendi algengt, birkikjarr víðáttumikið og talsvert um tún, en barrskógur einungis á örfáum hekturum lands. Það má því ljóst vera að langtum meira nitur berst í vatnið frá mólendi, birkikjarri og túnum en úr barrskógunum. Telji einhverjir að niturmengun frá gróðurlendum sé vandamál við Þingvallavatn ættu þeir því frekar að hvetja til þess að gróðursetja barrskóga við vatnið en að eyða þeim.


Mynd og texti: Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri Þjóðskóganna