Vel er hugað að aðgengismálum þegar settar eru upp snyrtingar í þjóðskógunum og smám saman batnar aðgengi í helstu skógunum. Þessi mynd er úr Atlavík. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Grein eftir Daníel Godsk Rögnvaldsson, meistaranema í sjálfbæri minjastjórnun við Árósaháskóla
Skóglendi á Íslandi hefur aukist jafnt og þétt síðan skógrækt hófst og möguleikum þar til útivistar, fræðslu og menningarstarfs fjölgað. Samhliða hefur þörfin fyrir stígagerð, grisjun og fleiri þætti sem bæta aðgengi vaxið. Þjóðskógar í umsjón Skógræktarinnar eru opnir almenningi og stefna Skógræktarinnar hefur verið að halda helstu þjóðskógunum eins aðgengilegum og hægt er. Tilteknum þjóðskógum eða hlutum þeirra er þó hlíft við raski vegna náttúruverndarsjónarmiða.
Í drögum að landsáætlun í skógrækt 2021-2031 er ítrekað að eitt aðalmarkmiða Skógræktarinnar sé „að auðvelda aðgengi fólks að skógum til útivistar og auka þátttöku einstaklinga og félagasamtaka í skógræktarstarfinu“ . Það þýðir þó ekki að alls staðar þurfi að vera stígar og önnur mannvirki í skógum. Óhreyfðir skógar hafa líka gildi og dæmi um slíkan skóg er Arnaldsstaðaskógur í Fljótsdal og fleiri birkiskógar sem Skógræktinni var falið að friða og varðveita.
Skóglendi getur verið torfært yfirferðar og ef ekkert er að gert verður fólk af verðmætum útivistarsvæðum. Mörg verkefni Skógræktarinnar hafa stuðlað að betra aðgengi að þjóðskógunum, t.d. verkefnið „Opnum skógana“ árið 1990. Stefið hefur svo endurómað í stefnu Skógræktarinnar í gegnum tíðina. Í dag er svo komið að aðgengi að nokkrum fjölsóttum þjóðskógum hefur stórbatnað og eru þeir orðnir flestum aðgengilegir, a.m.k. að einhverju leyti. Í eftirfarandi þjóðskógum er aðgengi fyrir hjólastóla með aðstoð:
Í Haukadalsskógi var farið í að bæta aðgengi að skóginum í samstarfi við Sjálfsbjörg árið 2002 og stígur sem fær er hjólastólum með aðstoð var útbúinn. Einnig eru þar snyrtingar með góðu aðgengi fyrir hreyfihamlaða.
Í Kristnesskógi var um 300 m stígur malbikaður sem vel er fær hjólastólanotendum með aðstoð. Það kemur sér vel fyrir þá sem sækja þjónustu Kristnesspítala og annarra sem vilja njóta skóglendis í hjarta Eyjafjarðar. Landeigendur Kristness hafa nú keypt skóginn og tekið við umsjón hans. Skógurinn verður áfram opinn og honum viðhaldið í samstarfi við spítalann.
Í hinum sögufræga Hallormsstaðaskógi er góð aðstaða fyrir hjólastólanotendur á tjaldstæðinu við Atlavík.
Í hinum ævintýralega Þjórsárdalsskógi eru stígar færir hjólastólum með aðstoð, verkefni sem einnig var unnið í samstarfi við Sjálfsbjörg á Suðurlandi. Þar eru einnig snyrtingar með góðu aðengi.
Í Laugarvatnsskógi var opnaður eldaskáli með góðri aðstöðu fyrir alla 2018 og tilvalið að gera sér ferð til að kanna herlegheitin. Að sjálfsögðu eru snyrtingar í skálanum hannaðar samkvæmt reglum um aðgengi fyrir alla og gott að komast að eldaskálanum frá bílastæði.
Í Ásbyrgi er gott aðgengi hjólastóla að snyrtingum, annarri aðstöðu á tjaldsvæðinu og stígurinn að Botnstjörn er vel fær öllum.
Í Vaglaskógi er gott aðgengi á tjaldsvæðinu en stígar henta ekki hjólastólum. Þar er nú í smíðum eldaskáli, sambærilegur við skálann í Laugarvatnsskógi, og verður aðgengi að honum gott ásamt snyrtingum sem þar verða.
Mælst er til þess að hafa samband við skógarvörð til að kanna aðstæður og fá nánari upplýsingar um aðgengi í hverjum þjóðskógi fyrir sig.
Ljóst er að bætt aðgengi að skóglendi er stöðugt verkefni sem aldrei verður lokið, enda skógurinn lifandi og breytilegur eftir því. Betur er hægt að búa um hnútana í aðgengismálum í þeim fjölmörgu þjóðskógum sem Skógræktin hefur umsjón með. Áætlanir um betra aðgengi þjóðskógana verða áfram að vera eitt mikilvægra markmiða Skógræktarinnar, og ljóst að ef skógarnir eiga að standa undir nafni sem þjóðskógar verður þjóðin öll að hafa tækifæri til að njóta þess sem skóglendið hefur að bjóða.