Undirbúningsvinnan við stofnun Erfðalindar skógræktar hefur nú staðið í tvær vikur. Á þeim tíma hefur verið rætt við nokkra helstu hagsmunaaðila innan skógræktargeirans. Einnig hefur verið haft samband við nokkra aðila sem tengjast garðplönturæktun. Enn sem komið er hafa mestu viðbrögðin verið frá skógræktarmönnum enda hafa verið haldnir nokkrir samráðsfundir með þeim. Lítil viðbrögð hafa verið frá garðplöntumönnum en búast má við að upplýsingar berist frá þeim á allra næstu dögum. Það er sameiginlegt með öllum þeim sem hafa tjáð sig að þeir telja þetta afar mikilvægt mál og nauðsynlegt að finna sem allra fyrst viðunandi lausn. Björn B. Jónson hjá Suðurlandsskógum orðaði það eitthvað á þá leið að hér er sé ferðinni risastórt hagsmunamál skógræktar.
Skógrækt ríkisins
Rannsóknastöðin á Mógilsá
Rannsóknastöðin á Mógilsá hefur haft frumkvæði í þessu máli. Mógilsá hefur, allt frá stofnun árið 1967, séð um innflutning og sölu á trjáfræi til skógræktar. Upphaf þeirrar starfsemi má rekja til tímabilsins 1944-1980, þegar kaup á trjáfræi var að fullu fjármagnað af Landgræðslusjóði. Gróðrarstöðvar landsins fengu trjáfræið sér að kostnaðarlausu, en Mógilsá annaðist innflutning, geymslu, spírunarprófanir og dreifingu til framleiðenda. Á þeim tíma var að heita má öll framleiðsla skógarplantna fyrir íslenskan markað bundin við gróðrarstöðvar Skógræktar ríkisins, Skógræktarfélags Reykjavíkur eða Skógræktarfélags Eyfirðinga. Um 1980 hætti Landgræðslusjóður að standa straum af frækaupum og Mógilsá þess í stað falið að annast öll frækaup og fjármagna þau kaup með rekstrarfé sínu, án þess að viðbótarfjármunir kæmu til. Það reyndist hins vegar erfitt að halda uppi þeirri starfsemi með þessu sniði, einkum eftir að trjáplöntuframleiðsla margfaldaðist í upphafi tíunda áratugarins. Þá var farin sú leið við frækaup að láta framleiðendur greiða fyrir fræið, á verði sem nam innkaupsverði auk 50% álagningar og virðisaukaskatti. Sú leið dugði hins vegar ekki fyrir nema hluta heildarkostnaðar við umsýslu og óseldar birgðir. Hafði þetta því afar neikvæð áhrif á fjárhag Mógilsár um miðjan tíunda áratuginn sem aftur kom niður á rannsóknastarfinu. Sú leið, sem þar var farin, reyndist of kostnaðarsöm og óhagkvæm fyrir Mógilsá. Auk þess kusu stærri framleiðendur í mörgum tilfellum frekar að flytja inn fræ sjálfir erlendis frá. Við bættist, að Aðfangaeftirlitið hóf fyrir tveimur árum að leggja 2% þóknun á allt innflutt fræ, án þess að sama stofnun legði til neina þjónustu á móti. Mógilsá leitaði eftir því við skógræktarstjóra, að Skógrækt ríkisins tæki við því hlutverki Mógilsár að fjármagna innkaup erlendis frá, í ljósi þess að stofnunin hefði meira fjárhagslegt bolmagn til þess en rannsóknastöðin, en þeirri bón var hafnað. Því var sú ákvörðun tekin, að Mógilsá hætti að fjármagna innkaup á fræbirgðum til landsins, til þess að tefla ekki rekstri hennar í frekari tvísýnu, en lýsti sig reiðubúna til að halda áfram að annast sölu á fræi af birgðum í vörslu Mógilsár eða í umboðssölu fyrir þá aðila sem kynnu að vilja nýta sér þjónustu Mógilsár við geymslu, spírunarprófanir, sölu og dreifingu til framleiðenda.
Með þessari breytingu er þó ljóst að plöntuframleiðendur geta ekki gengið að sömu þjónustu vísri og fyrr, þ.e. að allt fræ sem til stendur að sá á hverju vori verði ávallt fyrir hendi í fræstöðinni á Mógilsá. Því er nauðsynlegt að finna nýjar leiðir sem tryggir til frambúðar árvisst framboð á því fræi sem þörf er á til skógræktar í landinu, án þess að fjárhagslegri afkomu Mógilsár sé stefnt í voða með áhættufjárfestingum í trjáfræi. Ljóst er að slíkur rekstur fer illa saman við meginhlutverk Mógilsár, sem er fyrst og fremst það að sjá um að fremja vísindi og skapa nýja þekkingu, en ekki að stunda áhættusöm viðskipti með aðföng handa heilli atvinnugrein.
Mógilsá vill auk þess benda á að samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins 1999/105/EC um markaðssetningu efniviðar til skógræktar (e. marketing of forest reproductive material; sjá: http://www.forestry.gov.uk/forestry/infd-5dnhek), sem taka mun gildi í öllum aðildarlöndum EES frá og með næstu áramótum, er þess krafist að í hverju landi sé óháður aðili sem annist vottun á erfðaefni til skógræktar. Þessi tilskipun hefur ekkert verið kynnt hér á landi, en þegar hún tekur hér gildi mun hún krefjast mun nákvæmara eftirlits, rekjanleika og vottunar þess erfðaefnis sem hér er notað til skógræktar en hingað til hefur þekkst, a.m.k. hér á landi. Ef Mógilsá yrði falið að sinna því hlutverki að vera umræddur vottunar- og eftirlitsaðili, hlyti að orka tvímælis stjórnsýslulega, ef Mógilsá væri jafnframt að annast innflutning, sölu og dreifingu á því sama efni og hún er að votta og hafa eftirlit með.
Mógilsá telur mikilvægt að finna nýjar leiðir til að koma á fót samstarfsverkefni helstu hagsmunaaðila sem hafi það hlutverk að annast söfnun, varðveislu, birgðahald, skráningu og miðlun þess erfðaefnis til plöntuframleiðenda sem hentugast er til skóg- og trjáræktar. Ennfremur vill hún stuðla að því að aukin áhersla verði lögð á erfðagæði skógarplantna, með markvissu úrvali og kynbótum fyrir íslenskar aðstæður, og telur samstarf við helstu kaupendur trjáplantna um þetta verkefni vera vænlegustu leiðina til þess að ná fram auknum gæðakröfum. Ennfremur vill hún leggja aukna áherslu á fræsöfnun og skilgreiningu fræsöfnunarreita innanlands, í samstarfi við deildir Skógræktar ríkisins og aðra þá aðila innanlands sem hafa yfir að ráða skógarreitum sem hentugir eru til fræsöfnunar, og draga á móti úr mikilvægi innflutnings á fræi sömu tegunda frá útlöndum. Mógilsá er reiðubúin að koma að einhverju leyti að fjármögnun slíks þróunarverkefnis, með vinnuframlagi, og taka að sér yfirstjórn þess, enda telur hún verkefnið falla betur að þróunar- og rannsóknahlutverki Mógilsár gagnvart annarri skógrækt og trjárækt í landinu en það, að vera í hlutverki fjármagnanda fræinnkaupa frá útlöndum. Auk þess falla slíkar hugmyndir vel að annarri starfsemi stöðvarinnar, svo sem að rannsóknum á erfðabótum í skógrækt.
Aðrar deildir Skógræktar ríkisins
Innan aðalskrifstofu Skógræktar ríkisins er mikill áhugi á að nýta þá þekkingu og aðstöðu sem til er hjá gróðrarstöðvum Skógræktarinnar til erfðavarðveislu og til framleiðslu á græðlingum og fræi af úrvalsefni. Nú þegar er reyndar hafin starfsemi á þessu sviði með frærækt í gróðurhúsum og græðlingaræktun í reitum. Hinsvegar er ekki talin ástæða til þess að gróðrarstöðvarnar taki á sig ábyrgð eða skyldur varðandi útvegun á því efni sem ekki er framleitt í gróðrarstöðvum eða safnað á vegum skógavarðanna á hverjum stað. Fræ og græðlingar eru eins og hver önnur aðföng til ræktunar sem eigi að vera á ábyrgð hvers ræktanda.
Skógarverðirnir á Austur- og Norðurlandi, ásamt fagmálastjóra, hafa ekki viljað tjá sig um sínar skoðanir en hafa vísað til samantektar frá NASL-ráðstefnu sem haldin var í febrúar síðastliðnum. Skógarvörður Suðurlands hefur hins vegar lýst fullum vilja til þess að starfa í nánu samstarfi við verkefnið.
Skógræktarverkefni og skógarplöntuframleiðendur
Rætt hefur verið við fulltrúa landshlutabundinna skógræktarverkefna, Skógræktarfélags Íslands og tveggja stærstu skógarplöntuframleiðenda, þ.e. Skógræktarfélags Eyfirðinga og Barra hf.. Þessir aðilar eru sammála um að mikilvægi þess að koma á fót Erfðalind fyrir skógrækt. Þeir telja að fyrst í stað sé best að miða þetta eingöngu við þarfir skógræktar. Það útilokar þó ekki möguleika á að taka inn garðplöntur seinna en óttast er að það gæti flækt og tafið málið á þessu stigi. Fyrirhugaður er við fyrsta tækifæri sameiginlegur fundur með fullrúum landshlutabundinna skógræktarverkefna, Skógræktarfélags Íslands, Mógilsár og hugsanlega fleiri aðila til þess að móta frekar hugmyndir um Erfðalind skógræktar.
Garðplönturæktendur
Eini garðplönturæktandinn sem rætt hefur verið við er Skógræktarfélag Eyfirðinga. Þar á bæ er lögð meiri áhersla á erfðamál skógræktar en garðplöntuuppeldis. Haft hefur verið samband við Garðyrkjufélag Íslands og Samtök garðplöntuframleiðenda og má búast við viðbrögðum þaðan á næstu dögum. Vilhjálmur Lúðvíksson, stjórnarmaður Skógræktarfélags Íslands og n.k. ?leiðtogi? hins svokallaða Gróðurbótafélags, hefur verið áhugasamur um að koma á úrvalsathugunum og erfðavarðveislu fyrir trjákenndar garðplöntur. Hann hefur komið nokkuð að þessu máli á fyrri stigum og gert er ráð fyrir að hann komi með góð ráð og ábendingar. Þá má benda á fyrirhugaða ráðstefnu sem halda á í nóvember, til heiðurs Óla Vals Hanssonar og Jóns H. Björnssonar. Þar má búast við að erfðamál og úrvalsathuganir fyrir garðplöntur verði ræddar sérstaklega, enda þeir félagar brautryðjendur á því sviði. Stungið hefur verið upp á að á þeim fundi verði kynnt þau drög sem þá munu liggja fyrir um áætlaða starfsemi Erfðalindar og yrði það góður vettvangur til að koma umræðu af stað innan þess geira um þátttöku þeirra sem láta sig málefni skrautrunna og garðtrjáa sig varða í verkefninu. Veltan í sölu á trjám og runnum er líklega mun hærri á landsvísu en í skógrækt, auk þess sem margir snertifletir eru við skógrækt, svo sem í útivistarskógrækt.
Leiðir
Á þessu stigi er ekki hægt að benda á eina rétta eða færa leið. Það er þó afar mikilvægt að finna þessu máli góðan farveg sem allra fyrst. Ljóst er að verkefnið ?Erfðalind skógræktar? verður aðallega fjármagnað af ríkinu með einum eða öðrum hætti, líkt og annað skógræktarstarf í landinu. Nú er fjárlagagerðin í fullum gangi og mikilvægt að geta kynnt málið í tengslum við hana. Eins hefur skapast óvissa með öflum trjáfræs fyrir næsta ár og þau mál verður að leysa nú í haust.
Hér á eftir fer nk. málamiðlunarleið út frá þeim hugmyndum sem fram hafa komið. Eins og gerist með allar miðlunartillögur verður hægt að þróa hana frekar þar til sú samstaða næst sem nauðsynleg er. Því má líta á þessar hugmyndir sem ákveðna leið til þoka málinu áfram frekar en hér sé á ferðinni einhver formleg tillaga.
Erfðalind skógræktar
Markmið:
- Annast söfnun, varðveislu, skráningu og miðlun þess erfðaefnis til plöntuframleiðenda sem hentugast er til skóg- og trjáræktar.
- Sjá um að framleiðendur hafi aðgang að nægjanlegu magni af erfðaefni til framleiðslu á öllum helstu tegundum sem notaðar eru í íslenskri skógrækt.
- Auka fjölbreytni í tegundavali í íslenskri skóg- og trjárækt.
- Stuðla að bættum erfðafræðilegum gæðum skógarplantna, í því augnamiði að geta ræktað hraustari og hraðvaxnari skóg.
- Koma á framfæri upplýsingum og rannsóknarniðurstöðum sem nýst geta ræktendum um vali á erfðaefni. Leita að götum í þekkingu og hvetja til rannsókna á þeim sviðum þar sem þekkingarþörf blasir við.
Rekstrarform:
Erfðalind verði sérstakt samstarfsverkefni helstu hagsmunaaðila í skóg- og trjárækt sem hafi með sér stjórn eða ráðgjafanefnd. Stjórnun og bókhaldsumsjón verði á ábyrgð Mógilsár, enda unnin í nánu samstarfi við sérfræðinga Mógilsár.
Umfang:
Fyrst í stað verði starfsemin að mestu miðuð við þarfir skógræktar. Ekki er þó útilokað að færa út kvíarnar til garðtrjáa og runna ef áhugi og fjármagn reynist fyrir hendi. Þar er einkum horft til úrvalsathuganna fyrir garðplöntur, einkum þeirra sem hægt væri að nýta til að fegra útivistarskóga eða til annarra nota en timburs, skjóls og landbóta (t.d. berjarunna).
Fjármögnun:
Starfið verður fjármagnað af þeim aðilum sem að verkefninu standa. Einkum hefur verið horft til Skógræktar ríkisins, landshlutabundinna skógræktarverkefna og Skógræktarfélags Íslands. Auk þess verði leitað leiða til að afla fjármagns annarstaðar frá, svo sem með framlögum úr sjóðum eða beint úr ríkissjóði. Ef starfsemin þróast áfram yfir í úrvalsathuganir fyrir garðplöntur verða þeir aðilar sem þar eiga hagsmuna að gæta að leggja til fjármagn.
Starfsmenn:
Starfsmaður Erfðalindar heyri stjórnunarlega undir Rannsóknarstöðina á Mógilsá. Starfstöð gæti þó verið annarsstaðar á landinu, enda verkefnið unnið á landsvísu. Til að einfalda málið og koma því af stað sem fyrst þá er rétt að byrja smátt og auka frekar umfangið ef áhugi og fjármagn fæst á síðari stigum. Fyrst í stað væri þá nóg að ráða starfsmann í 50% starf við Erfðalindana. Það mætti hugsa sér að ráða starfskraft sem eingöngu væri í þessu hlutastarfi en sennilega væri heppilegra að starfsmaðurinn væri í einnig í 50% starfi við verkefni sem nýst gæti Erfðalindinni án þess að vera beint á hennar verksviði. Með þessu væri hægt að minnka kostnað en einnig að rjúfa faglega einagrun starfsmannsins eins og hætta væri á ef þetta yrði einhverskonar einyrkjastarf.
Annað:
Þessi hugmynd skilur sig frá þeim tillögum sem ræddar hafa verið á undanförnum misserum með því að hér er ekki gert ráð fyrir að starfsemi gróðrastöðva Skógræktar ríkisins falli undir starfsemi Erfðalindarinnar. Það kemur þó ekki í veg fyrir það að gróðrastöðvarnar gegni áfram mikilvægu hlutverki í fræframleiðslu og fræsöfnun. Erfðalindin væri sjálfstætt samstarfsverkefni, með sérstaka ráðgjafanefnd, og hefði samvinnu við marga aðila til að ná markmiðum sínum. Einn mikilvægasti samstarfsaðilinn væru skógarverðir og gróðrarstöðvar Skógræktar ríkisins.
Það er mikill vilji og áhugi hjá skógarvörðunum og aðalskrifstofu Sr. að nýta þá þekkingu og aðstöðu sem er fyrir hendi á Hallormsstað, Vöglum, Tumastöðum og jafnvel víðar til að varðveita og framleiða erfðaefni. Þar er hinsvegar ekki áhugi á að taka á sig skyldur varðandi útvegun á öllu því erfðaefni sem þörf er á í skógrækt. Til að uppfylla markmið númer tvö hér að ofan er því betra að skilja Erfðalindina frá starfsemi gróðrastöðvanna.
Meðal verkefna Erfðalindar er að miðla upplýsingum til ræktenda ásamt því að aðstoða við útvegun erfðaefnis. Þetta þarf Erfðalindin að gera með samstarfi við aðila bæði innan og utan S.r. Einnig er gert ráð fyrir að fjármagn komi frá fleiri aðilum eins og greint er frá hér að ofan. Því gæti talist eðlilegt að Erfðalind verði ekki í of nánum stjórnunalegum tengslum við gróðrarstöðvar Sr. sem væntanlega verður einn helsti heildsöluaðili á trjáfræi og græðlingum til skógræktar.
Miðlun erfðaefnis
Margir hafa áhyggjur af hvernig staðið verður að útvegun trjáfræs nú þegar Mógilsá hefur ákveðið að hætta fræheildsölu. Eins og fram kemur í tillögunum hér að ofan er gert ráð fyrir að Erfðalind skógræktar hafi það hlutverk að tryggja aðgang framleiðanda að nægjanlegu magni af erfðaefni til framleiðslu á öllum helstu tegundum skógræktar. Ein leið til að ná þessu markmiði er að koma á ?pöntunarfélagi? sem sér um innkaup á trjáfræi fyrir framleiðendur og/eða helstu skógræktarverkefni. Fyrirmynd af slíku samstarfi er hægt að sækja til Noregs þar sem ráðunautur þarlendra gróðrarstöðva hefur séð um að afla tilboða og sjá um magninnkaup á áburði og torfi. Með þessu móti er hægt að minnka tilkostnað af fræinnkaupum þar sem hægt er að gera stór magninnkaup án þess að leiði til þess að óseldar birgðir safnist upp. Þetta krefst hinsvegar mikillar fyrirhyggju hjá framleiðendum og helsu plöntukaupendum því nauðsynlegt er að áætla fræmagn með a.m.k. sex mánaða fyrirvara.
Samkvæmt ofansögðu þá hefur Erfðalind skógræktar ákveðið þjónustuhlutverk gagnvart skógrækt í landinu. Æskilegt er að þessi starfsemi tengist annari þjónustustarfsemi Mógilsár. Mikilvægt er að starfsmaður Erfðalindar starfi í nánu samstarfi við sérfræðinga Mógilsár og þá ekki síst Hrefnu Jóhannesdóttur. Hún hefur meðal annars sinnt ráðgjafahlutverki fyrir framleiðendur ásamt því að vera ritstjóri Plöntutíðinda en það tímarit inniheldur upplýsingar fyrir framleiðendur skógarplantna. Einnig er mikilvægt að sú mikla reynsla og þekking sem Þórarinn Benedikz hefur á fræumsýslu og samböndum við fræbirgja í útlöndum nýtist verkefninu. Með því að samþætta rannsóknarstarf, þjónustu og þróunarvinnu við starfsemi Erfðalindar skógræktar er hægt að ná fram mikilvægri framþróun í framleiðslu trjáplantna á Íslandi.
Lokaorð
Hér hefur verið farið yfir helstu hugmyndir og áherslur sem ég hef orðið var við í viðtölum mínum við skógræktarmenn síðustu tvær vikur. Sett er fram grunnhugmynd að rekstrarformi Erfðalindar þótt enn sé mörgum spurningum ósvarað. Þessi stutta skýrsla er sett fram til að taka saman stöðuna eftir tveggja vikna starf. Stefnt er að því að eftir aðrar tvær vikur verði komnar mótaðri hugmyndir, ein eða fleiri, um rekstrarform svo hægt sé að vinna markvist að fjármögnun verkefnisins og hrinda áætlununum í framkvæmd.
Egilsstaðir 16. september 2002.
Jón Kr. Arnarson