Ertuygla á Suðurlandi

Nú í sumar, eins og raunar undanfarin sumur, hefur verið mjög mikið um ertuyglulirfur á Suðurlandi.  Mikið hefur borist af kvörtunum frá skógræktendum, einkum í Rangárvallasýslu.  Við könnun á útbreiðslu sjúkdóma og meindýra dagana 28-31 ágúst sáust miklar ertuygluskemmdir á lúpínu í Vestur-Skaftafellssýslu.  Núna undanfarna daga hafa starfsmenn Mógilsár verið við mælingar á aspartilraun á Sóleyjabakka rétt sunnan við Flúðir.  Þar er verið að bera saman mismunandi afkvæmahópa úr asparkynbótum.  Þessar mælingar eru hluti af verkefninu “Betri Tré” sem Halldór Sverrisson stýrir.  Á Sóleyjabakka eru miklar ertuygluskemmdir, líkt og í fyrra.  Skemmdir eru mjög mismunandi eftir plöntum og einnig virðast þær vera mismunandi eftir afkvæmahópum.  Sáralítið hefur drepist af plöntum á svæðinu, jafnvel þeim plöntum sem verst urðu úti í faraldrinum í fyrra.  Kemur það heim og saman við athuganir Bjarna Diðriks Sigurðssonar á afleiðingum faraldurs á Skógasandi.  Á Sóleyjabakka virðast asparplöntur sem skemmdust í fyrra yfirleitt vaxa lítið í ár.  Þetta er ekki í samræmi við niðurstöður Bjarna Diðriks.  Hugsanlega stafar þessi munur af því að á Skógasandi stóðu asparplönturnar í lúpínubreiðu og át lirfunnar á lúpínunni gæti hafa hraðað niðurbroti lúpínunnar og þar með losað um næringarefni.  Á Sóleyjabakka er hinsvegar engin lúpína og slíkum áhrifum því ekki til að dreifa.

 

Guðmundur Halldórsson, skordýrafræðingur, Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins