Íslenskar stafafurur sóttar í jólatrjáaskóg. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Íslensk stafafura er á svipuðu verði hér á landi og þinsjólatré beint frá býli á Bretlandi og í sveitahéruðum í austanverðum Bandaríkjunum. Innfluttur nordmannsþinur frá Danmörku virðist álíka dýr hér á landi og í Danmörku og ódýrari en glæsiþinur og degli í Bandaríkjunum. Hvernig getur þetta gerst í landi þar sem meginhluti trjánna er innfluttur, flutningskostnaður verulegur, markaðurinn lítill og fákeppni í sölunni? Þorbergur Hjalti Jónsson, sérfræðingur í skógarhagfræði hjá Skógræktinni, kannaði jólatrjáamarkaðinn hér og í nágrannalöndunum austan hafs og vestan.
Við eigum því að venjast að innfluttur varningur sé dýrari hér en erlendis. Jólatré er dýrt að flytja því þau eru plássfrek og pakkast illa. Nordmannsþinurinn er algengasta lifandi jólatréð á Íslandi. Hann er ræktaður hjá jólatrjáabændum í Danmörku, settur í gáma og fluttur sjóleiðis til Íslands. Flutningskostnaður á jólatrjám úr danskri höfn til Íslands er um og yfir 15% af innflutningsverði upp úr skipi í íslenskri höfn. Af þeirri ástæðu einni mætti búast við hærra verði á Íslandi en í Danmörku. Um 35 þúsund þinstré eru flutt inn árlega og innflytjendurnir fáir. Hár flutningskostnaður, lítill markaður og fákeppni ætti út frá viðteknum verðskýringum að leiða til verðs í hæstu hæðum. En er það svo?
Höfundur kannaði verð á jólatrjám hér á landi daganna 10. til 14. og 17. desember sl. og leitaði einnig frétta af verðlagi fyrir þessi jól (2023) á sambærilegum jólatrjám í Danmörku, Bretlandi og Bandaríkjunum. Allt verð er hér gefið í heilum hundruðum því verð sem endar á 50, 90 eða 95 krónum rétt undir heilu hundraði eða þúsundi villir um fyrir verðskyninu. Verð er gefið fyrir tré í stærðarflokki 150 til 200 cm nema annað sé tilgreint. Sumir seljendur skiptu þessum flokki í tvo, 150-175 og 175-200. Í þeim tilvikum er gefið meðalverð þessara tveggja stærðarflokka.
Verðið á Íslandi
Hér á Íslandi er verð fyrr þessi jól (2023) á innfluttum nordmannsþini í stærðarflokki 150 til 200 cm hjá jólatrjáasölum á höfuðborgarsvæðinu á bilinu 5.000 til 11.000 kr. Meginhluti sölunnar er hjá stórverslunum með fjölbreytt vöruúrval og hjá þeim er lægsta verðið. Á höfuðborgarsvæðinu eru þessar verslanir Húsasmiðjan, Garðheimar, BYKO, IKEA og Bauhaus. Hjá þeim fékkst dagana 10.-14. desember 2023 þinur í stærðarflokki 150 til 200 cm og af þokkalegum gæðum á 6.500 til 9.300 kr.
Lægsta verðið, tæplega 5.000 kr., var tilboð á annars flokks þini hjá Húsasmiðjunni. Í fyrri hluta desember var gæðaþinur boðinn á nærri 8.000 kr. og sagt að verðið væri tilboð og trén hefðu áður boðist á nærri 10.000 kr. stykkið. Um miðjan desember var verðið á gæðatrjánum hækkað á ný í tæpar 10.000 kr. en sama verði haldið á lakari trjánum. Flest jólatré eru seld í síðustu vikunni fyrir jól og þetta verð er því það sem snýr að flestum kaupendum.
BYKO og Garðheimar selja einnig íslenska stafafuru. Tré í stærðarflokknum 150 til 200 cm eru boðin á tæplega 10.900 í BYKO og nærri 14.400 í Garðheimum. Verðið í BYKO er 28% hærra en á jafnháum nordmannsþini en í Garðheimum 56% hærra en á innflutta þininum af sömu trjáhæð.
Sum góðgerðarfélög á höfuðborgarsvæðinu selja lifandi jólatré. Þeim hefur fækkað hin síðari ár. Í fyrra hætti t.d. jólatrjáasala sem lengi var við Landakot í Vesturbæ Reykjavíkur. Ágóði af þeirri sölu rann til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna. Góðgerðarfélögin selja flest á hærra verði en stórverslanirnar. Þau selja í fjáröflunarskyni og kaupendurnir vilja styrkja gott málefni og greiða þeim því hærra verð.
Fyrir jólin eins og undanfarin ár selur Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík bæði íslensk og innflutt lifandi jólatré. Innfluttur nordmannsþinur 150-200 cm hár fékkst hjá þeim á 11.000 krónur en jafnhá íslensk stafafura á kr. 14.500. Þeir selja trén á verði í heilum hundruðum eða þúsundum en eru ekkert að villa um fyrir kaupendum með því að hafa verðið nokkrum krónum undir hundraðinu eða þúsundinu.
Skógræktarfélag Reykjavíkur bauð 150 til 200 cm stafafuru og önnur íslensk jólatré í þeirri stærð á 14.000 krónur en Skógræktarfélag Mosfellsbæjar og Skógræktarfélag Akraness buðu trén á 11.000 krónur. Að fjallaþini frátöldum voru aðrar íslenskar tegundir seldar á sama verði og stafafuran. Fjær borginni sést lægra verð. Sem dæmi seldi Skógræktarfélag Eyrarsveitar jólatré af þessum stærðarflokki á 7.000 krónur óháð tegund.
Á höfuðborgarsvæðinu voru íslensk jólatré önnur en fjallaþinur 150 til 200 cm há boðin á 10.900 til 14.400 krónur. Skógræktarfélag Mosfellsbæjar bauð fjallaþininn af þessum stærðarflokki á 17.000 krónur. Íslensku jólatrén voru því dýrari en þau innfluttu en sums staðar á landsbyggðinni fást þau á líku eða lægra verði en innfluttur þinur.
Verðið í Danmörku
Danskir jólatrjáabændur eru stórir á jólatrésmarkaði í Norðvestur-Evrópu. Þeir flytja mikið af trjám til nágrannalandanna Þýskalands og Bretlands og þótt ótrúlegt kunni að virðast einnig til Noregs og Svíþjóðar. Salan til Íslands er lítill hluti útflutnings þeirra.
Hér er ekki fjallað um heildsöluverð í útflutningi heldur það verð sem almenningur í Danmörku greiðir fyrir danskan nordmannsþin. Fyrir þessi jól 2023 er algengt verð fyrir nordmannsþin í smásölu til almennings í Danmörku á bilinu 200 til 600 danskar krónur. Í íslenskum krónum jafngildir það 4.000 til 12.000 krónum. Algengasta verðið á nordmannsþini virðist nær 6.000 til 9.600 íslenskar krónur. Þetta er verð fyrir eftirsóttasta stærðarflokkinn, 150 til 200 cm há tré. Verðið eins og það birtist almenningi virðist því litlu lægra í Danmörku en á Íslandi.
Verð í Bretlandi
Samkvæmt verðskrá bresks jólatrjáabónda er verð á nordmannsþini og glæsiþini í stærð 150 til 200 cm nú fyrir jólin 2023 um 60 pund eða nærri 10.400 íslenskar krónur. Verð á þini í sölu beint frá býli virðist eftir þessu svipað eða heldur hærra en fyrir innfluttan þin hér á landi.
Verð í Bandaríkjunum
Í Bandaríkjunum er algengt verð þessi jólin fyrir jólatré af glæsiþini í stærðarflokkum 5 til 7 fet (um 150 til 200 cm) nærri $76 eða 10.600 íslenskar krónur. Hjá jólatrésbændum í dreifbýli Wisconsin fást jólatré í þessum stærðarflokki á $70 til $100 (kr. 9.800 til kr. 14.000). Verðið er álíka og fyrir stafafuru á Íslandi en heldur hærra en fyrir innfluttan þin hér á landi. Þetta er verð í sölu til almennings beint frá býli en það segir ekki alla söguna.
Verðið í stórborgunum á austurströndinni er í hæstu hæðum. Hjá jólatrjáasölum á Manhattan í New York þarf að borga $60 til $120 eða 8.400 til 16.800 krónur fyrir 3 til 4 feta þin (90-120 cm há tré). Þar þarf að greiða álíka verð fyrir smátré og fæst fyrir meira en mannhæðar tré hjá jólatrésbændum í sveitunum.
Þrettánda desember 2023 ritaði blaðamaðurinn Ramsey Khalifeh grein um jólatrjáaverðið í New York í héraðsfréttablaðið Gothamist. Hann nefnir dæmi um verð á 6 feta (um 180 cm) jólatrjám í borginni sem flest eru þinir. Hjá einni jólatrjáasölu kostaði tréð $129 (18.000 kr.), hjá annarri $140 (um 19.500 kr.) og þeirri þriðju $199 (27.800 kr.). Þetta er verð á jólatrjám af algengustu gerð og stærð. Verðið er hátt í fleiri borgum. Í Arlington-hverfinu í Washington DC bauðst 7 feta (um 210 cm) lifandi jólatré á $450 (kr. 62.900!). Þetta var á jólatrjáasölu skátanna (Boy Scouts of America) en þeir selja jólatré til fjáröflunar fyrir starfsemina og treysta á stuðning velunnara.
Verð á jólatrjám í borgunum þar sem flestir búa er mun hærra en hér á landi og heldur hærra en hér í sveitunum. Síðastliðin sex ár hefur verð á lifandi jólatrjám í Bandaríkjunum hækkað ár frá ári og umfram almennt verðlag. Heimildarmaður í Washington-borg sagðist hafa fyrir fáum árum fengið 5 feta (um 150 cm hátt) degli í stórverslun (hliðstæðri Húsasmiðjunni og Bauhaus) á $40 eða um 5.600 krónur. Nordmannsþinur af þessari stærð fæst þessi jól fyrir álíka verð hér á landi í stórverslunum á höfuðborgarsvæðinu.
Blaðamaðurinn Ramsey Khalifeh fékk þau svör hjá jólatrjáasamtökum Bandaríkjanna (National Christmas Tree Association) að aðalástæða verðhækkananna væri trjáskortur sem væri afleiðing bankakreppunnar 2008. Þar við bættist hærri flutnings- og launakostnaður vegna verðbólgu síðustu ára og skakkaföll vegna veðurs. Trén eru ekki uppseld heldur rauk verð á gæðatrjám í hæstu hæðir og meira af lélegum trjám sem alla jafna færu í úrkast eru boðin til sölu og seljast á furðuháu verði. Heimildarmaður minn í Wisconsin sagði að ágætt úrval virtist af stærstu trjánum (yfir 200 cm) en góð tré í minni stærðarflokkum væru vandfundin.
Nánast öll jólatré í Bandaríkjunum eru ræktuð hjá jólatrjáabændum sem flestir hafa fremur lítil fjölskyldubú og sumir hafa jólatrén sem aukabúgrein með öðrum búrekstri. Í bankakreppunni 2008 lentu þeir margir í lausafjárþröng og neyddust til að draga saman seglin, sumir hættu að planta eða urðu gjaldþrota. Flest jólatrjáabúin sem hættu að gróðursetja voru lítil og meðalstór en stórframleiðendur héldu áfram að endurplanta jólatrjáaakrana. Jólatrjáakreppan hefur því fært ræktunina í meira mæli frá fjölskyldubúum til stórrekstrar.
Í Bandaríkjunum er ræktunarferillinn frá gróðursetningu til uppskeru jólatrjáa um áratugur. Þótt sumir hættu að planta skiluðu gömlu árgangarnir jólatrjám hver á eftir öðrum ár frá ári þar til jólatrén þraut að lokum. Fyrsta áratuginn eftir bankakreppuna voru því næg tré á vægu verði og hvatinn til að hefja eða auka jólatrjáaræktun virtist lítill.
Fyrir sex árum þegar trén tók að skorta og verðið að hækka batnaði afkoma jólatrjáabænda. Þeir fóru þá að huga að gróðursetningu en þá áttu gróðrarstöðvarnar ekki plöntur fyrir nýja kaupendur. Samdrátturinn í gróðursetningu eftir 2008 leiddi til þess að færri plöntur voru keyptar af trjáplöntugróðrarstöðvum. Þær áttu erfiða daga og urðu einnig að draga saman seglin og miða ræktunina við trygga kaupendur.
Í Bandaríkjunum tekur 3-5 ár að rækta góðar skógarplöntur fyrir jólatrjáaræktun. Gróðrarstöðvarnar þurfa því nokkur ár til að auka framleiðsluna. Þá tekur við áratugur uns trén koma á jólatrjáamarkaðinn. Það eru því horfur á jólatrjáaskorti og háu verði í Bandaríkjunum næstu árin.
Hvernig geta innflutt jólatré verið „ódýr“ á Íslandi?
Íslensk stafafura er á svipuðu verði hér á landi og þinsjólatré beint frá býli á Bretlandi og í sveitahéruðum í austanverðum Bandaríkjunum. Innfluttur nordmannsþinur frá Danmörku virðist álíka dýr hér á landi og í Danmörku og ódýrari en glæsiþinur og degli í Bandaríkjunum. Hvernig getur þetta gerst í landi þar sem meginhluti trjánna er innfluttur, flutningskostnaður verulegur, markaðurinn lítill og fákeppni í sölunni?
Skýringin er sennilega sú að frá því skömmu fyrir 1990 hafa stórverslanir sem sjálfar flytja inn og selja nordmannsþin verið ráðandi á jólatrjáamarkaðnum. Innflutti þinurinn er um 80% af sölu lifandi jólatrjáa og þessar verslanir selja meginþorra þessara trjáa. Aðrir á markaðnum selja trén dýrar og treysta á velvilja tryggra kaupenda sem vilja leggja góðu málefni lið.
Hér á landi eins og í Bandaríkjunum er verðið í þéttbýli lægst hjá stórverslunum með fjölbreytt vöruúrval. Stórverslanir selja jólatré ekki eingöngu vegna hagnaðar af trjásölunni sjálfri heldur einnig til þess að draga viðskiptavini í verslanirnar. Þeir koma til að kaupa jólatré og kaupa þá oft annan varning sem verslanirnar bjóða. Þær hafa því hag af að hafa verðið nægilega lágt til að draga fleiri viðskiptavini í búðirnar og auglýsa það rækilega á jólaföstunni. Að öðrum kosti færu margir frekar til jólatrjáakaupa til annarra á markaðnum svo sem skógræktar- og góðgerðarfélaga. Það skýrir trúlega að innflutt jólatré eru ekki dýrari en raun ber vitni.
Ég vil þakka Þorsteini Skúlasyni, Berglaugu Ásmundardóttur og Becky Chambers fyrir að afla upplýsinga um stöðuna á bandaríska jólatrjáamarkaðnum fyrir þessi jól.