Hugleiðing um umhverfis- og ferðamál
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri skrifar grein í Morgunblaðinu í dag í tilefni af degi íslenskrar náttúru sem var á föstudag. Þar ræðir hann ásýnd borgarfjalls Íslendinga, Esju, þar sem nú eru uppi ráðagerðir um kláfferju. Hann veltir líka fyrir sér áhrifum ferðaþjónustunnar á náttúru landsins og umhverfi okkar og hvað sé til ráða svo ekki fari allt úr böndum.
Grein Þrastar er á þessa leið:
Ég bý ekki á höfuðborgarsvæðinu en er reyndar borinn og barnfæddur Reykvíkingur og bjó þar á háskólaárunum. Reykjavík er mín höfuðborg ekki síður en þeirra sem þar búa. Ég á í Reykjavík og ber taugar til hennar. Það sama á við um borgarfjallið Esju. Að öðru í umhverfi höfuðstaðarins ólöstuðu er Esjan það langmikilvægasta sem gefur borginni svip. Manngerð einkenni borgarinnar eins og Hallgrímskirkja eða Harpa og náttúrutengdari einkenni eins og Tjörnin eða Viðey hverfa gjörsamlega í skugga Esju við að skapa ásýnd Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins alls. Esjan er það sem borgarbúar horfa til á hverjum degi til að átta sig, til að staðfesta vindátt og fyrir suma til staðfestingar á því að þrátt fyrir allt séu sumir hlutir óháðir ysi og þysi hversdagsins. Esjan gefur okkur svo margt sem er miklu meira virði en peningar.
Nú eru uppi hugmyndir um að skaða ásýnd borgarfjalls Íslendinga. Til stendur að reisa stóra og mikla kláfferju upp á Esju á mjög áberandi stað. Því fylgja gríðarstór möstur, vegagerð langleiðina upp á topp, stórar húsbyggingar í miðjum hlíðum og uppi á brún, þrálátar umferðarteppur á Vesturlandsveginum og landfrek bílastæði. Þetta verður mikið rask og mikið lýti í landslaginu, ör á fegursta stað í hlíðum Esju.
Og til hvers? Jú, af því að einhverjir sjá gróðavon í að flytja ferðamenn upp á Esju. Kláfferjunni er vel að merkja ætlað að standa á sama svæði og þar sem mest er gengið á Esjuna og mun því eyðileggja upplifun göngufólks, en það finnst ríki, borg og fjárfestum ekki mikilvægt. Þetta mun auk þess raska þjóðskóginum á Mógilsá, útivistarsvæði sem margir notfæra sér, en það finnst þessum aðilum ekki heldur mikilvægt. Mikilvægast er að staðsetja þetta á landi í ríkiseigu sem hægt er að ráðstafa til borgarinnar án útboðsferlis og síðan áfram til fjárfesta fyrir lítið fé. Auk þess er mikilvægt að þetta sé í alfaraleið við þjóðveginn í botni Kollafjarðar til að spara vegagerð og veiða sem flesta í ferðamannagildruna.
Íslendingar þurftu á sínum tíma að heyja þorskastríð við Breta til að ná yfirráðum yfir auðlindum hafsins umhverfis landið. Síðan þurftum við að bjarga fiskistofnunum frá okkur sjálfum og sett var upp kvótakerfi. Sama hvað mönnum finnst um réttlæti þess kerfis, þá var það nauðsynlegt til að stöðva rányrkju. Sjálfbær auðlindanotkun snýst einmitt um það að stjórna nýtingu í þágu almannahagsmuna til langs tíma, m.a. með því að koma í veg fyrir eyðileggingu þeirra vegna stundargróðahyggju og skorts á langtímasýn sem því miður er landlæg hér. Hún olli m.a. hruninu 2008, eða erum við búin að gleyma því?
Nú ganga Íslendingar nærri annars konar auðlindum með stundargróðahyggju að leiðarljósi. Allar helstu náttúruperlur landsins liggja undir skemmdum til þess eins að ferðaþjónustan geti grætt. Jú jú, það er „bönsj ov monní“ í boði fyrir suma og stjórnvöld kóa með af því að þetta lítur vel út þegar skoðaður er viðskiptajöfnuður við útlönd. Við sýnum enn og aftur sömu hegðun og þegar við útrýmdum síldinni og þegar öllum peningunum var mokað út úr Seðlabankanum: við erum að drita í vort eigið hreiður. Nú erum við að eyðileggja náttúruperlur landsins af einbeittum vilja og ásettu ráði með því að siga á þær erlendum ferðamönnum í milljónavís. Af ókunnum ástæðum virðist sú mengandi og umhverfisspillandi stóriðja sem felst í hömlulausum massatúrisma ávallt hafin yfir alla gagnrýni félagasamtaka og stofnana sem þó vilja kenna sig við náttúru- og umhverfisvernd. Það eru ekki ferðamennirnir sem bera hér ábyrgð heldur ferðaþjónustan, stjórnvöld og þegar upp er staðið íslenska þjóðin.
Mál er að linni. Koma þarf á reglum og eðlilegri skattheimtu á ferðaþjónustuna til þess bæði að hemja rányrkjuna og bæta fyrir skemmdirnar sem þegar eru orðnar og eiga bara eftir að aukast. Gott fyrsta skref væri fyrir ríki og Reykjavíkurborg að bjarga Esjunni með því að hafna þessari vondu hugmynd um kláfferju.