Elisabeth Köstinger, fulltrúi Austurríkis á Evrópuþinginu, mælir fyrir ályktun um nýja skógaráætlun Evrópusambandsins.
Fjölga má störfum í dreifbýli með betri skógarbúskap, segja Evrópuþingmenn
Í nýrri skógaráætlun Evrópusambandsins þarf að leggja áherslu á sjálfbæra skógrækt, stuðla að sem bestri nýtingu þeirra hráefna sem skógarnir gefa af sér og gera skógartengdan iðnað samkeppnishæfari svo ný störf skapist í greininni. Ályktun þessa efnis var samþykkt á Evrópuþinginu 28. apríl.
Elisabeth Köstinger, þingmaður Austurríkis á Evrópuþinginu, gerði grein fyrir málinu á þingfundinum. Hún segir að ný skógaráætlun Evrópusambandsins sé orðin mjög tímabær. Með henni sé brugðist við vaxandi sókn í skóga álfunnar og þeim miklu breytingum, bæði samfélagslegum og pólitískum, sem orðið hafi undanfarin 15 ár. Núgildandi skógaráætlun Evrópusambandsins var samþykkt árið 1998. Köstinger bendir á að miklir möguleikar felist í skógrækt, bæði til að skapa störf og örva vöxt í efnahagslífinu. Nýja áætlunin þurfi því að stuðla að sjálfbærri nýtingu timburs og annarra skógarafurða. Þó þurfi að varast að auka skrifræði eða flækja málin fyrir skógareigendum og skógargeiranum öllum.
Að takast á við nýjar áskoranir í sameiningu
Í ályktuninni er talað um að Evrópusambandið þarfnist nýrrar og ítarlegrar áætlunar til að taka á ýmsum málefnum sem ekki eru bundin við landamæri þjóðríkjanna. Þar eru nefnd málefni eins og skógareldar, loftslagsbreytingar, náttúruhamfarir og ágengar erlendar tegundir lífvera. Einnig verði að styrkja skógartengdar atvinnugreinar og bæta nýtingu hráefna eins og timburs, korks eða textíltrefja. Þannig megi auka samkeppnishæfni evrópskrar skógræktar, stuðla að því að Evrópa verði sjálfri sér næg um við, minnka viðskiptahalla og fjölga störfum í skógargeiranum. Ályktunin var samþykkt með 566 atkvæðum gegn 66 en 45 sátu hjá.
Aðildarríkin framkvæma, Evrópusambandið stillir strengi
Þingmenn Evrópuþingsins styðja þá áætlun Evrópuráðsins að þróa metnaðarfulla og skýra mælikvarða á sjálfbæra skógrækt í í nánu samstarfi aðildarlanda Evrópusambandsins, héraðsyfirvalda og skógareigenda. En þingmennirnir ætlast um leið til þess að sértækari mælikvarðar verði áfram á könnu yfirvalda í hverju landi fyrir sig. Evrópusambandið verði að leitast við að samhæfa betur áætlanir sínar í málefnum sem snerta skógrækt án þess þó að öll skógræktarstarfsemi verði sett undir lögsögu sambandsins, segir í ályktuninni.
Orkustefna og baráttan við loftslagsbreytingar
Spurn eftir orku eykst stöðugt og samkvæmt ályktuninni skal stefnt að því að auka vægi skóga í orkubúskap Evrópusambandsins. En þingmenn Evrópuþingsins vilja líka fá skýrari mynd af því hvaða áhrif mismunandi notkun lífmassa úr skógunum hefur á loftslagsmálin til eða frá. Þannig megi draga fram hvaða nýtingaraðferðir stuðli helst að minnkaðri losun koltvísýrings eða aukinni bindingu.
Meiri stuðning við rannsóknir,
þróun og nýliðun í skógargeiranum
Til þess að stuðla að nýsköpun í framleiðslu og tryggja skynsamlegri nýtingu auðlindanna leggja þingmenn Evrópuþingsins eftirfarandi til við Evrópuráðið og aðildarlöndin:
-
Að nýta fyrirliggjandi rannsóknaráætlanir Evrópusambandsins, svo sem Horizon 2020 áætlunina, og hvetja til markvissra rannsókna á nýjum og hagkvæmum framleiðsluvörum úr timbri.
-
Áhersla sé lögð á að safna gögnum til langs tíma innan hins nýja evrópska upplýsingakerfis um skóga (
EFDAC) svo að sem bestan skilning megi fá á þróun og horfum í skógarmálum en einnig að nýta þá möguleika sem Copernicus-áætlunin gefur - og önnur sambærileg verkefni - til söfnunar landfræðilegra upplýsinga með gervitunglum.
-
Skipulögð verði þjálfunarverkefni fyrir unga skógfræðinga og notuð öll tiltæk meðul Evrópusambandsins til að laða ungt fólk inn í greinina.
Aukin skógvernd um allan heim
Þingmennirnir á Evrópuþinginu beindu því til Evrópuráðsins að lokið yrði við úttekt á áhrifum timburreglugerðar Evrópusambandsins sem ætlað er að vinna gegn ólöglegu skógarhöggi og sölu ólöglega fengins viðar á Evrópumarkaði. Um leið yrði að vinna aðgerðaráætlun til að koma í veg fyrir skógareyðingu og hnignun skógarvistkerfa.
Rótin að nýrri skógaráætlun
Evrópusambandsins
Nýrri skógaráætlun Evrópusambandsins er sem fyrr segir ætlað að koma í stað áætlunar sem samþykkt var árið 1998. Frá þeim tíma hefur mikið vatn runnið til sjávar og þar á baráttan við loftslagsbreytingarnar stóran hlut að máli. Evrópa býr vel að skógum. Skógar þekja um 40% af öllu landi í Evrópusambandinu og þeir taka upp um tíund af þeim koltvísýringi sem losnar í þessum löndum af manna völdum. Um sextíu prósent skóganna eru í einkaeigu en um fjörutíu prósent í eigu hins opinbera. Yfir þrjár milljónir íbúa í löndum Evrópusambandsins starfa innan skógargeirans.
Miklir hagsmunir eru í húfi, ekki síst í þeim löndum þar sem skógarþekjan er mest. Í sex löndum Evrópusambandsins er skógarþekja yfir 50%, mest í Finnlandi og Svíþjóð, 77%, þá í Slóveníu, 63%, og í Eistlandi, Lettlandi og á Spáni er skógarþekjan kringum 55%. Samanlögð velta viðariðnaðar, húsgagnaiðnaðar, pappírsiðnaðar og prentiðnaðar í Evrópusambandinu nemur hátt í 500 milljörðum evra á ári og skógarnir leggja til tæpan helming af allri endurnýjanlegri orku sem notuð er í löndum sambandsins. Orkan sem skógarnir gefa nemur 5,1 prósenti af allri orku sem lönd sambandsins nota. Glöggva má sig betur á þessu í myndinni hér neðst á síðunni þar sem helstu staðreyndirnar bak við væntanlega skógarstefnu Evrópusambandsins eru tíundaðar.
.