Áhersla lögð á sjálfbæra nýtingu og hóflegt skrifræði
Skógar Evrópu og þær atvinnugreinar sem á skógunum byggjast hafa margvíslega þýðingu fyrir efnahag álfunnar og stuðla bæði að góðum lífskjörum og sjálfbærni, skapa störf og virðisauka. Þetta segir Evrópuþingmaðurinn Elisabeth Köstinger í grein sem hún skrifar í veftímaritið The Parliament Magazine. Köstinger er þingmaður EPP á Evrópuþinginu, flokks kristilegra demókrata og hægrimanna, og situr fyrir hönd Austurríkis. Hún stýrði gerð skýrslu um nýja skógarstefnu eða -áætlun sambandsins.
Grein Köstinger birtist 1. júní og þar bendir hún á að yfir þrjár og hálf milljón Evrópubúa hafi atvinnu sína af skógrækt, skógarnytjum og ýmissi starfsemi sem þeim tengist. Aðeins málm- og matvælaiðnaðurinn skapi fleiri störf en skógargeirinn í álfunni.Yfir 450.000 fyrirtæki í skógargeiranum afli sjö prósenta af samanlagðri landsframleiðslu ESB-landanna en aðeins 60% þess viðarmagns sem myndast í evrópskum skógum séu felld á hverju ári. Auðlindin er því að stækka og kolefni að bindast.
Trjáviður er ein mikilvægasta auðlind fólks í dreifbýli vítt og breitt um Evrópu, skrifar Köstinger. Víðast hvar um álfuna er skógum viðhaldið með sjálfbærum hætti á vegum fyrirtækja, stofnana og skógareigenda sem eru um sextán milljónir talsins. Þetta fyrirkomulag segir Köstinger að geti tryggt að skógarnir standi áfram með sjálfbærum hætti undir vistfræðilegu, efnahagslegu og samfélagslegu hlutverki sínu. Meira en helmingur evrópskra skóga sé í einkaeigu og með sjálfbærum skógarnytjum sé verndun skóganna tryggð til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir um langa framtíð.
Allt þetta sem hér hefur verið talið upp segir Köstinger að sé í anda þeirra markmiða sem sett voru á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Rio de Janeiro í Brasilíu árið 1992. Þar var rætt um að sjálfbær þróun skyldi miðast við þarfir nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum og ráða lifnaðarháttum sínum. Köstinger segist hafa haft öll þessi framangreindu atriði í huga við skýrslugerðina og allan tímann haft bak við eyrað að styrkja þyrfti skógana og atvinnulífið sem þeim tengist, efla hlutverk skógargeirans í samfélagslegu, efnahagslegu og umhverfislegu ljósi og leggja áherslu á við sem sjálfbært hráefni og mikilvæga auðlind fyrir Evrópu.
Ungur broddhlynur (Acer platanoides) í þýskum skógi. Mynd: Pétur Halldórsson.">
Köstinger segist mjög ánægð með að framsækin öfl á Evrópuþinginu skuli hafa orðið ofan á með því að meirihluti þingmanna veitti þessari samræmdu áætlun brautargengi. Þar með hafi þingið lýst yfir eindregnum stuðningi sínum við sjálfbæra skógarnýtingu í álfunni. Mörg þeirra sviða sem löggjöf Evrópusambandsins nær yfir hafi áhrif á nýtingu skóga, svo sem orkumálin, umhverfismálin og loftslagsstefnan. Þess vegna telur Köstinger mjög mikilvægt að með hinni nýju skógastefnu Evrópu verði lögð áhersla á betri samhæfingu allra afla sem í hlut eiga. Þá þurfi að marka skógum og skógartengdri starfsemi skýran bás í stefnumiðum Evrópusambandsins svo að sérfræðiþekking nýtist sem best.
Hlutverk sitt taldi Köstinger líka vera með skýrslugerðinni að koma í veg fyrir að skógareigendur og aðrir sem umsjón hafa með skógum þyrftu að kljást við nýjar hindranir vegna aukins skrifræðis í kjölfar sameiginlegrar skógarstefnu. Meirihluti reyndist vera á Evrópuþinginu fyrir skýrri aðgreiningu skógræktaráætlana og áætlana Natura 2000 sem er netkerfi náttúruverndarsvæða í löndum Evrópusambandsins. Með þessari skýru aðgreiningu segir Köstinger að þingið hafi eindregið hafnað þeirri tilhneigingu að færa samfélagslegar skyldur yfir á herðar skógareigenda.
Skýrsla Evrópuþingsins sýni svart á hvítu að sjálfbær skógarnýting verði alltaf að vera á forsendum greinarinnar sjálfrar án tillits til þess hvernig viðurinn er á endanum nýttur. Allt annað yrði óhagkvæmt, myndi leiða til óhóflegs skrifræðis og galins áætlanabúskapar.
Viðmið um sjálfbærni eru gæðastimpill skógargeirans og vegna þess hversu fjölbreytilegir og ólíkir evrópskir skógar geta verið telur Köstinger ómögulegt að steypa þá alla í sama mót í regluverki. Þess vegna styðji Evrópuþingið markvisst við þá undibúningsvinnu sem er í gangi í löndum Evrópusambandsins sem hluti af Forest Europe og miðar að sjálfbærri nýtingu skóga álfunnar með meðalhóf og hagkvæmni að leiðarljósi.
Í þágu bættrar samhæfingar segir Köstinger að sérstök áhersla hafi verið lögð á rannsóknar- og þróunarstarf. Með úrvinnsluiðnaðinum getur allur skógargeirinn hagnast gífurlega á nýjum og skilvirkum framleiðslutækifærum og hugmyndum að nýjum framleiðsluvörum. Möguleikinn á nýsköpun og frekari þróun lífhagkerfisins og sjálfbærrar nýtingar hráefna sé ekki eingöngu uppspretta vaxtar og nýrra atvinnutækifæra heldur verðmætt innlegg í baráttuna við loftslagsbreytingar.
Að lokum heggur Elisabeth Köstinger enn í sama knérunn, að Evrópuþingið hafi einhent sér í að ný skógaráætlun eða -stefna þess verði innleidd með eins lítilli yfirbyggingu og skrifræði og mögulegt er. Þetta muni styrkja skógargeirann án þess að því fylgi nýjar kvaðir. Evrópuráðið þurfi að forgangsraða rétt með áherslu á vöxt, störf og fjárfestingar.