Bakkakotsbærinn í Skorradal og umhverfi hans þykir hafa varðveislugildi og veitti Húsafriðunarsjóður 200.000 krónur til varðveislu hans í úthlutun sinni fyrir 2015
ATH. Þessi frétt hefur verið uppfærð 29.8.2023
Leigð til 25 ára gegn því að hús verði varðveitt og lagfærð
Skógrækt ríkisins auglýsir um þessar mundir til leigu spildur úr tveimur eyðijörðum sínum í Skorradal. Spildurnar verða leigðar út gegn því að húsin sem á þeim standa verði lagfærð í upprunalegri mynd og aðrar menningarminjar sem þar er að finna varðveittar. Annars vegar er bærinn Sarpur með íbúðarhúsi sem reist var 1938 en hins vegar Bakkakot frá 1931.
Minjastofnun Íslands verður höfð með í ráðum um endurbætur á húsunum og varðveislu menningarminja á spildunum. Gerður verður leigusamningur til 25 ára, spildan hnitsett og henni gefið sérstakt lóðarnúmer í fasteignaskrá.
Eyðijörðin Sarpur er fyrir innan Skorradalsvatn. Bærinn stendur við landsveg F508 04 sem er 9,93 km malarvegur og liggur frá Fitjum að Uxahryggjavegi (52). Ekki er vetrarþjónusta á veginum. Íbúðarhúsið í Sarpi er bárujárnsklætt steinhús, reist 1938. Það hefur staðið að mestu ónotað frá 1970 og er illa farið samkvæmt fyrirliggjandi úttekt og mati á ástandi þess. Þar er hvorki rafmagn né rennandi vatn.
Hin eyðijörðin, Bakkakot, er sunnan við Fitjaá til móts við Fitjar í Skorradal. Að bæjarhúsunum er tæplega tveggja kílómetra leið eftir slóða 520 02 frá Fitjum. Bakkakot fór í eyði 1964. Bæjarhúsið er úr grófri steinsteypu sem mikið grjót hefur verið borið í. Steinveggirnir eru víða sprungnir þar sem vatn kemst að steypu. Innviðir hússins eru merkilega ófúnir nema gólf og gluggar. Útveggir eru einangraðir með reiðingstorfi og klæddir timbri. Byggingin og umhverfi hennar hefur varðveislugildi. Húsafriðunarsjóður veitti 200.000 krónur til brýnustu úrbóta á húsinu á þessu ári. Eins og í Sarpi er hvorki rafmagn né rennandi vatn í Bakkakoti og vegurinn ekki ruddur á vetrum.
Í auglýsingu frá Skógrækt ríkisins kemur fram að leigjendur þessara spildna skuli láta vinna á sinn kostnað teikningar og áætlanir um endurgerð húsanna. Leigjendur skuldbindi sig jafnframt þess að kosta endurgerð húsanna í samráði við Minjastofnun Íslands og annast aðrar þær minjar sem á landspildunni eru og falla undir lög um menningarminjar nr. 80/2012.
Endurgerð íbúðarhúsanna skal miðast við upphaflega gerð þeirra en þó er heimilt að gera á því tæknilegar endurbætur, eftir því sem hæfa þykir í samráði við Minjastofnun Íslands.
Kostnaður við endurgerð eða endurbætur á húsunum verður ekki endurgreiddur þegar leigutíma lýkur eftir 25 ár og ákvæði ábúðarlaga gilda ekki um þessa samninga.
Við val á umsækjendum um leigu spildnanna tekur Skógrækt ríkisins mið af hagsmunum minjaverndar. Leitað verður álits Minjastofnunar Íslands vegna fyrirhugaðra framkvæmda umsækjanda og hvort þau standast fyrrnefnd lög um menningarminjar. Umsækjendi skal gera grein fyrir fyrirhugaðri notkun hússins. Þá verður metið sérstaklega hvort áform umsækjenda teljast raunhæf að teknu tilliti til staðhátta.
Umsækjendur skulu senda skriflegar umsóknir til Skógræktar ríkisins, Miðvangi 2-4, 700 Egilsstöðum, fyrir mánudaginn 5. október 2015.
Fyrirspurnir sendist á netfangið skogur@skogur.is, upplýsingar eru einnig veittar í síma 470 2000.
Hafið samband við FSRE
Athugið að þessi frétt er úrelt því FSRE (Framkvæmdasýslan - Ríkiseignir) hefur tekið við umsýslu með flestum fasteignum í eigu ríkisins og þar með útleigu þeirra, innheimtu húsaleigu, samningagerð og þess háttar. Sjá vef stofnunarinnar: https://www.fsre.is/