Magnað myndband um ótrúlegan árangur í Ísrael
Þar sem áður var gróðurlaus eyðimörk í sunnanverðu Ísrael vex nú þéttur skógur. Takmarkað regnvatnið er fangað með sérstökum aðferðum til að trén geti þrifist. Stærsti skógur Ísraels er ræktaður skógur í Negev-eyðimörkinni
Yatir-skógurinn heitir þessi stærsti skógur og er um 30 ferkílómetrar að stærð. Hanngrær í norðanverðri Negev-eyðimörkinni sunnarlega í Ísrael. Ræktun hans hófst árið 1966 og fyrir því barðist hugsjónamaðurinn Yosef Weitz, sem starfaði hjá framtakssjóðnum Keren Kayemeth LeIsrael Jewish National Fund, skammstafað KKL-JNF. Weitz sá fyrir sér að nota mætti tré til að breyta eyðimörk í gróið land. Svo einbeittur og staðfastur var hann í þessari sýn að hann fékk viðurnafnið faðir skóganna í heimalandinu. Og draumur hans varð sannarlega að veruleika. Yatir-skógurinn hefur gjörbreytt landinu á þessu þurrlenda svæði í Negev-eyðimörkinni, nokkuð sem efasemdarfólk taldi á sínum tíma með öllu ómögulegt.
Á vef KKL-JNF er bent á að aukið gróðurhúsaloft í lofthjúpi jarðar sé sameiginlegt áhyggjuefni allra jarðarbúa. Um allan heim reyni menn að draga úr losun koltvísýrings en til sé líka náttúrleg leið sem vinni gegn losuninni. Það sé skógrækt. Trén kljúfi kolefni úr andrúmsloftinu og bindi það í vefjum sínum en láti um leið frá sér súrefni. Alþekkt sannindi en síst ofmetin.
Yatir-skógurinn í Ísrael er lifandi sönnun þess sem hægt er að gera víða á þurrum, ógrónum svæðum heimsins. Skógurinn hefur stöðvað frekari landeyðingu í hæðunum norðaustur af borginni Beersheba, stærstu borginni í Negev-eyðimörkinni. Skógurinn hefur aukið mjög landgæði á þessum slóðum og vakið athygli um allan heim.
Dan Yakir, prófessor við Weizmann-vísindastofnunina í Ísrael hefur undanfarin ár stýrt alþjóðlegum rannsóknum á þeim náttúrlegu kerfum sem taka í sig hinar skemmandi gróðurhúsalofttegundir. Vísindafólk um allan heim vinnur samhliða að verkefnum á um eitt hundrað stöðum í heiminum og nýtur meginstyrks til þess frá Evrópusambandinu.
Yakir sjálfur hefur staðið fyrir rannsóknum sem hafa leitt af sér óvæntar niðurstöður. Í ljós hefur komið að barrtrén í Yatir-skóginum í útjaðri Negev-eyðimerkurinnar binda álíka mikið af kolefni og gefa álíka mikið frá sér af súrefni og skógar Evrópu.
Óhætt er að mæla með að fólk horfi á merkilegt myndband sem gert hefur verið um skógræktina í Negev-eyðimörkinni. Lýst er hvernig leirkenndur jarðvegurinn í eyðimörkinni myndar harða skel sem gerir að verkum að regnvatn rennur niður í lægðir og burt ef það kemst. Við skógræktina er meðal annars beitt þeirri aðferð að búa til bolla í landslagið þar sem regnvatn getur setið eftir. Þar eru trén gróðursett og árangurinn er ótrúlegur. Upp vaxa skógar með öflugu, sjálfbæru vistkerfi sem bindur í sér raka, hindrar jarðvegseyðingu, gefur af sér margvísleg verðmæti, meðal annars mat, en bindur líka kolefni úr andrúmsloftinu. Ónýtu landi sem ekkert gaf af sér hefur því verið breytt í dýrmætt nytjaland sem bæði nýtist íbúum landsins en líka öllu mannkyni því skógar sem binda kolefni eru sameiginleg auðlind og hagsmunamál jarðarbúa allra.
Hér á Íslandi má benda á fjölmörg dæmi um skóga sem vaxið hafa upp og eru að vaxa upp á eyðisöndum og melum. Markarfljótsaurar, Hólasandur og sandarnir í Kelduhverfi eru augljós dæmi og eins og áður hefur verið bent á hér á vef Skógræktar ríkisins eru tækifærin mikil hérlendis enda um 12% landsins gróðurlaust eða illa gróið land á láglendi.
Smellið hér til að horfa á myndbandið um skógræktina í Negev-eyðimörkinni.