Landfræðilegt kort af Hafnarsandi. Kortagerð: Björn Traustason
Skógur ræktaður á sjöunda hluta Hafnarsands yrði tveggja milljarða virði eftir 50 ár
Íslendingum er ekki tamt að nota orðið eyðimörk um gróðurlítil eða gróðurlaus svæði á landinu sínu. Við höfum vanið okkur á að tala um auðnir, eyðisanda og jafnvel að kalla eyðimerkurnar ósnortin víðerni. Það er samt svo að eyðimerkur Íslands eru íbúum landsins að kenna. Ofnýting og beitarálag olli því að gróður hvarf og landið blés upp. Bara á láglendi Íslands eru rúmir 12 þúsund ferkílómetrar ógróið land eða land með minna en 50% gróðurþekju. Þetta eru hvorki meira né minna en 12% landsins, allt saman láglendissvæði sem auðvelt er að rækta upp, til dæmis með nytjaskógi sem gefur af sér verðmæti, skapar störf og styrkir byggð í héraði.
Ein af eyðimörkum landsins er í Ölfusi og byggðin í Þorlákshöfn er umkringd auðninni. Ef til vill átta íbúar Ölfuss sig ekki á stærð eyðimerkurinnar í sveitarfélaginu. Þegar ekið er eftir þjóðvegunum sést víða lúpína og annar gróður en eins og sjá má á kortinu er þetta lítið annað en mjóar ræmur með fram vegunum. Þegar þeim sleppir tekur við ógróið eða illa gróið land sem engar nytjar eru að. Út úr myndinni má lesa að á sandinum, sem ýmist er nefndur Þorlákshafnarsandur eða Hafnarsandur, hefur mikið verið grætt upp á jörðunum Hrauni í Ölfusi, bæjunum í Selvogi og í næsta nágrenni Þorlákshafnar. Mikið verk er þó enn að vinna á stærstum hluta svæðisins, sem enn er í stórum dráttum eyðimörk. Einhverra hluta vegna er þetta land ekki enn gróið þrátt fyrir áratuga friðun. Samt er það með mildustu og úrkomusömustu svæðum á landinu.
Fyrir 75 milljónir króna væri hægt að rækta nytjaskóg á um 350 hekturum. Upplagt væri að byrja á slíkri ræktun í kringum byggðina í Þorlákshöfn. Skógarnir yrðu fljótlega að dýrmætu útivistarsvæði fyrir íbúana og eftir því sem trén stækkuðu færu Þorlákshafnarbúar að taka eftir breytingum á veðurfari. Skógur hefur ótrúleg áhrif á veðurfar, hægir vind og hækkar þar með staðarhita þar sem skjólsins nýtur. Garðrækt yrði auðveldari við hús í Þorlákshöfn og fleiri dagar þar sem hægt yrði að sitja úti og njóta veðurblíðu.
Síðast en ekki síst yrði til verðmæt auðlind í sveitarfélaginu og ný störf við skógrækt og skógarnytjar. Talað er um að nytjaskógur með einni milljón trjáplantna skapi rúmlega fjórtán ársverk þegar upp er staðið. Ef ræktuð er alaskaösp í iðnviðarskógi má uppskera eftir fimmtíu ár trjávið að verðmæti um tvær milljónir króna af hverjum hektara. Hundrað hektarar gæfu samkvæmt því 200 milljónir króna. Eyðimörkin í kringum Þorlákshöfn er, eins og sést á kortinu, um 7.100 hektarar. Ef ákveðið væri að rækta ösp á sjöunda hluta þessa lands, þúsund hekturum, fengjust fyrir viðinn eftir hálfa öld tveir milljarðar króna.
Ekki eru allir íbúar eyðimerkursvæða í heiminum svo heppnir að hafa næga úrkomu og upplögð tækifæri til að græða eyðimörkina sína upp þannig að komandi kynslóðir beri af henni arð. En þetta er hægt að gera í Ölfusi. Ávinningur af skógi sést eftir fáein ár í meiri landgæðum en ávinningurinn verður því meiri sem fleiri ár líða. Gott væri ef það gilti um allar fjárfestingar.
Meðfylgjandi myndir hefur Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá, tekið á Hafnarsandi. Þær sýna vel hvaða árangri má ná með ræktun þar. Kortið gerði Björn Traustason, landfræðingur á Mógilsá.