Mynd: Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri og Jón Loftsson, skógræktarstjóri. Ljósm. Áskell Þórisson.

Föstudaginn 23. nóvember var þess minnst með sameiginlegri dagskrá  Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins að Friðrik VIII. Danakonungur staðfesti lög þann 22. nóvember 1907 um skógrækt og varnir gegn upplæstri lands. Hannes Hafstein Íslandsmálaráðherra hafði lagt fram frumvarp um þessa málaflokka í júlí sama ár og þau hlotið samþykki Alþingis 11. september eftir allmikil átök á þingi.

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson flutti ávarp og árnaði stofnunum allra heilla. Forseti Alþingis, Sturla Böðvarsson, ávarpaði gesti svo og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Einar Kristinn Guðfinnsson.

Leikararnir Arnar Jónsson og Ragnheiður Steindórsdóttir lásu ljóð tengd náttúru landsins, Auður Gunnarsdóttir og Gunnar Guðbjörnsson, óperusöngvarar, sungu íslensk lög tengd tilefninu við undirleik Jónasar Ingimundarson. Steindór Anderssen kvað rímur og Skúli Björn Gunnarsson flutti fyrirlestur með myndasýningu sem hann nefndi „ÞRÆTUR Á ÞINGI“ og segir frá aðdraganda þessarar merkilegu lagasetningar. Um 300 hátíðargestir fögnuðu þessum tímamótum í Salnum í Kópavogi.

Að lokinni dagskránni í Salnum buðu stofnanirnar starfsfólki sínu og mökum til hátíðarkvöldverðar til að minnast 100 ára afmælis skógræktar- og landgræðslulaga á Íslandi.

 

Myndir út Salnum í Kópavogi

 

Heimild: land.is