Úr skóginum í Tungudal Skutulsfirði. Ljósmynd: Áskell Þórisson
Úr skóginum í Tungudal Skutulsfirði. Ljósmynd: Áskell Þórisson

Ísafjörður er vettvangur hinnar árlegu Fagráðstefnu skógræktar að þessu sinni. Ráðstefnan fer fram í Edinborgarhúsinu á Ísafirði og hefst með ávarpi fulltrúa ráðuneytisins og skógræktarstjóra klukkan níu í fyrramálið, 29. mars. Streymt verður frá ráðstefnunni.

Skógar og loftslagsbreytingar

Þema ráðstefnunnar að þessu sinni er skógrækt á tímum hamfarahlýnunar. Áhersla verður á þetta þema fyrri ráðstefnudaginn. Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, talar í upphafserindi ráðstefnunnar um hlutverk skógræktar í baráttunni við loftslagsbreytingar. Arnór Snorrason, deildarstjóri loftslagsdeildar á rannsóknasviði Skógræktarinnar, greinir frá nýrri spá um bindingu skóglenda fram til 2050 og að því búnu er erindi Bjarna Diðriks Sigurðssonar, prófessors við LbhÍ, og Halldórs Björnssonar á Veðurstofunni um loftslag framtíðar, ræktunarskilyrði og náttúruvá. Því næst eru erindi tveggja sérfræðinga á rannsóknasviði Skógræktarinnar. Brynjar Skúlason talar um aðlögun erfðaefnis skógræktar að loftslagsbreytingum og Brynja Hrafnkelsdóttir um áhrif hlýnunar á skaðvalda í skógum.

Náttúruvá

Eftir hádegi verður ýmis náttúruvá áberandi í dagskránni enda Ísafjörður að mörgu leyti miðstöð á því sviði. Ráðstefnugestir fá að heyra um Háskólasetrið á Vestfjörðum hjá Matthías Kokorsch, námsframboð þar og skógartengd verkefni. Aðlögunarhæfni lítilla og afskekktra samfélaga að náttúruvá á tímum loftslagsbreytinga er umfjöllunarefni Jóhönnu Gísladóttur, umhverfisstjóra Landbúnaðarháskólans, og svo fjallar Hreinn Óskarsson, sviðstjóri þjóðskóganna, um skógarskaða og aðlögun að loftslagsbreytingum. Ólafur Eggertsson, jarðfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, greinir frá því hvernig meta má snjóflóðasögu með aðferðum árhringjafræða og síðasta erindið fyrri daginn verður beint frá Sviss þegar Dr. Peter Bebi hjá CERC-rannsóknamiðstöðinni talar um tré, landhalla og ofanflóð.

Spennandi seinni dagur

Fjölbreytt erindi verða svo flutt seinni dag ráðstefnunnar, á fimmtudag. Fjallað verður um notkun trjábola til að varna rofi í árbökkum og fleiri varnir gegn landbroti en líka sagt frá brunanum í Heiðmörk og afleiðingum hans. Erindi verður um drög að áhættumati í Skógarkolefnisverkefnum en líka um magn kolefnis í jarðvegi birkiskóga, áhrif greniskógræktar á kolefnisbúskap í graslendi og áhrif yfirvetrunaraðferða í gróðrarstöð á vöxt og frostþol skógarplantna. Flutt verður mannfræðilegt erindi um íslensku skógræktarfélögin, notkun jarðvarma til viðarþurrkunar og íslensk víðiyrki.

Tæplega eitt hundrað manns sækja Fagráðstefnu skógræktar hvaðanæva af landinu. Fyrir fólk sem ekki hefur tök á að koma á staðinn verður boðið upp á streymi og erindi birt á vefnum. Slóð til að fylgjast með streymi verður birt hér áður en ráðstefnan hefst.

Nánari upplýsingar og dagskrá

Texti:  Pétur Halldórsson