En unga birkið leggst undan blautum snjónum

Skógfræðingarnir Rúnar Ísleifsson og Hallgrímur Indriðason fóru í vettvangsskoðun í Kristnesskóg í vikunni, aðallega til að líta eftir hvort grisja þyrfti þar birki. Í ljós kom að í skóginum eru gróðursetningar af barrtrjám sem nauðsynlega þyrfti að grisja sem fyrst. Betur þarf hins vegar að kanna skóginn til að segja til um hversu mikil þörfin er á grisjun birkisins og hversu mikið er þar af efni til eldiviðarvinnslu. Greinilegt er að blautur snjórinn sem einkennt hefur veðurfarið nyrðra í vetur hefur leikið unga birkið grátt á köflum eins og glöggt sést á meðfylgjandi myndum. Sumarið verður að leiða í ljós hversu vel trjánum tekst að rétta úr sér og hvort þau eru mikið brotin. Eldri tré virðast standa bleytusnjóinn betur af sér.

Innan um eru í Kristnesskógi mjög falleg birkitré og eitt þeirra vakti sérstaka athygli þeirra félaganna, Rúnars og Hallgríms. Það er mjög beinvaxið, með hvítan börk og dökkar greinar sem minnir um margt á hengibjörk. Ekki virðist það þó vera enda er ekki hægt að finna fyrir vörtum á nýjustu árssprotunum. Það er eitt megineinkenni hengibjarkarinnar eða vörtubirkisins eins og tegundin er líka kölluð. Segir Rúnar líklegra að þetta sé norsk ilmbjörk, trúlega af kvæminu Pasvik, enda sjáist á gögnum Skógræktar ríkisins að 300 plöntur af þessu kvæmi hafi verið gróðursettar í Kristnesskógi árið 1979. Mjög líklegt sé að þetta fallega tré sé eitt af þeim. Pasvik heitir dalur og þorp í Finnmörku, nyrst og austast í Noregi, skammt frá landamærum Rússlands, í totunni sem gengur til suðurs milli Finnlands og Rússlands. Í suðaustanverðum Pasvik-dalnum er þjóðgarður, Øvre Pasvik nasjonalparksenter, þar sem meðal annars er skóglendi með gamalli skógarfuru.


Norsk ilmbjörk í Kristnesskógi, líklega af Pasvik-kvæmi


Hallgrímur Indriðason stendur við fallega björk í Kristnesskógi

Myndir: Rúnar Ísleifsson