Það er spennandi að fylgjast með trávexti á Íslandi, sér í lagi vegna þess að hér eru ræktaðar erlendar tegundir sem við vitum ekki hversu hávaxanar verða í framtíðinni hér á landi.  2. september 1995 var í fyrsta sinn mælt 20 metra hátt tré og var haldin athöfn þar sem Davíð Oddsson forsætisráðherra festi skjöld á tiltekið lerkitré í Atlavíkurlundi í Hallormsstaðarskógi.   

Nú 9 árum seinna er 24 metra múrinn við það að falla.  Arnór Snorrason skógfræðingur á Mógilsá, Bjarki Þ. Kjartansson sérfræðingur og Ýmir Sigurðarson starfsmaður Suðurlandsdeildar mældu í lok ágúst 23.9 metra háa alaskaösp í Múlakoti í Fljótshlíð.  Hæðin var mæld með nýjum mælitækjum sem Arnór og Bjarki eru að þjálfa sig með nú í haust.  Öspin í Múlakoti er kvæmi af Kenaiskaga sem sótt var þangað 1943 og gróðursett í garðinn í Múlakoti 1944.  Frægt er að þessi ösp var skorin niður eftir vorhretið mikla í apríl 1963, og er þessi háa ösp vaxin upp af rót á 40 árum.

Nú er spennandi að vita hvort fréttist af fleiri mælingum og þá hvort einhversstaðar hafi 24 metra múrinn verið rofin.  Fréttaritari er þó ekki að espa til landshlutakeppni að þessu sinni.  Áhugaverðara er að bíða vormælinga Arnórs og Bjarka Þórs þar sem þeir munu fara víða um land með nýju mælitækin. 

Arnór og Bjarki Þór með nýju mælitækin.  Mynd: Sr./ ÓlO