TÍMAMÓT: FYRSTA RÍKISSTOFNUNIN SEM FLUTT VAR ÚT Á LAND
Í Fréttablaðinu í dag er viðtal við Jón Loftsson skógræktarstjóra, í tilefni þess að 15 ár eru síðan höfuðstöðvar skógræktarinnar voru flutt í Egilsstaði.
"Flutningurinn var happaspor, það er mitt mat,? segir Jón Loftsson skógræktarstjóri, en Skógrækt ríkisins er í dag búin að vera á Egilsstöðum í 15 ár. Skógræktin varð árið 1990 fyrsta ríkisstofnunin em flutt var frá Reykjavík. Jón segir að á þessum tíma hafi skógrækt fimmfaldast og spáir enn frekari vexti í greininni. ?Skógrækt hefur gengið í gegnum miklar breytingar á þessum 15 árum. Við vorum áður ríkisstofnun sem ræktaði skóg fyrir þjóðina. Í dag eru það fyrst og fremst bændur landsins sem sjá eiginlegar framkvæmdir, en við erum orðnir ráðgjafar, rannsóknaraðilar og sinnum stjórnsýslu,? segir Jón.
Skógræktarstjóri viðurkennir þó að breytingarnar í skógrækt landsins helgist ekki einvörðungu af flutningi stofnunarinnar austur á Egilsstaði. ?Þetta var búið að eiga sér ákveðinn aðdraganda. Það var verið að stofna um leið fyrsta stóra skógræktarverkefnið, sem var Héraðsskógur. Við vorum með í því í upphafi og unnum svo mikla vinnu við að útfæra þetta fyrir landið í heild. Í dag heita þetta landshlutabundin skógræktarverkefni.? Jón segir að viðbrögðin hafi verið mjög góð og bændur áhugasamir. Nokkuð er um að bændur færi sig yfir í skógarbúskap og annað hvort láti þá af eða minnki við sig í öðrum búgreinum. ?Þó að menn sem rækta skóg á eigin jörðum séu kannski ekki þar með heilsársstarf eru þeir þó með trygga atvinnu í einhverja mánuði á ári. Það getur skipt sköpum varðandi árstekjur þeirra þannig að menn geta enn búið í sinni sveit þó svo að annar búskapur hafi dregist saman.?
Jón segir að þrátt fyrir aukna skógrækt síðustu ár sé nokkuð í að hún breyti ásýnd landsins. ?Við verðum að halda ansi vel á spöðunum ef við ætlum að gera það. Í magni hefur skógrækt kannski fimmfaldast miðað við það sem var að gerast fyrir 15 árum. En jafnvel þó við höldum þessu striki næstu 40 árin gerum við ekki mikið annað en að bæta við prósenti eða tveim við það eitt prósent lands sem í dag er þakið skógi.? Hann segir vonir þó standa til að skógrækt geti aukist enn og vísar til aukins áhuga, hlýnandi loftslags á norðurslóðum og möguleika tengdum Kyotobókuninni um losun gróðurhúsalofttegunda. ?Við teljum okkur vera að búa til mjög mikilvæga auðlind í landi þar sem gróðureyðing er virkilega alvarlegt vandamál. Með okkar reynslu, þekkingu og rannsóknum þykjumst við reiðubúin til að takast á við þetta,? segir hann og bætir við að uppfylling skilyrða Kyoto-bókunarinnar geti skipt efnahag þjóðarinnar verulegu máli. ?Við getum þá bundið koltvísýring á móti því sem við mengum og myndað þannig inneign.? Þannig t ldi Jón að skógræktin gæti allt eins selt kvóta upp í mengun. ?Til dæmis ef togaraflotinn væri í vondum málum vegna þess að hann mengaði of mikið gætum við gegn gjaldi tekið að okkur að binda fyrir þá koltvísýring.?